24.02.1964
Efri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

165. mál, ferðamál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til laga um ferðamál var lagt fram á síðasta þingi, en varð ekki útrætt. Það var samið af nefnd, sem var skipuð 1962. Formaður þeirrar nefndar var Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og með honum í nefndinni Sigurður Bjarnason alþm. og Þorleifur Þórðarson forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins.

Síðan frv. var lagt fram síðast, hefur það verið endurskoðað af sömu mönnum og gerðar á því tvær breytingar. Önnur er sú að hækka tryggingarfé ferðaskrifstofu úr 200 þús. kr. í 350 þús., og þykir það eðlilegt og sjálfsagt til þess að tryggja þá, sem viðskipti hafa við ferðaskrifstofurnar og oft og tíðum borga fyrir fram, þegar farseðlar eru keyptir. Og önnur breyting er sú að fella niður eftirlit Ferðaskrifstofu ríkisins varðandi hvers konar fyrirgreiðslu fyrir ferðamenn og eftirlit með öðrum ferðaskrifstofum, en það var í frv. eins og það var flutt í fyrra. Þetta þótti ekki ástæða til að fela Ferðaskrifstofu ríkisins, enda er þetta eftirlit falið gisti- og veitingastaðaeftirliti ríkisins samkvæmt l. nr. 53 1963.

Frv. þetta er í fimm köflum, eins og sjá má I. kaflinn er um almennar ferðaskrifstofur, og er þar um veigamikla breytingu að ræða frá gildandi lögum, þar sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur áður haft einkarétt til þess að taka á móti og greiða fyrir ferðamönnum, en með þessu frv. er þessi einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins afnuminn og er þá, skapaður breiðari grundvöllur til fyrirgreiðslu fyrir ferðamenn en áður var, skapað meira frjálsræði og svigrúm til þess að gera ferðamannastrauminn til landsins meiri en hann hefur áður verið, og er það tilgangur þessa frv., að svo megi verða. Ég sé ekki ástæðu til að vera að fara nánar út í þennan kafla, hv. þm. hafa frv. fyrir framan sig og sjá, hvað í honum felst.

II. kafli er um ferðamálaráð, og er þar um algert nýmæli að ræða, þar sem gert er ráð fyrir að skipa ferðamálaráð, 9 manna ráð. Og eins og tekið er fram samkv. 11. gr., er gert ráð fyrir, að Eimskipafélag Íslands tilnefni einn mann, Félag sérleyfishafa, Ferðafélag Íslands, Flugfélag Íslands, Loftleiðir h/f, Ferðaskrifstofa ríkisins, Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, Samtök íslenzkra ferðaskrifstofa, og 9. maðurinn er gert ráð fyrir að verði skipaður af ráðh. án tilnefningar og sé hann jafnframt formaður. 12. gr. kveður á um verksvið ferðamálaráðs. Það á í fyrsta lagi að vera Alþ. og ríkisstjórn ráðgefandi um allt, sem að ferðamálum í landinu lýtur, og ráðið skal bera fram till. um þær framkvæmdir og umbætur, sem það telur nauðsynlegar hverju sinni. Í öðru lagi að gera áætlanir og till. um skipan gistihúsamála í landinu, svo sem um það, hvar einkum sé nauðsynlegt, að gistihúsakostur verði aukinn eða bættur, hver tegund gistihúsa skuli verða á hverjum stað og með hvaða hætti þeim verði komið upp. Og enn fremur að gera aðrar þær till., sem mættu verða til þess að örva heilbrigða samkeppni og örva ferðamannastraum til landsins og um landið, þannig að ferðamál megi hér eins og víða annars staðar verða atvinnugrein, sem þjóðarbúið gæti hagnazt af.

III. kafli er um Ferðaskrifstofu ríkisins, og er gert ráð fyrir, að Ferðaskrifstofa ríkisins starfi áfram og hún hafi að starfi það sama og hinar almennu ferðaskrifstofur og auk þess landkynningu, eins og hún hefur áður haft. Hlutverk hennar er það sama og áður að öðru leyti en því, að það eftirlit, sem hún hafði með að gera, eins og áður er á minnzt, er fellt niður og falið öðrum aðila, og Ferðaskrifstofa ríkisins hefur ekki lengur þann einkarétt, sem hún áður hafði. Meginverksvið hennar, auk þess að greiða fyrir ferðamönnum eins og hinar almennu skrifstofur, er landkynningin, eins og áður er sagt, og þarf það vitanlega að vera í enn ríkara mæli en áður hefur verið. En nú er gert ráð fyrir að veita fast fé á fjárlögum til þessarar starfsemi og ætti því að skapast betri aðstaða en áður til þess að auka þessa landkynningu.

