29.04.1964
Efri deild: 76. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram við 2, umr., hafði tollskrárnefnd ekki lokið athugunum öllum þeim erindum, sem fjhn. höfðu borizt og leitað umsagnar tollskrárnefndarinnar um. Tollskrárnefndin hefur nú sent umsögn um öll þessi erindi, og í samræmi við það flytur fjhn. á þskj. 516 5 brtt. við tollskrána í viðbót við þær till., sem hún áður hefur flutt og samþykktar voru við 2. umr. Ég skal fara örfáum orðum um þessar brtt., hvað í þeim felst.

Fyrsta till. fjallar um það, að tollur á efnivörum til sútunar og málningargerðar er ákveðinn 35%, en það tollskrárnr., sem þessar vörur féllu áður undir, var í 110%. Í 2. brtt. felst það, að hleraskóm er bætt inn í tollskrárnr. 73.40.41, sem ýmiss konar veiðarfæri falla undir.. Er þetta gert samkv. ósk Landssambands ísl. útvegsmanna. í 3. brtt. felst það, að tollur á hreinlætistækjum til innanhúsnota og hluta til þeirra er lækkaður úr 100% í 80%. í 4. brtt. felst það, að tollur á prófílpípum til smíða eftir nánari skýrgreiningu og ákvörðun fjmrn. er lækkaður úr 35% í 15%. Og 1 5. brtt. felst það, að neyðartalstöðvar, eins og þær nánar eru skilgreindar í till., fara í 4% toll, en áður voru talstöðvar yfirleitt í 35% tolli.

Hvað önnur erindi snertir, sem fjhn. hafa borizt og hún hefur óskað umsagnar tollskrárnefndarinnar um, þá hefur tollskrárnefndin ekki treystst til þess að mæla með þeim tili., sumpart með þeim rökum, að slíkt mundi vera brot á þeim grundvallarreglum, sem fylgt var við samningu tollskrárinnar, og sumpart vegna þess, að tollskrárnefndin taldi óframkvæmanlegt að greina ýmsar þær vörur, sem farið var fram á tollalækkanir á, frá öðrum vörum skyldum í tolli. Fjhn. eða a.m.k. meiri hl. hennar hefur því ekki treystst til þess að koma frekar til móts við þessi erindi en orðið er.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á brtt., sem borin var fram við 2, umr. málsins af þeim hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) og hv. 9. þm. Reykv. (AG), þess efnis, að bifreiðum til öryrkja, sem veittar eru tollaívilnanir á, yrði fjölgað úr 150 í 250. Að vísu er það nú svo, að ég hef ekki orðið var við það, að erindi hafi um það borizt til fjhn., að rýmkað yrði um þetta, en ég vefengt samt ekkí, að meiri eftirspurn sé eftir þessum bifreiðum en fullnægja megi með þeirri tölu, sem tollaívilnanirnar nú ná til. En af tveim ástæðum treystist ég ekki til að mæla með samþykkt þessarar till. í fyrsta lagi vegna þess, að hér er um nokkurt fjárhagsatriði að ræða, vegna þess að bifreiðar eru, eins og kunnugt er, tollaðar mjög hátt og tollur af þeim töluverður liður í tekjuöflun ríkissjóðs. í öðru lagi er það svo með allar undanþágur af þessu tagi, að hætta er á misnotkun. Það er ekki til neinn hlutlægur mælikvarði á það, hverjir skuli njóta þessara ívilnana og hverjir ekki, og felst síður en svo í þessu nein aðdróttun eða vantraust á þeim, sem þessa úthlutun hafa með höndum. Þetta á við allar undanþágur af því tagi, sem um er að ræóa, og að mínu áliti er þeim mun meiri hætta á slíkri misnotkun, eftir því sem undanþágurnar eru rýmri. Að öðru leyti hlýtur þetta atriði auðvitað að verða til meðferðar frá ári til árs, hve margar bifreiðar sé hæfilegt að hafa með tollaívilnunum, en að svo stöddu treystist ég samkvæmt áður sögðu ekki til að mæla með þessari brtt.