08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2540)

211. mál, vegáætlun 1964

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur bent okkur flm. brtt. á þskj. 621 á það, að hann telji sig ekki geta látið ganga atkv. um till. Hann gat þess, ef ég hef tekið rétt eftir, að hann væri þeirrar skoðunar, að það mætti ekki ákveða fjárframlög úr ríkissjóði með þáltill. Ég er þeirrar skoðunar, að það séu mörg fordæmi fyrir því, að ríkissjóði hafi verið ákveðin útgjöld með þáltill., og hér sé engin ný aðferð á ferðinni, ekkert nýtt. En þrátt fyrir það höfum við að sjálfsögðu tekið fullt tillit til þessarar ábendingar hæstv. forseta, enda gaf hann okkur leiðbeiningar um það, hvernig hann teldi, að við gætum breytt till., svo að hún gæti gengið hér undir atkv. Við höfum orðið við því, og það er verið að vélrita till. upp í því formi, svo að ekki verður því um að kenna og ekki tækifæri til þess að vísa till. frá.

Hv. 11. landsk. hélt hér allskarpa ræðu áðan, sem ég nenni ekki að fara mikið út í, enda hefur hv. 5. þm. Vestf. gert henni nokkur skil. En ég vil leiðrétta allra stærstu missagnirnar í því, sem hann fór hér með áðan um vinnubrögð þm. Vestf. um Vestfjarðamál hér í atþingishúsinu. Hann sagði, að við, fim. þessarar till., hv. 1. þm. og 5. þm. Vestf. ásamt mér, hefðum ekkert gert annað en kasta fram sýndartill. hér við þessa umr. við áætlunina. Það væri það eina, sem við gerðum. En þeir, stuðningsmenn ríkisstj. meðal þeirra þm., hefðu haldið svolítið öðruvísi á spilunum. Þeir hefðu verið óánægðir með till. vegamálastjóra með nýbyggingarfé til Vestfjarða og þeir hefðu tekið síg til og farið beint til ríkisstj. Ég vil því skýra rétt frá þessu, hvernig þetta gekk fyrir sig.

Ég ætla, að það hafi verið á mánudagsmorgun, sem hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson, boðaði okkur alla á fund út af till. vegamálastjóra, sem þá voru alveg nýkomnar í hendur fjvn. Það voru ekki stjórnarstuðningsmennirnir á Vestfjörðum, sem boðuðu þann fund eða óskuðu eftir fundinum. Það var Hermann Jónasson, sem gerði það . Þegar á þennan fund kom, fórum við að ræða þessar till., og við vorum allir óánægðir með till., — allir. Ég flutti þá till. á þessum fundi, að við skrifuðum allir bréf til fjvn. og bentum henni á, að hér ætti að lækka stórkostlega hlut Vestfjarða í nýbyggingarfénu. Nei, þeir vildu það ekki. Þeir vildu ekki taka þátt í því. En hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, stakk upp á því, að ég talaði við vegamálastjóra og fengi staðfestingu á því, að þetta væri rétt reiknað, að svona ætti að lækka hlutfall Vestfirðinga. Og hann stakk upp á því líka, að ég talaði við hæstv. samgmrh, sem allra fyrst um málið, en þó ekki fyrr en ég væri búinn að fá staðfestingu á þessu. Nú vil ég spyrja aðra þm. Vestf. en hv. 11. landsk., hvort þetta er rétt eða hvort þetta er rangt, sem ég segi. Ég talaði við vegamálastjórann út af málinu innan hálftíma, frá því að fundinum lauk, og ég talaði við hæstv. samgmrh. þegar í þingfundarbyrjun eftir hádegi þennan sama dag, áður en þeir voru farnir að tala við hann. Ég held, að hv. 11. landsk. ætti að temja sér annað á fyrsta þinginu en að fara svona með sannleikann hér.

En þá tekur við þáttur þeirra í málinu. Þá fara þeir að semja við hæstv. ráðh. og engir aðrir, og auðvitað gáfu þeir okkur hinum ekki kost á því að vera þar með. Nei, það var óþarfi, þeir ætluðu nú að sigra einir, og þeir gerðu það líka. Sigurinn er sá, að í staðinn fyrir, að Vestfirðir eigi að lækka úr 191/2% niður í 13.1% eftir till. vegamálastjóra, lækka þeir núna niður í 14.4%. Það er árangurinn. Og hæstv. samgmrh. hefur ekki fallizt á annað en þetta, því að við hann ræddi ég. Það var ekki Þannig, að honum væri neitt ókunnugt um, að það ætti að lækka hlut Vestfirðinga úr 191/2% niður í 13.1. Ég gaf honum meira að segja blað yfir það, hvernig þetta væri, og auðvitað var það rétt, því að ég hef það staðfest frá vegamálastjóra. Nei, það tókst ekki betur til. Svo segir hv. 11. landsk.: Þið gerðuð ekkert, við gerðum þetta allt. — Já, þeir mega eiga það . Þeir gerðu það, þeir sömdu við hæstv. ráðh. og fjvn. um að lækka hlutfallið niður í 14.4%. Það gerðu þeir.

