06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Allir þrír frsm. nefndarhluta heilbr.- og félmn. hafa nú gert grein fyrir afstöðu sinni til frv. og lýst till. sínum,og þykir mér hlýða, áður en þessari umr. lýkur, að segja um þetta nokkur orð.

Skal ég þá leyfa mér fyrst að minnast á brtt. frá hv. meiri hl. n. Hann ber fram 8 brtt. í meira en einum lið og er þar skemmst um að segja, að ég get fyrir mitt leyti fallizt á þær allar og tel þær eðlilegar.

1. brtt. er um það, hvernig afla skuli tekna til þess að ná þeim 40 millj. kr., sem ríkissjóður hefur heitið að leggja fram til byggingarsjóðsins og er auðvitað ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður þurfi að afla tekna á móti þeim útgjöldum. Þetta er gert með því að þrefalda fasteignamatið til eignarskatts á fasteignum og var það valið sem leið frekar, en aðrar leiðir, sem höfðu verið til umtals. í júní samkomulaginu margnefnda, sem oft er vitnað til í þessu sambandi, stendur, að tekna í þessu skyni skuli aflað úr ríkissjóði, með fasteignaskatti eða á annan hátt. Fasteignaskatturinn var lengst til athugunar til að byrja með, en það bar tvennt til, að sú leið var ekki valin. Í fyrsta lagi það, að kaupstaðirnir eða sveitarfélögin hafa nú upp á síðkastið haft þennan tekjustofn og var þess vegna talið erfitt að taka nokkurn hluta hans frá sveitarfélögunum og láta hann ganga til þessara mála, þó að ekki væri beint til ríkissjóðs, var það þó a.m.k. frá sveitarfélögunum tekið. Önnur ástæðan var sú, að þessi fasteignaskattur mundi hafa komið tiltölulega illa við þá, sem nýlega voru búnir að byggja, því að þá var ekkert tillit tekið til þeirra skulda, sem þeir höfðu stofnað til í sambandi við bygginguna. Með því að afla teknanna á þennan hátt, með eignarskatti, þar sem tekið er inn sem eign þrefalt fasteignamat, er þetta að nokkru leyti álag á fasteignirnar, án þess þó að vera fasteignaskattur, en um leið tekið tillit til þeirra skulda, sem stofnað hefur verið til, því að eignin verður auðvitað í heild þeim mun minni sem skuldirnar, sem á hvíla, eru meiri. Og fasteignamatið er í flestum tilfellum svo lágt, að þeir, sem nýbúnir eru að byggja a.m.k., hafa stofnað til skulda, sem eru meiri, en þrefalt fasteignamat og kemur þess vegna létt niður á þeim í hlutfalli við hina, sem eldri eru og þola þennan skatt betur.

2. brtt. er um það, að framfærslukostnaðarvísitalan verði ekki notuð, eins og var í frv., heldur komi kaupgreiðsluvísitala í staðinn og mun það vera eftir óskum eða till. frá Alþýðusambandsmönnum, því að sú ósk kom fljótlega fram, eftir að þetta frv, var lagt fram, að kaupgreiðsluvísitalan skyldi notuð, en ekki framfærsluvísitalan og er það gert til samræmis við þá vísitölu, sem launþegar fá sitt kaup greitt eftir og þess vegna skapast samræmi á milli þess vísitöluálags, sem menn fá á kaup sitt og þess vísitöluálags, sem kemur á lánin. Ég get þess vegna fyrir mitt leyti vel fallizt á þessa brtt.

3. brtt. er um það, að Öryrkjabandalagi Íslands verði veittur möguleiki til þess að taka lán til byggingar leiguíbúða handa fötluðum, og það er komið inn vegna eindreginna tilmæla frá Öryrkjabandalaginu, sem lengi hefur verið að brjótast með það í huganum að reyna að útvega fötluðum húsnæði við þeirra hæfi og með viðráðanlegum kjörum.

Þá er í 4. brtt. gert ráð fyrir, að viðmiðunar upphæðin, sem lán húsnæðismálastjórnar megi ekki fara fram úr, sé 3/4 hlutar verðmætis íbúðar, en ekki 2/3, eins og var í frv. og ég út af fyrir sig hef ekkert við því að segja.

