11.03.1965
Efri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Mig langar til með örfáum orðum að víkja í upphafi að ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna hér og þá rétt fyrst minna á það, sem ég man nú ekki lengur ákveðnar tölur um, að hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að fyrir húsnæðismálastjórn hefðu legið 1. apríl s.l. 2.000 óafgreiddar umsóknir. Ég skal ekki rengja þessa tölu, en upplýsa, hvernig þessi mál standa nú. Hinn 30. jan, s.l., eða fyrir rétt tæpum hálfum öðrum mánuði, fór fram bráðabirgðatalning á þeim umsóknum, sem þá lágu fyrir. Samkv. því voru enn eftir af aprílumsóknunum 336 umsóknir, þar af 202, sem enga afgreiðslu höfðu fengið, en 134, sem einhverja úrlausn höfðu fengið, allt upp undir hámark, en ekki fullnaðarafgreiðslu. Það sýnir því, að verulega hefur áunnizt á árinu, ef tölur hv. 6. þm. Sunnl. eru réttar, að þá hafi legið fyrir 2.000 óafgreiddar umsóknir, en af þeim eru eftir 336. Þá sýndist tala innkominna umsókna frá 1, apríl til mánaðarloka jan. s.l. vera nálægt 500, þannig að fyrirliggjandi umsóknir þann dag, — tölur eru sífellt að breytast með hverjum degi, — voru 836 og hafa aldrei í starfi stofnunarinnar legið fyrir færri óafgreiddar umsóknir en lágu þá fyrir, þegar talning fór fram. Þetta vildi ég, að kæmi fram, því að það er vitað, að bæði sumarlánveitingunni og eins þeirri, sem fram fór siðast á þessu ári, var það fyrst og fremst að þakka, að ástand þessara mála er hvað fyrirliggjandi umsóknir snertir eins og þessar tölur sýna.

Hv. þm. kom víða við og vakti athygli á mörgu því, sem ég get verið honum innilega sammála um í sambandi við t.d. framkvæmdina á 3. gr., 2. gr. núgildandi laga, sem verður 3. gr. þessara l., ef samþykkt verða, að töluvert skorti á um framkvæmdir í þeim efnum. Ég mun víkja að því síðar, en þar hefur augljóslega verið sá ágalli á, eins og reyndar um framkvæmd í heild, að fjárskortur hefur verið þar aðalþröskuldurinn í vegi. Skilyrði fyrir því að hafa áhrif á íbúðastærð og byggingarhætti landsmanna byggjast fyrst og fremst á því, að lánin, sem veitt eru, séu meiri og stærri. Með því er hægt að setja stærri og meiri skilyrði, en með þeim hlutfallslega lágu lánum, sem veitt hafa verið hingað til.

Hv. þm. endurtók það nú, sem var rætt mjög ýtarlega í sambandi við umr. um launaskatt hér á dögunum, að fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefði verið miklu minni í tíð núv. ríkisstj. en áður, en hins vegar hefði fjárfesting í iðnaðar og verzlunarhúsnæði jafnvel margfaldazt. Nú þekkjum við báðir hv. þm. og reyndar allir þdm., hvernig atvinnuháttum okkar er komið, og ég vil aðeins minna á eitt atriði í þessu sambandi. Er mögulegt, að stöðva þessa þróun öðruvísi, en setja á einhverjar fjárfestingarhömlur á iðnaðar- og verzlunarhúsnæði? Er hv. þm. að mæla með slíkum aðgerðum? Það er takmarkaður fjöldi manna, sem byggingarvinnu stundar og getur stundað og þessar byggingarframkvæmdir hljóta að skipta þessu vinnuafli á milli sín. Nú vitum við, að mjög mikil eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli einmitt á þessum vinnumarkaði og áður um langt bil hafði verið dregið úr og stöðvuð með opinberum aðgerðum bygging verzlunar og iðnaðarhúsnæðis og samkv. álíti þessara starfsstétta var mjög mikil þörf á úrbótum í þessu efni. Það er því margra ára hungur í þessum efnum, sem fram kemur í því, að þessir aðilar hrifsa til sín vinnuaflið á vinnumarkaðinum, og það eitt hefur, eins og þm. gat réttilega um, haft óheillavænleg áhrif á byggingu íbúðarhúsa.