En það var fleira í ræðu hv. 11. landsk. þm. áðan. Hann sagði, að aldrei hefðum við flutt till. um að brúa Mórillu. Ég er hérna með þskj. frá þinginu 1962, þ.e. brtt. 218. Það eru brtt. við fjári., og ein till, á þessu þskj. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Frá Hannibal Valdimarssyni, Hermanni Jónassyni og Sigurvin Einarssyni. Við 13. gr. A. III. Nýr liður: Til brúar á Mórillu í Kaldalóni, fyrri fjárveiting, 985 Þús.“ (Gripið fram í) Fyrri fjárveiting, það skilur ekki hv. 11. landsk. þm., fyrri fjárveiting, það heldur hann að sé hálf brú. Það er búið að standa í fjárl. í fjöldamörg ár: fyrri fjárveiting eða fyrsta fjárveiting af þremur. Þá heldur hann, að þetta séu hálfar brýr eða partar af brúm. Og hann sagði, að við hefðum aldrei flutt till. um brúna. Mikið má hann vera stoltur af sannsöglinni sinni hér á Alþingi. Þá var gaman að heyra þessa setningu hjá hv. þm. Ég tel ekki rétt að ríghalda sér við prósentur. — Nei, þeir gerðu það heldur ekki. Þeir voru ekki að ríghalda sér við 19.5%. Nei, þeir fóru bara niður í 14.4%.

Í sambandi við vinnubrögð Vestfjarðaþm. um hagsmunamál Vestfirðinga yfirleitt vil ég auk þessa segja það, að strax í þingbyrjun í haust kallaði 1. þm. Vestf. okkur alla á fund og fór þá fram á, að við leituðumst við að hafa samstöðu um hagsmunamál Vestfjarðakjördæmis. Svörin, sem við fengum, voru þau, að það gæti ekki orðið, ef það kostaði peninga. Og hv. 2. landsk. þm. varð þá fyrir svörum. Þetta virðist vera að koma fram núna í dag í umr. um vegáætlunina og framlagið til Vestfjarða, ekki samstaða um það, sem kostar fé. Það hefur verið haldið sig við það nokkurn veginn.

Þá talaði hv. 11. landsk. um það, hvernig vegirnir hefðu þotið áfram, þegar sjálfstæðisþm. voru kosnir. Það er atveg rétt, Vestfirðir áttu einu sinni meðal annarra duglegan þm. Hann var þm. fyrir Barðastrandarsýslu og hét Gísli Jónsson. Hann hafði mikinn áhuga á umbótum í vegamátum. Mikið óskaplegt er að hugsa sér, að hv. 11. landsk. þm. skuli ekki hafa nað meiri árangri en orðið er í því að afla Gisla Jónssyni kjörfylgis á Vestfjörðum, eins og hann hefur lagt sig fram um það !

Hæstv. ráðh. talaði í kvöld um þessa brtt. okkar þremenninganna, og hann beindi máli sínu mjög til fjvn. Hún hefur úthlutað öllu fénu, sagði hæstv. ráðh. Þetta átti að þýða það, að ekki mættum við fara að koma með hækkunartill. En nú hefur hæstv. forseti bent okkur á leið til þess að koma með hækkunartill., sem ekkert er við að athuga, og það er verið að vélrita hana núna.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh.: Fjvn. hefur ekki viljað níðast á neinum. — Hvað kallar hann að níðast? Finnst honum, að þetta sé ekki áníðsla, að lækka hlut Vestfjarða, eins og nú á að gera? Af hverju datt honum áníðsla í hug? Hverjir kölluðu þetta að níðast á kjördæminu? En fjvn. hefur ekki neitað neinum leiðréttingum á till. sínum. Þó að hæstv. ráðh. langi til að binda fjvn, rækilega, alla nm., við till. n., þá vill nú svo til, að í nál. fjvn, stendur um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

N. stendur sameiginlega að áliti þessu, en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.“

M.ö.o.: einstakir nm. eru búnir að lýsa því yfir, að þeir kunni að greiða atkv. með brtt., sem kunna að verða fluttar, eða jafnvei flytja sjálfir brtt. Þeir hafa ekki bundið sig fastar en þetta. Ég veit ekki, hvað þessir hv. nm. gera, en þeir hafa engum brugðizt, hvernig sem þeir greiða atkv. um brtt., sem fluttar eru. Það getur vel verið, að þeir líti eitthvað svipað á þetta mál og hæstv. ráðh. og hv. 11. landsk., að Vestfirðir eigi nú ekki að fá meira en þetta, ég skal ekkert segja um það. En þeir hafa a.m.k. engu lýst yfir í þá átt fyrir fram.

