09.04.1964
Neðri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Samkv. frv. þessu er lagt til, að ríkið gangist fyrir, að reist verði og rekin kísilgúrverksmiðja við Mývatn. Ráðgert er, að stofnað verði hlutafélag í þessu skyni og að hollenzkt fyrirtæki verði aðili að því fyrirtæki ásamt Íslendingum.

Bygging nýs útflutningsfyrirtækis er út af fyrir sig gleðiefni. Allar ráðstafanir, sem miða að því að gera útflutningsatvinnugreinar okkar fjölbreyttari en þær eru, eru auðvitað ánægjulegar. Og mér finnst sérstök ástæða vera til þess að gleðjast yfir því, að í þessu tilfelli er ráðgert að byggja nýtt framleiðslufyrirtæki úti á landi, sem haft getur talsverða atvinnulega þýðingu á þeim slóðum, þar sem ráðgert er að reka fyrirtækið, og að því leyti til hefur bygging fyrirtækisins tvíþættan tilgang.

Í sambandi við þetta mál er líka sérstök ástæða til að fagna þeim ágæta árangri, sem íslenzkir sérfræðingar — og þá fyrst og fremst Baldur Líndal verkfræðingur — hafa náð varðandi undirbúning þessa máls og vísindalegar rannsóknir í sambandi við það.

Það fyrirtæki, sem ráðgert er að koma á fót til vinnslu á kísilgúr, er ekki ýkjastórt fyrirtæki, ekki heldur á íslenzkan mælikvarða mælt. Ef við berum þetta fyrirtæki, sem hér er nú rætt um að koma á fót, saman víð ýmis önnur fyrirtæki, sem eru starfandi fyrir í landinu, eins og t.d. sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna, þá kemur það greinilega í ljós, að hér er ekki um stórt fyrirtæki að ræða. Svipað mætti segja, ef samanburður á þessu fyrirtæki væri gerður víð mörg önnur fyrirtæki, sem starfandi eru í landinu, þá er ekki hægt að segja, að hér sé um ýkjastórt framleiðslufyrirtæki að ræða. Samkv. lauslegum áætlunum, sem fylgja þessu frv., er ráðgert, að stofnkostnaður verksmiðjunnar muni verða í kringum 130 millj. kr. Að vísu mun þá ekki vera reiknað á þann hátt, sem venjulega er reiknað um stofnkostnað fyrirtækja í okkar landi, þá mun ekki vera reiknað með innflutningstollum á öllum þeim varningi, sem til verksmiðjunnar þarf, og má búast við því, að þar sé um upphæð að ræða, sem geti numið í kringum 30 millj. kr. Auk þess er ekki talinn með í þessum stofnkostnaði kostnaður, sem ýrði af vegagerð, sem augsýnilega ætli að tilheyra þessum framkvæmdum, og ekki heldur af sérstakri hitaveitu, sem gert er ráð fyrir að ríkið komi upp. Mér þykir líklegt, að ef mælt yrði á hinn venjulega og eðlilega hátt um stofnkostnað, þá mætti í rauninni reikna með, að hér væri um stofnkostnað að ræða, sem næmi í kringum 200 millj. kr. Gert er svo aftur ráð fyrir, að árleg framleiðsla til útflutnings hjá þessu fyrirtæki geti verið u.þ.b. 40—50 millj. kr. Mér dettur í hug aðeins til samanburðar, til þess að gera sér grein fyrir því, um hvað mikið fyrirtæki hér er að ræða, að benda t.d. á, að ein meðalsíldarverksmiðja, sem mér er mjög vel kunnugt um, kostar í stofnkostnaði metið nú í kringum 30 millj. kr., en útflutningsverðmæti hennar á s.l. ári voru í kringum 85 millj. kr. Og þó að maður drægi frá allt hráefnisverðið, sem þessi verksmiðja greiddi sínum veiðiskipum, mundu samt sem áður þau gjaldeyrisverðmæti, sem þá væru eftir, vera eins mikil eða u.þ.b. eins og árleg framleiðsla þessarar verksmiðju. En þó að slik verksmiðja sem þessi sé ekkert ýkjastór heldur á okkar mælikvarða, getur hún verið gott fyrirtæki eigi að síður og haft allmikla þýðingu í okkar atvinnulífi. En það er vitanlega sjálfsagt að gera sér samt sem áður alveg raunhæfa og rétta grein fyrir því, um hvað þýðingarmikla atvinnustofnun hér er að ræða, og villa sjálfum sér ekki sýn í þeim efnum, eins og mér sýnist að verulega komi fram í ýmsum umræðum um þetta mál og skrifum í blöðum. Það þarf auðvitað allmiklu meira til en þessa 11 þús. tonna kísilgúrverksmiðju við Mývatn til þess, að ástæða sé til að skrifa um það í blöðin eins og eitt af stærstu blöðunum skrifaði í morgun: „Ný borg við Mývatn.“ Það er mjög fjarri því, að eitthvað slíkt geti verið á ferðinni. Menn mega ekki mikla svo fyrir sér nýja atvinnuhætti, sem út af fyrir sig geta átt fullan rétt á sér, að menn vísivitandi slái þannig skugga á það, sem er okkur mjög þýðingarmikið í okkar framleiðslulífi og við höfum átt og við búum við. Útflutningsverðmæti þessarar verksmiðju, 40—50 millj. kr., eru ekki nema rétt í kringum það að vera 1% af heildarútflutningi þjóðarinnar á ári. Ég segi þetta ekki á neinn hátt til þess að draga úr því, að hér geti verið um ágætt fyrirtæki að ræða, sem rétt er að ráðast í, en það er vitanlega engin ástæða til að telja sér eða öðrum trú um það, sem ekki er rétt, varðandi þá framkvæmd, sem hér er fyrirhuguð.