Hinar brtt. eru að meira eða minna leyti afleiðing af þessum till. og eins og ég segi, ég get vel fallizt á það, að þessar brtt. allar verði samþykktar.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir brtt. 1. minni hl. n. og hóf mál sitt á skáldlegum orðum, eins og hans var von og vísa, talaði um, að þróun þessara mála væri nokkuð sambærileg við jakann, sem væri á siglingu undan straumi og vindi og vildi draga af því nokkra samlíkingu, þ.e.a.s. milli þeirrar breytingar, sem orðið hefði á kostnaði við byggingar hér hin síðustu árin, að ég ætla, í samanburði við það, sem áður hafði verið og taldi, að ríkisstj. hefði verið á reki með þau mál, og má kannske segja það, að í öllu þessu verðbólgustandi, sem við höfum átt í, höfum við verið á nokkru undanhaldi vegna óviðráðanlegra hluta. En hann vildi draga af þessu, að mér skildist, þann lærdóm eða þær upplýsingar, að byggingarvísitalan hefði hækkað talsvert örar nú upp á síðkastið, en hún hefði gert áður. En ég hef gert á þessu nokkra athugun og mér sýnist við þá athugun, að byggingarvísitalan, frá því að hún var sett í 100 haustið 1955, hafi á næstu 3 árum hækkað um 34% eða að meðaltali um 11.1% á ári. Síðan, í þau 61/2 ár, sem liðin eru síðan 1958, síðari hluta ársins, hefur hún hækkað um ekki 11.1% , heldur að vísu 11.8% og er þar út af fyrir sig ekki ýkjamikill munur á. En sannleikurinn um þetta atriði er sá, að það hefur engin ríkisstj. ráðið að fullu við þetta og þess vegna má segja, að hin skáldlega líking hv. þm. um ísjakann eigi þarna við nokkur rök að styðjast, ekki einasta hvað snertir núv. ríkisstj., heldur líka þær, sem að undanförnu hafa setið, þær hafa ekki heldur ráðið við þessa þróun.

Þá vildi þessi hv. þm. ekki, að þessar 40 millj., sem ríkissjóður leggur fram, yrðu jafnaðar eða tekna aflað á móti þeim á þann hátt, sem frv, gerir ráð fyrir, eða samkv. því, sem till. meiri hl. n. gera ráð fyrir. En ekki skildist mér þó á honum, að hann væri efnislega á móti þessu, heldur hitt, að þessi ákvæði ættu ekki heima í þessum lögum, heldur ættu þau að takast upp í skattalögin. Um þetta má náttúrlega endalaust deila. En þetta er tekið inn hér vegna þess, að þetta er tekjuöflun í sambandi við byggingarstarfsemina og ekki tekjuöflun beinlínis í ríkissjóðinn. Þó að tekjurnar, sem koma við þessa hækkun á eignarskattinum, fari í gegnum ríkissjóðinn, er það ekki tekjuöflun handa ríkissjóði sjálfum, heldur handa þessari byggingarstarfsemi og er eingöngu gert til þess að mæta þessum kostnaðarauka ríkissjóðs. Það má vel vera, að það væri í framtíðinni rétt að taka þetta ákvæði inn í skattal., þegar þau verða kódifíseruð eða teknar saman allar þær breytingar, sem á þeim hafa verið gerðar. En eins og málin standa í dag, sé ég ekkert við það að athuga, að þetta ákvæði sé tekið inn hér. Það eru teknar inn í frv. og hafa verið í l. um húsnæðismálastjórn tekjuöflunarákvæði, sem kannske ættu eins vel heima í öðrum 1., eingöngu vegna þess, að það hefur þótt eðlilegt, að tekjuöflunarleiðir vegna húsnæðismálanna væru teknar inn í lög um þau efni.