Þá taldi hæstv. ráðh. vafasamt, að skylt sé að taka lánsfé til vegagerðar upp í vegáætlun, þ.e.a.s. hann sagðist ekki hafa neitt á móti því, að slíkt væri gert, en það væri vafasamt, að það væri nokkur skylda. Það skiptir engu máli í þessu sambandi, hvort hann er á móti því eða með því. Annaðhvort er skylt að gera það eða ekki. En ég hélt þó, að þetta væri ótvírætt í vegal., og ég hef engan heyrt véfengja það. 10. gr. l. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegamálastjóri semur till. að vegáætlun fyrir þjóðvegi, aðalfjallvegi og aðra fjallvegi til 4 ára í senn til leiðbeiningar um skiptingu þess fjár, sem til ráðstöfunar er hverju sinni til vegagerðar. Skal áætlunin annars vegar gera grein fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu, en hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna vega.“

Það skal gera það í vegáætlun. Og enn ákveðnara má segja, að þetta standi í 11. gr., en þar segir:

„Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir, svo og nýbyggingar þjóðvega, á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda.“

Þarna skal tilgreina nýbyggingar, sem á að framkvæma á því tímabili, sem vegáætlunin á að gilda, og þessi vegáætlun á að gilda þetta ár. Hvað eru menn Þá í vafa um? Ég vil ekki segja, að þetta komi að neinni verulegri sök í þetta sinn, nema að því leyti að þetta verði notað sem fordæmi og haldið verði áfram að taka lán til vega og láta það aldrei koma inn á vegáætlun og þannig geti ríkisstj. , hver sem hún er, haft í höndum sér raunverulegt fjárveitingavald hvað þetta snertir. En það er algerlega á móti lögunum að mínum dómi.

Annars ræddi hæstv. ráðherra um óánægju okkar þremenninganna, sem flytjum brtt. um vegaframlög til Vestfjarða, á þá leið, að menn séu alltaf óánægðir, menn vilji fá meira og svoleiðis, þetta væri ekkert annað en hégómi, bara hreinasti hégómi. En hvernig stendur á því, að enginn hefur talið ástæðu til að flytja brtt. við þetta nema við? Það er af því, að þetta eina kjördæmi sker sig svo úr, hvað hlutur þess á að lækka frá því, sem áður var, að við getum ekki unað þessu. Hér á þingi á nú sæti varaþm., sem átti lengi sæti hér á Alþingi, hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson. Hann sagði í ræðu sinni hér áðan: „Það reyndist erfitt að fá hlutföllum breytt í fjárveitingum til einstakra sýslufélaga.“ Og þetta er rétt. Þetta reyndist erfitt. Það voru alltaf hér um bil sömu hlutföllin á skiptingu vegafjár ár eftir ár, og við bjuggumst sannarlega við því, að núna yrðu Vestfirðir ekki látnir sæta verri hlut en það að hafa sama hlutfallið í byggingarfénu og var að undanförnu. Meira að segja höfðum við gert okkur vonir um að fá heldur hærra hlutfall, þar sem sannanlegt er, að þetta kjördæmi er verst sett allra kjördæma í landinu, enn þá lakar en Austfirðir, og er þó ástandið ekki gott þar. En þá skeður þetta, að þetta eina kjördæmi er tekið út úr og lækkað um 1/4. Þetta finnst hæstv. ráðherra hálfgerður hégómi, að ég tali nú ekki um suma aðra.

Það leiðinlegasta við gang þessa máls núna er það, þrátt fyrir það að ríkisstj. veit um þetta ranglæti, er búin að sjá það og flokksmenn hennar búnir að ræða um það við hana, hvernig á að fara með þetta kjördæmi, að hún skuli ekki fallast á að leiðrétta þetta ranglæti, þegar hún gat það á mjög auðveldan hátt, með því einu að innheimta ekki það, sem ríkissjóður greiddi í fyrra til vega umfram fjárveitingar. Ég ætla, að ég muni það rétt, að það hafi verið 4.8 millj., sem ríkissjóður greiddi á árinu í fyrra til þjóðvega umfram fjárveitingar, og þá á ég ekki við hraðbrautirnar, sem verið er að byggja fyrir lánsféð. Ef þetta hefði ekki verið innheimt, alls ekki innheimt, frekar en aðrar umframgreiðslur úr ríkissjóði til margra annarra mála, þá hefði þessi upphæð, sem nú var til skiptanna, verið þeim mun hærri. Ég vil benda á, að á árinu 1962, sem síðasti landsreikningur er fyrir, eru önnur samgöngumál, þ.e. strandferðirnar, þannig, að fjárveitingin er rúmar 14 millj., en greidd var á því ári 21 millj. Það var greitt 50% meira, og auðvitað fær ríkissjóður það aldrei aftur, af því að það er ekki hægt að innheimta það hjá neinum. Væri það nú eitthvað voðalegt, þó að ríkissjóður hefði ekki heimt aftur þessar 4.8 millj. af því, sem hann greiddi umfram fjárveitingar á árinu í fyrra? Ef hæstv. ríkisstj. hefði haft nokkurn vilja á því að leiðrétta þetta ranglæti hvað Vestfirði snertir, þá gat hún gert þetta. Þá hefði heldur engin brtt. komið hér fram, ef hlutur Vestfjarða hefði verið leiðréttur með þessum hætti. En ríkisstj. hefur sjálfsagt ekki viljað þetta, því að ég efast ekki um, að hinir ötulu flokksmenn hennar á Vestfjörðum hafa bent henni á þessa leið.