Hér er sem sagt um nýjan þátt í okkar útflutningsframleiðslu að ræða. Við getum ekki talað um nýjan atvinnuveg, en nýjan þátt í útflutningsframleiðslunni, þátt, sem getur haft verulega þýðingu og þá sérstaklega fyrir það svæði, sem þessi verksmiðja yrði reist á. Og rætist allar helztu vonir í sambandi við byggingu og rekstur þessarar verksmiðju, þá má telja alveg víst, að hér geti orðið um mjög gagnlegan viðauka að ræða við okkar útflutningsframleiðsluatvinnuvegi.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að stofnað verði hlutafélag um byggingu og rekstur verksmiðjunnar. Þær skýringar hafa verið gefnar á því, að horfið hafi verið að því ráði að leggja til, að hlutafélag ætti verksmiðjuna, að hér sé um að ræða mjög vandselda framleiðsluvöru og vandinn við að finna markað og öruggari sölu geti verið svo mikill, að það sé vissara fyrir Íslendinga að hafa útlendinga þar í fylgd með sér. Ég verð að segja, að mér finnst þessar skýringar vera afskaplega ófullnægjandi til að réttlæta það, að farin er þessi leið, að mynda sérstakt hlutafélag um þessa verksmiðju. Það er, eins og hér hefur verið áður sagt í umræðum, alveg augljóst mál, að hlutur útlendinganna í stofnkostnaði fyrirtækisins er svo óverulegur, að hann getur ekki skipt neinu verulegu máli um það að útvega fé til framkvæmda, enda hygg ég, að reynslan verði sú, að það verður að hvíla á íslenzka ríkinu að útvega svo að segja allt það fé, sem þarf til þess að koma þessu fyrirtæki upp. En það má vera, að hæstv. ríkisstj. hafi litið svo á, eins og í mörgum öðrum tilfellum, að það væri eðlilegra og skemmtilegra form, að hér væri um hlutafélag að ræða, heldur en beint ríkisfyrirtæki. En ég tel, að við höfum þegar fengið reynslu af því, að það sé mjög óeðlilegt og óheppilegt að efna þannig til hlutafélagsrekstrar, að nokkrum aukaaðilum, sem eru í fylgd með ríkinu, sé gefinn kostur á tilteknum hluta af hlutafénu, en síðan hvíli öll skyldan á ríkinu raunverulega eða í framkvæmd til þess að leggja fram hið eiginlega stofnfé og sjá í rauninni um rekstur fyrirtækisins á eftir. Við höfum í þessu efni alveg skýra reynslu frá áburðarverksmiðjunni. Þá var ákveðið, að hlutafé þeirrar verksmiðju skyldi vera 10 millj. kr. Ríkið lagði fram 6 millj., og ýmsir aðrir aðilar áttu að leggja fram 4 millj, kr. Síðan mun byggingarkostnaður áburðarverksmiðjunnar hafa verið eitthvað rúmlega 130 millj. kr. Auðvitað varð ríkið að sjá um að leggja fram allt þetta fé, útvega það að láni og koma verksmiðju upp. En eignahlutföllin áttu þá að vera frá upphafi, ef litið var á þetta að öllu leyti sem hlutafélag, að nokkrir aðilar áttu á móti ríkinu 40% á móti 60% í þessu fyrirtæki. Nú hygg ég, að málin séu komin þannig, að telja megi alveg víst, að þeir aðilar, sem þarna lögðu fram einar 4 millj. kr., sem auðvitað dró sáralítið í því að koma upp þessari verksmiðju, eigi raunverulega eignarhluta í þessari verksmiðju, sem nemur líklega 80—90 millj. kr. vegna mikilla verðhækkana, sem hafa á þessu orðið, og hagnaðar, sem þarna hefur safnazt fyrir í ýmsu formi. Ríkið hefur séð um það varðandi rekstur fyrirtækisins, fyrst í sambandi við uppkomu þess og síðan í sambandi við reksturinn, að þetta hefur farið svona. Það hefur sem sagt orðið afskaplega þægilegt fyrir þessa málamyndastofnendur eða eigendur að áburðarverksmiðjunni að vera þarna hluthafar.

