08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2541)

211. mál, vegáætlun 1964

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér áðan, vil ég taka það fram, að þegar síðast komu saman allir þm. úr Vestfjarðakjördæmi, var boðað til þess fundar að ósk hv. 2. þm. Vestf., og þá lýstu allir þm. því yfir, að þeir væru óánægðir með tillögur vegamálastjóra, sem hann hafði sent fjvn., og stuðningsmenn ríkisstj. skýrðu þá frá því, hvað hefði áunnizt með því að fá 11/2 millj. meira til að skipta, og þá settust allir þessir þm. niður til að skipta þessu fé í hina einstöku vegi í kjördæminu, og varð fullt samkomulag um skiptinguna. Þá var ekki minnzt af þessum hv. þm. stjórnarandstöðunnar á neina till. um það að verja fé úr ríkissjóði til þess að jafna það bil, sem við töldum að væri, — ekki minnzt á það einu einasta orði. Þetta var það síðasta, sem fór sameiginlega á milli þm. úr þessu kjördæmi.

Hv. 5. þm. Vestf. hefur spurt að því tvisvar í kvöld, hver greiddi vaxtabyrðina, ef lán yrði tekið til framkvæmda. Ég hygg, að ég hafi sagt það nokkuð skilmerkilega í minni fyrri ræðu, að það væri ætlunin að greiða af fjárveitingum skv. vegáætluninni á þessu ári skuldir, sem væru vegna vegagerða á s.l. ári til hinna einstöku vega, en fyrir lægi fyrirheit um það að mega taka lán að nýju. Og það má segja, að það þyki nokkuð hart fyrir mann, sem er hér í fyrsta skipti, að vera að segja reyndum þm. frá því, hvaða háttur hafi verið hafður á þessum hlutum, því að hann er sá, og það ætti þessi hv. þm. að þekkja eins vel og ég og raunar miklu betur, að sá háttur hefur verið hafður á, að það hefur verið samið við eigendur jarðýtna, sem hafa unnið við vegagerðina, um, að þeir lánuðu vinnu sina að verulegu leyti, en það, sem hefur þurft að borga út í peningum, hafa sveitarfélögin orðið að taka að láni og greiða vexti af þeim lánum. Hér hefur ekkert komið í ljós, hvorki frá hæstv. samgmrh. né öðrum, að yrði á nein breyting. Og ég geri ekki ráð fyrir því, að hægt verði að fá á því neina breytingu frá þeirri hefð, sem skapazt hefur. Við það, að þessir aðilar, sem eiga nú inni stórfé, fá sínar inneignir greiddar að fullu, gefst þeim tækifæri á að fá aftur vinnu í hinum einstöku vegum fyrir lánsfé með sama hætti, og ég efast ekkert um það varðandi þessa menn, bæði ræktunarsambönd og einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli, að það muni ekki standa á þeim að lána að nýju, þegar þeir fá sínar inneignir greiddar nú á þessu ári. Og þegar liggur fyrir loforð frá einum aðila, sem hefur boðizt til þess að taka ákveðna vegagerð í ákvæðisvinnu og hv. 3. þm. Vestf. veit gjarnan um, og hefur hann boðið að lána vegagerðinni stóran hluta af því, sem hann vinnur fyrir við ákveðna vegagerð á Vestfjörðum.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði, að ég hefði flutt hér þakkarávarp vegna byggingar á brúaróhræsi, eins og hann orðaði það svo smekklega. Ég vil nú segja það, að þegar talað erum nýjar framkvæmdir og ný mannvirki, sem á að byggja, þá hafa flestir menn yfirleitt önnur orð um það en að fara heldur niðrandi orðum um framkvæmdir í héruðunum. Og hann taldi það ekki vera þakkarvert að fá slíkt framlag og taldi, að ég hefði flutt hér stórkostlegt þakkarávarp í þessu sambandi, og talaði mjög um, að það hafi kannske verið af því, að til brúarinnar var veitt fé í einu lagi, en ekki fyrir hálfa brú, og það var út af því, sem ég greip fram í fyrir hv. 3. þm. Vestf. Hann ætlaði að fara að kenna mér það, hvort ég vissi ekki, að það væri veitt fé til brúa í fleiri en einni greiðslu. Jú, ég vissi það mætavel. En sálufélagi hans. 5. þm. Vestf., virtist ekki vita, að það hafi verið veitt fé til brúa í mörgum greiðslum oft og tíðum. En í þessu tilfelli er þetta framlag veitt í einu lagi, og ég segi: það er myndarlegt framlag.