Hliðstætt því, sem hann minntist á, er hans útlegging á 40 millj. kr. framlaginu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að lagt verði til húsnæðismála á næstu árum, það mundi miklu hyggilegra jafnvel að afskrifa heldur tolla af byggingarefni en leggja þessa peninga fram. Nú hefur það verið mál manna, að það væri nægjanleg skriffinnska í kringum núverandi skipulag á húsnæðismálum og erfiðleika á því að útfylla þau plögg og skila þeim, sem þar eru talin nauðsynleg. En mér er spurn í sambandi við þessa munnlegu aths. þm., hvernig ætti t.d. að aðgreina byggingarefni til íbúðarhúsabygginga og byggingarefni í aðrar þarfir. Ég hygg, að það kostaði annað skrifstofubákn.

Ég segi ekki, að það sé óframkvæmanlegt, en það hlyti óhjákvæmilega að hafa í för með sér mikinn kostnað og hygg ég, af því að hitt er mun auðveldara í framkvæmd, að sá háttur sé á hafður, eins og hér er gert ráð fyrir.

Hann taldi, að öfugt hefði verið farið að um verðtryggingu á útlánunum, þar sem aðeins lítill hluti lánanna væri tryggður sjálfum sparendum, þ.e.a.s. skyldusparnaðarhluti útlánanna væri það eina, sem þyrfti að standa skil á verðtryggingu aftur. Mér er nú spurn: Er ekki eðlilegt, að sjóðurinn, sem nú fyrst eygir þá möguleika að byggja sig upp, hugsi líka um það, að hann verði til áfram, en fari ekki sömu leið og því miður átti sér stað um stofnlánadeild landbúnaðarins?

Hv. 9. þm. Reykv. taldi það mjög stórt skref aftur á bak, að nú væri ákveðið, að fjárframlög til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis skyldu nú bundin ákveðinni tölu í fjárl. Þegar sú breyting, sem hann minntist á, var gerð 1962, var það staðreynd, að eini sjóðurinn í sambandi við byggingar íbúðarhúsanna, sem hafði getað staðið við allar sínar skuldbindingar og annað eftirspurn fullkomlega, var einmitt sjóðurinn til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Og það hefur engin breyting orðið á því síðan.

S.l. ár, sem er það langhæsta í lánveitingum í þessu skyni, minnir mig, að það hafi verið því sem næst 20 millj. kr., en gert er ráð fyrir aukningu á næsta ári, og nú í fjárl. eru bundnar til þess arna 25 millj. Um áraraðir voru bundnar í þessu samkv. fjárl. 3.6 millj., til þess að hafa einhverja tölu á fjárl. Ég tel því, að það sé óþarfa ótti að ætla, að þessi sjóður geti ekki þrátt fyrir tilkomu ákveðinnar áætlunar í fjárl., staðið enn þá við sínar skuldbindingar gagnvart bæjarfélögunum. Hann hefur gert það allt til þessa og það er gert ráð fyrir aukningu á lánveitingum í þessu skyni með því að áætla á fjárl. 25 millj, kr. til þessara hluta. Ef það kemur hins vegar í ljós, að lögleg eftirspurn bæjar- og sveitarfélaganna verður í þessum efnum meiri, en hér er gert ráð fyrir, hefur ekki verið fyrirstaða á því að hækka þessa tölu, a.m.k. ekki í tíð núv. ríkisstj. Ég hygg því, að það sé óþarfa ótti, sem betur fer, að ætla, að ekki verði haldið sama striki í þessum efnum eins og hingað til, til þess að verða við öllum óskum sveitarfélaganna. Það hefur verið gert og ég ætla, að á því verði ekki breyting.