Ég held, að það geti enginn vafi leikið á því, að svipað hlýtur að fara í sambandi við þessa kísilgúrverksmiðju. Ríkið verður vitanlega að sjá um að útvega allt það fé, sem þarf til að koma upp þessu fyrirtæki. Og það verður ríkið, sem verður að skapa sérreglur fyrir þetta fyrirtæki í sambandi við tolla og gefa þar með eftir af sínum tekjum. Og ríkið verður einnig að hlutast til um það með skatta- og útsvarsreglum, ef svo ber við að horfa síðar, að fyrirtækið geti búið við skaplega rekstrarafkomu. Þá verður það auðvitað orðið ágætt fyrir einstaklinga í landinu að vera þarna málamyndahluthafar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., leggja t.d. fram 4—5 millj. kr., sem yrðu orðnar býsna margar millj. kr. eftir nokkurn tíma algerlega fyrir tilverknað íslenzka ríkisins.

Ég álít því, að valið á hlutafélagsforminu í þessu tilfelli sé mjög óeðlilegt. Það eðlilega hefði verið, að hér hefði verið um hreint ríkisfyrirtæki að ræða. Ríkið átti að eiga þetta fyrirtæki að öllu leyti. Ef einhverjar aðrar ástæður en hér hafa nú raunverulega verið færðar fram enn þá lágu til þess, að það var talið alveg óhjákvæmilegt að hafa útlenda aðila með í þessu fyrirtæki upp á 10—20% af hlutafénu, þá álít ég, að það hefði átt að nema staðar við það, en vera ekki að opna þetta félag að öðru leyti fyrir einstaklingum eða öðrum, sem þarna eiga lítið erindi inn í að mínum dómi. Að vísu skal ég játa, að þó að þarna væri um hlutafjáreign að ræða frá hálfu sýslufélags eða bæjarfélags, þá gildir um það nokkru öðru máli, þar sem það er um slík almenningssamtök að ræða, að nokkuð svipuðu gegnir um það og ríkið. En ég hefði þó talið miklu eðlilegra, að ríkið hefði verið eini aðilinn í sambandi við að koma upp og síðan að eiga og reka þetta fyrirtæki.