Ég sagði í minni fyrri ræðu, að þessir hv. þm. hefðu ekki flutt till, um brúargerð, þegar þeir voru í stjórnaraðstöðu. En sannleikspostulinn, sem kom hér í ræðustólinn áðan, hv. 3. þm.

Vestf., kom með það, að ég hefði farið hér með ósatt mál, og sagði, að þeir hefðu flutt brtt, við fjárlög 1962. Ég hygg, að ég hafi farið alveg með rétt mál, því að ég veit ekki betur en þessi hv. þm. hafi verið í harðri stjórnarandstöðu 1962, og það breytir ekki þeirri staðreynd, sem ég viðhafði í minni fyrri ræðu, að þessi hv. þm. hefði aldrei flutt till. um framlag til brúargerðar á Mórillu, þegar hann var í stjórnaraðstöðu, því að þá svaf hann á verðinum fyrir það kjördæmi, sem hann var þm. fyrir.

Svo sagði þessi ágæti sannleikspostuli, að þm. ríkisstjórnarfiokkanna frá Vestfjörðum hefðu samið um lækkun úr 19.5% í 14.4% við fjvn. Ég hefði viljað orða Það nokkuð á annan veg. Við sömdum um hækkun við fjvn. og samgmrh. úr 13.1% í 14.43%. Þannig mundi hver sæmilegur maður, sem vildi hafa það, sem sannara reynist, hafa orðað það, en ekki eins og þessi hv. þm. gerði í sinni ræðu.

Ég sagði, að þessi hv. þm. hefði kastað fram sýndartillögu hér. Ég taldi, að það hefði verið hyggilegra að reyna samninga og halda áfram og vinna að framgangi vegamála í kjördæminu við samningu vegáætlunar, sem gilda á svo í 4 ár, en ekki hefja hér upp hávaða og læti, eins og þeir hafa gert. Og ég held, að það verði vegagerð á Vestfjörðum miklu happadrýgra en ólætin í þessum hv. tveimur þm.

Jú, Hannibal Valdimarsson, hv. 5. þm. Vestf., sagði, að það hefði litið gengið, fyrr en jarðýturnar hefðu komið til sögunnar í vegamálunum. Það hefði gengið minna hjá hv. 2. þm. Vestf., á meðan hann hefði verið við vegagerð. En ég ætla að segja þessum hv. þm. það, að ef þm. fá ekki neitt fjármagn til vegagerðar, hvort sem það erum við, þm. úr stjórnarliðinu á Vestfjörðum, eða aðrir, þá mundu jarðýturnar ekkert vinna, ef þær fengju ekkert borgað. Hlutur þm. er ekki að vinna í vegavinnu, það hlýtur hv. 5. þm. Vestf. að vita, enda veit ég ekki til þess, að hann hafi komið nálægt vegagerð, nema þá helzt í munninum. Það er hlutverk þm. að útvega fé til vegagerðar, og það verður að segja eins og er, að það hefur aldrei verið unnið meira við vegagerð í Vestfjarðakjördæmi en á s.l. ári. Og ég verð að segja það, að eftir að hafa fengið þau fyrirheit að mega taka allt upp í 2/3 að láni á ný, þá verður aukning og það allmikil aukning á vegagerð í Vestfjarðakjördæmi á þessu ári frá því, sem hefur verið nú að undanförnu.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði hér gamla róðrarsögu úr Arnarfirði. Hann þarf alltaf að hafa smásögur með, því að hann vilt láta hlæja að sér, og það er eðlilegt, hann er orðinn vanur þessu. En Hannibal hefur mikið róið um dagana, en hans róðrarmáti hefur verið allólíkur róðrarmáta flestra annarra, því að hann hefur aldrei róið nema á annað borðið, enda hafa hans mál komizt skammt áleiðis.