Önnur atriði, sem hv. þm. minntist á, vegna þess að hann gaf ekkert sérstakt tilefni til þess, læt ég a.m.k. á þessu stigi málsins órædd. Það er að mínu viti kannske ekki þörf á því í þessari hv. d. að rekja þær umr., er fram fóru eða spunnust út af frv. um launaskatt hér á dögunum. Á því ætti ekki að vera þörf. Þar voru sumir liðir þess, sem hér hefur verið minnzt á af hv. þm., mjög ýtarlega ræddir og þess vegna óþarft að rifja það upp, nema sérstakt tilefni gefist til.

Eins og hæstv. félmrh. gat um í sinni framsöguræðu, fléttuðust þessi mál inn í hið margnefnda júnísamkomulag og ber samningsaðilum saman um það, að húsnæðismálin væru svo veigamikill liður í framfærslukostnaði fjölskyldna og þá ekki sízt þeirra, sem minnstar tekjur hafa og úr minnstu hafa að spila launalega séð, að eðlilegt væri og nauðsynlegt að fá fram úrlausn og umbætur í þessum mikla vanda, ef það gæti auðveldað lausn þeirrar deilu, sem þá virtist vera fram undan um launakjör og bætta afkomu launþega. Það þarf ekki heldur að fara í neinar grafgötur um, að húsnæðiskostnaðurinn er nú og hefur allt frá upphafi síðari heimsstyrjaldar verið stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu og því miður hefur þessi kostnaðarliður farið vaxandi. Kemur þar að sjálfsögðu margt til, en þó fyrst og fremst verðbólgan, sem þar hefur sýnt mörg sin verstu einkenni. Áður en samningaviðræður þessar fóru fram, hafði húsnæðismálastjórn haft á hendi endurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar og skilað álíti til ríkisstj., sem því miður gat þó ekki orðið einróma. Við umr. um sjálft júní samkomulagið voru velflestar brtt. húsnæðismálastjórnar teknar upp og koma fram í frv., sem hér er til umr. Hæstv. félmrh. hefur gert glögga grein fyrir helztu nýjungum, sem í frv, felast og er því ekki heldur þörf til að ræða það sérstaklega.

Af eðlilegum ástæðum dynja nú fyrirspurnir yfir stjórn og starfsfólk húsnæðismálastofnunarinnar um ýmis atriði, sem enn verða ekki ljós þrátt fyrir tilkomu þessa frv. og eðlilegra mun að setja í reglugerð, þar sem um bein framkvæmdaatriði er að ræða. Þessar fsp. eru fyrst og fremst tvær: Hvaða byggingar verða aðnjótandi hinna nýju hámarkslána? Við hvaða tímamörk verður miðað í þessum efnum? Og í öðru lagi: Verða hin endanlegu tímamörk sett á milli núgildandi hámarkslána, án þess að nokkur milliupphæð lána verði sett til þeirra, er hófu framkvæmdir við íbúðabyggingar sínar eða íbúðarhús, t.d. eftir að júní samkomulagið gekk í gildi og fram að þeim tíma, er bygging þeirra húsa hefst, er hinna nýju lána munu njóta? Hér eins og um flest önnur atriði um framkvæmd laganna um húsnæðismálastofnun ríkisins mun fjáröflun mestu ráða, þ.e. tekjumöguleikarnir. Rangt mat á útlánagetu stofnunarinnar fyrstu starfsár hennar hefur orðið lánsumsækjendum nokkuð alvarlegur fjötur um fót og reyndar stofnuninni líka, sem berlegast hefur komið fram í því, að hundruð og jafnvel þúsundir lánsumsókna hafa legið jafnvel árum saman óafgreiddar eða hálfafgreiddar hjá stofnuninni. Óefað á þetta ranga mat, sem því miður bar of mikið á á fyrstu starfsárum stofnunarinnar, á útlánagetunni og oft og tíðum hald lítill blaðaáróður um algera fullnægingu eftirspurnar verulegan þátt í allt of löngum byggingartíma íbúðanna og þar af leiðandi óhjákvæmilega hærra verði þeirra.