En mér sýnist svo á þeim gögnum, sem hér fylgja með þessu frv., að það sé hins vegar ljóst, að raunverulega sé hinum erlendu aðilum ætlaður miklu meiri hlutur en þessar tölur, sem ég hef nefnt til þessa, bera með sér, þ.e.a.s. að þeir eigi að eiga 10—20% í framleiðslufyrirtækinu. Mér sýnist, að sá háttur hafi verið á hafður að skipta raunverulega því fyrirtæki í tvo hluta, sem hér er á ferðinni, því að það er auðvitað ekki hægt eðli málsins samkv. að tala um annars vegar framleiðslufyrirtæki sem sjálfstætt fyrirtæki, en hins vegar eitthvert allt annað fyrirtæki, sem hefur með að gera alla söluna á framleiðslunni. Þetta er aðeins aðferð til þess að skipta einu og sama fyrirtækinu upp í tvo hluta. Það er auðvitað algert grundvallaratriði í rekstri eins fyrirtækis, að það fyrirtæki sjálft hafi vald yfir sölunni á sinni eigin framleiðslu. En hér er talað um að haga málunum þannig, að stofna skuli sérstakt sölufélag, sem á að vera erlent félag að meiri hluta til. Gert er ráð fyrir, að um 60% af hlutafé þess sé í höndum útlendinga, en Íslendingar geti átt 40% þar á móti, og að þetta erlenda sölufélag hafi einkaréttaraðstöðu til sölu á allri framleiðslu fyrirtækisins. Hér er ekki um það að ræða, eins og er þekkt, að fyrirtæki útvegar sér einkaumboðsmann til sölu á sinni framleiðslu, þ.e.a.s. tryggir sér gott söluumboð, fái sér góðan aðila til þess að annast það. Nei, hér er um að ræða, að sölufélagið tekur framleiðslu framleiðslufyrirtækisins í sínar hendur og hefur, eftir því sem helzt verður ráðið, fullkominn yfirráðarétt yfir framleiðslunni, þegar hún er komin til sölumeðferðar, og getur selt framleiðsluna á þann hátt, að sölufélagið geti farið að safna gróða. Þetta tel ég alveg fráleitt ákvæði. Og ég get í rauninni ekki skilið þetta á annan hátt en þann, að þetta fyrirkomulag hafi verið valið, þegar mönnum hefur ekki líkað það alls kostar vel á pappírnum að hafa hlutdeild útlendinganna svo mikla, að þeir raunverulega hefðu að meiri hluta yfirráðarétt í fyrirtækinu. En það er alveg augljóst, að hið erlenda sölufélag fær með þessum hætti fullkomin yfirráð yfir gangi þessa fyrirtækis. Mér sýnist t.d., að það geti ekki verið neitt því til fyrirstöðu, að þetta sölufélag beinlínis neiti því að selja framleiðslu framleiðslufyrirtækisins til hæstbjóðanda í ýmsum tilfellum. Sölufélagið hefur þarna einkaréttaraðstöðu, og það getur borið við mörgu, þegar það neitar að taka bezta tilboði, en velur að selja einhverjum öðrum, sem það getur auðvitað haft bein eða óbein hagsmunasambönd í. Þetta er því vægast sagt mjög óeðlilegt. Verði þessi háttur á hafður, að efnt verði til þessa sölufélags á þann hátt, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, að meiri hluti í eigu þessa sölufélags verði í höndum útlendra aðila og að sölufélagið hafi einkarétt til sölu á framleiðslunni, þá álít ég, að það sé algerlega óhjákvæmilegt að tryggja það, að slíkum samningi sé hægt að segja upp og það tiltölulega fljótlega. En hitt held ég þó miklu þýðingarmeira, ef hægt væri að breyta þessu ákvæði á þá lund, að sambandið við hið hollenzka fyrirtæki væri ekki viðtækara en svo, að það hefði aðalumboð fyrir hið íslenzka framleiðslufyrirtæki til sölumeðferðar á framleiðsluvörum þess: Það er auðvitað nauðsynlegt í ýmsum tilfeilum að gera vel við sína umboðsmenn, sem eiga að fara með sölumálin á erlendum vettvangi, og það getur þurft að greiða þeim allvel fyrir í sumum tilfellum, það er rétt. En hitt nær vitanlega engri átt, að gefa þeim fullnaðarákvörðunarvald um það, hvaða verð skuli gilda á hverjum tíma, eða gefa þeim einkaréttaraðstöðu í sambandi við söluna.