Þá er IV. kafli um ferðamálasjóð, og er það nýmæli. Er gert ráð fyrir að stofna ferðamálasjóð, en hlutverk hans er að stuðla að byggingu gisti- og veitingahúsa í landinu og bæta þannig aðstöðu til að veita innlendu og erlendu ferðafólki sem bezta móttöku og aðbúnað, og það er gert ráð fyrir að greiða árlega úr ríkissjóði framlag til ferðamálasjóðs, eigi lægra en 1 millj. kr. á ári. Þá er ferðamálasjóði heimilt með samþykki ráðh. að taka lán allt að 20 millj. kr., og er fjmrh. heimilt að ábyrgjast slíkt lán fyrir hönd ríkissjóðs, og gert ráð fyrir, að þetta lán yrði notað til þess að koma upp veitinga- og gististöðum, þar sem þörfin er mest, því að það dugir vitanlega ekki að hugsa sér að auka ferðamannastrauminn til landsins nema þá um leið að skapa aðstöðu til að taka á móti fólkinu og veita því viðunandi aðbúð.

V. kafli er ýmis ákvæði, sem kveða á um, að ráðherra sé heimilt að ákveða að fenginni umsögn ferðamálaráðs, að greiddur skuli aðgangseyrir að fjölsóttum ferðamannastöðum, sem eru í eign ríkisins, enda sé það fé, sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði, eingöngu notað til fegrunar og snyrtingar viðkomandi staða og til þess að bæta aðstöðu til móttöku innlendra og erlendra ferðamanna, sem þangað koma.

Í aths. um frv. eru nánar skilgreind ýmis atriði, sem í frv, felast, og tel ég ekki ástæðu til að vera að lesa það upp hér. En það segir sig sjálft, að um leið og einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins er afnuminn, má reikna með, að fleiri aðilar komi til að starfa en áður var að þessum málum. Og það eru vissulega nýmæli í þessu frv., að gert er ráð fyrir föstu framlagi á fjárlögum til landkynningar, sem er þá í samræmi við þá stefnu, sem með þessu frv. er upp tekin, að vinna að því, að ferðamannastraumurinn megi aukast til landsins.

Hér á landi eru starfandi, eins og kunnugt er, tvö flugfélög, sem hafa starfað af miklum dugnaði og komizt mjög vel af, miðað við allar aðstæður, en afkoma þeirra byggist ákaflega mikið á því, að ferðamannastraumurinn geti aukizt til landsins, að það sé ekki meginhlutinn Íslendingar, sem ferðast með flugvélum, heldur í auknum mæli erlendir ferðamenn. Það ber að viðurkenna það, að ferðamannastraumurinn hefur á undanförnum árum aukizt talsvert, en það er enginn vafi á því, að það má ýmislegt gera til þess að auka hann mun meira en enn er orðið. Það er enginn vafi á því, að ef það mætti takast, eins og að er stefnt, að auka ferðamannastrauminn og gera landið að ferðamannalandi, eins og það hefur öll skilyrði til, þá gætum við aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar verulega á þann hátt. Það er kunnugt, að gjaldeyristekjur ýmissa nágrannalanda okkar bæði Dana og Norðmanna, eru mjög miklar af erlendum ferðamönnum. En til þess að við getum sýnt okkar ágæta land og fengið tekjur í auknum mæli af útlendum ferðamönnum, þarf að bæta aðstöðuna víðsvegar um landið með bættum húsakosti veitingahúsa og gistihúsa, og þetta frv. miðar að því, að það geti orðið með stofnun ferðamálasjóðs, einnar millj. kr. framlagi árlega á fjárlögum a.m.k., auk þeirrar lánsheimildar, sem áður er getið.

Gert er ráð fyrir, að í ferðamálaráði, sem á að starfa kauplaust, verði menn, sem eru kunnugir ferðamálum og gætu lagt gott til þessara mála, þannig að með því að lögfesta frv. í því formi, sem það nú er, ætti að skapast bætt aðstaða frá því, sem verið hefur, að sameina þekkingu og reynslu, sem þegar er fengin, til þess að auka ferðamannastrauminn.

Þegar þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi, kom fram, að forstöðumenn ferðaskrifstofa höfðu skiptar skoðanir á málinu. Nefndin, sem endurskoðaði frv., hafði samband við forstöðumenn ferðaskrifstofanna og óskaði eftir umsögn þeirra og hafa þeir, eftir að frv. hefur verið lítils háttar breytt, fallizt á það í aðalatriðum og telja, að það margt komi fram í frv. til bóta, að þeir telji sjálfsagt og nauðsynlegt, að það verði samþ., þótt sumir þeirra fái ekki það fram, sem þeir hefðu óskað, að leggja Ferðaskrifstofu ríkisins niður, en það er áhugamál ýmissa þeirra, sem veita ferðaskrifstofum forstöðu. Ég vil nú segja það, að eins og það er nauðsynlegt, að Ferðaskrifstofa ríkisins fái eðlilega keppinauta og samkeppni, þá gæti það einnig verið hollt, að hinar ýmsu og frjálsu ferðaskrifstofur fái samkeppni og aðhald frá því opinbera að þessu leyti, að Ferðaskrifstofa ríkisins verði látin halda áfram að starfa í því formi, sem hún nú er. Ég hef persónulega haft samband við forstöðumenn ferðaskrifstofanna um þetta frv., og eftir þau viðtöl get ég upplýst, að það er ekki lengur að vænta mótstöðu frá þeirra hendi gegn því, að frv. verði lögfest.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.