Undir þessum vanda frá fyrstu árum stofnunarinnar skapaðist þessi mikli vandi og hefur stofnunin síðan stunið undir og lánsumsækjendur lifað í sífelldri óvissu um, hvenær að þeim kæmi með einhverja úrlausn. Frammi fyrir þessum vanda stóð húsnæðismálastjórn, er hún hóf að ósk hæstv. félmrh, endurskoðun laga um stofnunina í árslok 1963, en í apríl 1964 skilaði hún álíti sínu til ríkisstj. eða eins og fyrr er sagt skömmu áður, um það bil mánuði áður en viðræðurnar um hið margnefnda júní samkomulag hófust. 1 þessum viðræðum hins margnefnda samkomulags voru allir sammála um, að koma yrði, svo sem fært væri, í veg fyrir, að umsóknir, sem enga úrlausn gætu fengið, hlæðust upp, eða m.ö.o. að fækka yrði hálfbyggðu húsunum, hálfbyggðu íbúðunum, sem enginn hefði not af, en tryggja þess í stað árlega ákveðnum fjölda lánsumsókna afgreiðslu með fyrirframgerðu lánsloforði, sem afgreitt yrði í tvennu lagi miðað við ákveðið byggingarstig.

Hv. 6. þm. Sunnl. minntist hér á áðan, að nágrannar okkar hér væru í þessum efnum um margt til fyrirmyndar. Þar er ég honum alveg sammála og hér er m.a. farið inn á eina af þeim reglum, er þar gilda um þessa hluti og hafa verið reyndir með mjög góðum árangri.

Alger forsenda fyrir þessari breyttu tilhögun varð að sjálfsögðu að koma fram í betur tryggðum tekjum stofnunarinnar. Að byggja starf slíkra útlána á lánum, sem samið var um frá ári til árs og e.t.v. til skamms tíma, varð ekki lengur við unað og gat ekki orðið grundvöllur að umbótum í þessum málum, en það var því miður undirstaðan, hin veika undirstaða undir starfi stofnunarinnar allt fram á síðari ár.

Með þessar staðreyndir í huga urðu hinar traustu og föstu tekjur stofnunarinnar til, sem nú birtast hér í 4.–6. gr. frv. Sýnilegur árangur þessarar stefnu að traustari tekjumyndun birtist nú m.a. í því, að telja má með því bezta öryggi, sem enn þá hefur verið völ á í þessu starfi, að öllum fyrirliggjandi lánshæfum umsóknum, er borizt höfðu fyrir 1. apríl 1964, verði fullnægt í næstu lánveitingu, þá verði jafnframt fullnægt því ákvæði júní samkomulagsins að afgreiða fyrir 1. júní þessa árs 250 millj. kr., en þegar hefur verið ráðstafað af þeirri upphæð, frá því að samkomulagið var gert, 185 millj. kr.

Persónulega tel ég hina traustu tekjustofna frv. lang veiga mesta atriði þess. í núgildandi l., eins og hv. 6, þm. Sunnl. gat um áðan, hefur ekki skort heimild fyrir húsnæðismálastjórn nánast til allra mögulegra hluta í þessum efnum. Möguleika til framkvæmdanna, þ.e. fjármunina, hefur hins vegar skort í svo ríkum mæli, að allt of margar af hinum vel hugsuðu heimildum 3. gr. frv. hafa enn ekki komið til framkvæmda. Áætlunargerð um útlán og önnur afskipti til umbóta í húsnæðismálum hefur einnig nánast verið útilokuð af sömu ástæðum. Svo sem áður er greint, gefur frv. sem heild rökstuddar vonir um breytt viðhorf, verulega breytt viðhorf til batnaðar.

Nú við 1. umr. þessa máls tel ég ekki ástæðu til að fara út í einstakar greinar þess. Til þess gefst e.t.v. tækifæri á siðari stigum, þegar málið gengur lengra fram.