Þessir hv. þm. báðir tveir reyna að komast hjá að ræða það, sem máli skiptir í þessu sambandi. Það, sem gerir það að verkum, að heildarprósentan til vegagerðar á Vestfjörðum lækkar, er sá skilningur, sem vegamálastjóri hefur lagt í sínar tillögur í sambandi við skiptingu á vegafé til þjóðbrauta. Það, sem gerzt hefur, er, að í till. vegamálastjóra leggur hann til, að veittar verði 3.1 millj. kr. til Vesturlandsvegar. Af þessu fé leggur vegamálastjóri til, að 1.9 millj. kr. verði veittar í veginn í Hvalfirði um Þyril, og þar af leiðandi verður sú vegagerð í Vesturlandskjördæmi. Það er um að ræða í þessu sambandi, að hér er verið að skipta fé skv. fyrir fram gerðri áætlun, þar sem mætast eiga tekjur og gjöld, og þá er ekki um annað að ræða, ef ekki er hægt að fá meira fé til vegamálanna en raun ber vitni, en að skipta þá fé á annan veg og færa það úr einu kjördæmi í annað. Og ef till. hefði komið um það að minnka verulega framlag til vegagerðar í Hvalfirði, sem bæði Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar keyra um, og flytja það í Vesturlandsveg, þann hluta vegarins, sem er í Vestfjarðakjördæmi, þá hefðum við nað okkar prósentu upp. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég treysti mér ekki til þess að standa að flutningi slíkrar tiltögu, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að slík till. hefði verið felld hér á hv. Alþingi. Þetta hefði verið raunhæf till., ef þessir hv. þm. hefðu komið með till. um að færa framlag af þessum enda Vesturlandsvegar á hinn, í Vestfjarðakjördæmi. En hún var dauðadæmd fyrir fram. Við sáum, að eftir að þessar till. voru orðnar heyrinkunnar, þýddi ekki að fara inn á að lækka framlag til ákveðinna vega til þess að færa þá á milli kjördæma, og það hefði aðeins skapað úlfúð á milli þm. úr hinum einstöku kjördæmum, heldur væri hyggilegra að hafa þann hátt á að reyna að fá lánsheimildina og reyna svo að standa á því í haust, að okkar hlutur verði mjög verulega réttur.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði í sambandi við brúargerðina á Mórillu, að það hefði ekkert staðið til, að þeir flyttu till. um það á sínum tíma, því að fyrst þyrfti að leggja veg að brúnni, og þá væri fyrst fært að fara að tala um að brúa ána. Sálufélagi hans, sannleikspostulinn, 3. þm. Vestf., taldi aftur, að hann hefði flutt þetta fyrir löngu, löngu áður en kominn var vegur að ánni. En ég verð að upplýsa þessa hv. samþingismenn mína um það, að enn þá á eftir að leggja 21/2 km að þessari á. Eftir kokkabókum 5. þm. Vestf. ætti alls ekki að veita neitt fé til að brúa Mórillu. En ég er á gagnstæðri skoðun. Það hefði vel mátt brúa Mórillu á dögum vinstri stjórnarinnar, ef þáv. félmrh. hennar, áhugamaðurinn fyrir vegagerð á Vestfjörðum nú, hefði haft áhuga á málinu og sannleikspostulinn, hv. 3. þm. Vestf., sömuleiðis, en þá sváfu þeir á verðinum. Þeir eru einu þm., sem flytja brtt. hér í þessum málum, eftir að það er búið að ná samkomulagi um skiptinguna og allar frekari tilfærslur úr þessu mundu aðeins skapa úlfúð á milli þm. í einstökum kjördæmum, sem mundi ekki hafa gott í för með sér, þegar setzt verður á rökstóla til að setja nýja vegáætlun, sem gilda á í 4 ár.

Úr þessu er mér nokkurn veginn sama, hvort þessir hv. þm. tala hér aftur, því að við þá hefur ekki verið hægt að ræða í þessu máli hér á síðustu dögum. Þeir hafa þurft að hafa sýndartillöguna með sér vestur, þegar þeir fara að tala með mátulegum velvilja um hv. samþingismenn sína. En það er meira en gerist í öðrum kjördæmum, þó að allir séu ekki ánægðir með þessa skiptingu.