13.05.1964
Sameinað þing: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

204. mál, félagsheimili

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. á þskj. 434 um endurskoðun laga um félagsheimili og um eflingu félagsheimilasjóðs. Jafnframt hafði n. til athugunar brtt. á þskj. 460 frá hv. þm. Ásgeiri Péturssyni, sem þá átti sæti hér á hinu háa Alþingi. Nm. urðu sammála um þá afgreiðslu till., sem gerð er grein fyrir í nál. á þskj. 660. Hefur þá till., eins og hún lá fyrir í öndverðu, verið breytt lítils háttar, en þó ekki mikið, og tekin upp að nokkru leyti brtt. á þskj. 460. Má raunar telja, að breyting sú, sem gerð er á sjálfri till., sé fremur orðalags- en efnisbreyting. Samkv. till. n. á þskj. 660 mundi ályktunin hljóða svo, ef samþykkt verður, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi lögum um félagsheimili með Það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og að eðlileg skilyrði heilbrigðs félags- og menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði athugaðir möguleikar til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum héruðum. Stefnt verði að því í hinni fyrirhuguðu löggjöf um félagsheimili, að forráðamönnum þeirra verði framvegis gert kleift að efla menningarlega fræðslu- og skemmtistarfsemi í ríkara mæli en unnt hefur verið fram að þessu. Endurskoðuninni skal lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþingis.“