Í frv. er á það minnzt, að það muni reynast nauðsynlegt, að ríkið felli niður eða lækki að meira eða minna leyti aðflutningsgjöld á efni og vélum til verksmiðjunnar, og í grg. er beinlínis tekið fram, að það megi búast við því, að þetta geti numið í kringum 20% af stofnkostnaðarverði hennar. Og einnig er síðan á það minnzt, að það muni þurfa að gera sérstakar breytingar varðandi skattamál fyrirtækisins eða þeirra aðila, sem að fyrirtækinu eiga að standa. Það kann vel að vera, að þetta reynist óhjákvæmilegt. En þá er líka rétt að hafa í huga, þegar menn meta gildi þessa fyrirtækis í samanburði við ýmis önnur fyrirtæki, sem við rekum í okkar landi, að hér er auðvitað um gífurleg fríðindi að ræða. Mér kemur það ekkert á óvart út af fyrir sig, að erlendir aðilar setji fram kröfur í þessa átt. Ég er líka alveg sannfærður um það, að þeir muni, ef þeir verða einhverjir þátttakendur að ráði í framleiðslu hér á landi á vöru til útflutnings, á vöru, sem á að keppa á erlendum markaði, gera kröfur um breytingar á fleiri liðum hér hjá okkur, sem eru hreint ekki sambærilegir við það, sem almennt gerist erlendis hjá þeim fyrirtækjum, sem eiga að keppa á erlendum mörkuðum. En íslenzk útflutningsframleiðsla hefur þurft að búa við þessi ákvæði og þarf að búa við þau í dag. Það er t.d. alveg útilokað að byggja síldarverksmiðjur á Íslandi nú í dag eða frystihús án þess að borga öll þessi gjöld. Og ég er líka sannfærður um það, að erlendir aðilar mundu fljótlega reka sig á það, að það er ekkert þægilegt að þurfa að borga 9—10% vexti af óhjákvæmilegu rekstrarfé í sambandi við útflutningsframleiðslu, þegar langalgengast er, að vextirnir í slíkum tilfellum erlendis eru ekki nema 3—5%. Það munar ekki litlu í slíkum tilfellum. Og allur kostnaðurinn hér hjá okkur er einmitt byggður upp á þessum grundvelli. Við vitum, að það er ekki hægt að koma upp meiri háttar raforkuverum á Íslandi án þess að borga þessa gífurlega háu tolla og hækka stofnverð virkjananna á þann hátt, og síðan er verðlagningin á orkunni miðuð við þessa háu tolla. Okkar útflutningsframleiðsla í dag verður að standa undir þessu öllu saman. Sjávarútvegurinn hefur svo þurft til viðbótar við þetta að standa undir því, að hann verður að bera há útflutningsgjöld, sem beinlínis eru lögð á framleiðsluna, bæði til að byggja upp sérstaka lánasjóði og til annars.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að útlendingarnir koma til með að reka sig á það, þegar þeir fara að gera samanburð á möguleikum hér og möguleikum annars staðar, að útflutningsframleiðslan á Íslandi býr við mjög ósambærileg kjör við það, sem útflutningsframleiðsla í löndunum hér í kringum okkur býr við. En það má vel vera, að ekki verði undan því vikizt að vægja þarna nokkuð fyrir þessari nýju framleiðslu, létta þar af tollum, þó að enn um sinn verði hægt að halda því áfram að láta aðrar okkar útflutningsgreinar standa undir þessum gjöldum, en það mætti bara sýna mönnum, að okkar aðalútflutningsframleiðsla, sjávarútvegurinn, er ótrúlega hagstæð í samanburði við svo að segja alla aðra framleiðslu. Og ég er hræddur um það, að þeir, sem mest hafa talað um stóriðju og nýjar atvinnugreinar að undanförnu, eigi eftir að reka sig á þetta allóþyrmilega í framkvæmd, að þeir finna ekki auðveldlega framleiðslu, sem skilar raunverulega jafnmiklum hagnaði og okkar sjávarútvegsframleiðsla gerir.

Af þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir um þetta mál, tel ég alveg augljóst, að fyrirhuguð kísilgúrverksmiðja við Mývatn er ekki ýkjastórt fyrirtæki á íslenzkan mælikvarða mælt, en að þetta fyrirtæki getur eigi að síður haft mikla þýðingu í okkar atvinnulífi og þá vitanlega alveg sérstaklega fyrir þau svæði, þar sem þessi rekstur er ráðgerður að fara fram. Ég tel, að eðlilegast hefði verið, að verksmiðjan væri að öllu leyti eign íslenzka ríkisins og með sem allra minnstri beinni þátttöku erlendra aðila, að hægt hefði verið að koma við. En ég tel, að úrslitaþýðingu í þessu máli hafi þó, að Íslendingum sé tryggður alveg óskoraður réttur yfir fyrirtækinu öllu, þ.e.a.s. bæði yfir framleiðsluhluta þess og eins yfir þeim hlutanum, sem á að annast sölu á framleiðsluvörunum. Þetta skiptir vitanlega höfuðmáll.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að við Alþb.-menn viljum gjarnan styðja að framgangi þessa máls, en við viljum fyrst og fremst tryggja það, að yfirráð Íslendinga verði alveg ótvíræð yfir fyrirtækinu öllu.