Þá er eitt atriði í brtt. hv. minni hl. beggja, sem virðist hafa verið þeim mikill þyrnir í augum og það er vísitölutrygging lánanna. Hv. 2. minni hl. hefur lagt fram till. um að undanþiggja vextina þessum vísitöluauka, sem koma kynni og hv. 1. minni hl. hafði einnig um þetta þau orð, að þetta gæti leitt til mjög mikils skatts á íbúðaeigendurna, sem tækju þessi lán. Það er vissulega rétt, að þessi verðtrygging lánsins eða lánanna kemur niður á þeim, sem lánið tekur, en þó þannig, að um leið hefur verið tekin upp verðtrygging á kaupi, þannig að sá, sem notar — við skulum segja 20% af sínum tekjum til þess að standa undir láninu, þegar það er tekið, hann þarf ekki heldur nema 20% af sinum tekjum til þess að standa undir láninu síðar, þó að vísitala hækki svo og svo mikið, því að tekjur hans hækka eins og afborganirnar og vextirnir af láninu hækka, enda var um þetta greinilega samið við verkalýðsfélögin, þannig að þetta á ekki að skaða lántakanda. En það er náttúrlega ekki hægt að búast við því, að það ástand, sem hv. 9. þm. Reykv. lýsti í þessu efni, geti haldið áfram, þegar hann sagði, að margur maðurinn hefði bjargazt á því, að verðbólga var í landi! Ég held, að þetta sé óholl björgunarstarfsemi og eigi að koma í veg fyrir hana, heldur eigi að reyna að koma því til leiðar, að menn þurfi ekki endilega að æpa á vaxandi verðbólgu til þess að bjarga sér. Og ég tel þetta mjög vafasamt — og ekki einungis það, heldur alveg afleita aðferð að bjarga sér á að gera það með aukinni verðbólgu. En ég legg áherzlu á, að þar sem vísitala hefur verið ákveðin og vísitöluuppbætur hafa verið ákveðnar, þá á hver maður að standa jafnréttur undir því að borga vísitöluuppbót á sitt lán.

Þá gerðu báðir hv. frsm., 1. og 2. minni hl., mjög að umtalsefni, að það væri ranglátt og raunar alveg ótækt, að það yrði tekið vísitöluálag á þessi lán, þar sem ekki hefði verið ákveðið að gera slíkt á öðrum hliðstæðum lánum og vildi telja, að þetta væri áníðsla á þeim, sem lægst launin hefðu og verst væru settir, því að hinir hefðu aðstöðu til að taka lán á öðrum stöðum, þar sem ekki væri vísitölutrygging á lánum. En ég get upplýst í þessu sambandi, að ríkisstj. hefur haft til athugunar að vísitölutryggja eða skapa möguleika til að vísitölutryggja öll lán til langs tíma. Þetta hefur verið í undirbúningi í Seðlabankanum og ég ætla, að það sé mjög langt komið að semja það frv. Ég skal ekki fullyrða, að það verði lagt fyrir þetta þing, sem nú á ekki langt eftir að sitja, en drög að frv. eru til og það er meiningin, eða a.m.k. er það mín meining og ég ætla allrar ríkisstj., að að því máli verði unnið mjög skjótlega. Um þetta vissu hv. þm. náttúrlega ekkert. En þegar það er vitað, þá er a.m.k. engin ástæða til að segja, að hér sé verið að hafa uppi neinn ójöfnuð við þá, menn, sem hér er um að ræða, heldur hefur það viljað þannig til, að hér var verið að setja á nýtt kerfi og þótti þá um leið eðlilegt að gera ráðstafanir til, að menn skyldu ekki bjargast á því, að verðbólga var í landinu.

Þá hefur nokkuð verið rætt um lánsupphæðina. Og ég sé ástæðu til að ræða það nokkru nánar.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að lánsupphæðin verði 280 þús. kr. á íbúð. Í till. 2. minni hl. er gert ráð fyrir að hækka þetta upp í 310 þús., og í till. 1. minni hl. er gert ráð fyrir, að lánin verði hækkuð upp í 300 þús. Út af þessu vil ég segja það, að þegar samið var í vor við verkalýðsfélögin, þá var í upphafi gert ráð fyrir, að lánsupphæðin yrði 300 þús. og það var raunar sú till., sem fyrst kom fram og fyrst var rædd. En þá kom fram ósk um, að það yrði reynt að hækka ofboðlítið lánin hjá þeim, sem erfiðast ættu í þessu efni og það varð að samkomulagi við Alþýðusambandið og verkalýðssamtökin, að þessi lán skyldu almennt lækkuð ofan í 280 þús., en það, sem við það sparaðist, yrði notað til þess að reyna að bæta við hina, sem þyrftu þess kannske þeim mun meira með, eftir till. verkalýðsfélaganna. Ef 750 lán verða veitt á árinu og hvert lán lækkar um 20 þús. kr., þá gefur það 15 millj. og það er einmitt sú upphæð, sem nefnd er í frv. að eigi að nota til þess að hækka lánin hjá þeim, sem sérstaklega þurfa á því að halda, eftir till. viðkomandi verkalýðsfélaga, þannig að raunverulega jafngildir það, sem í frv. er, því að lánin væru 300 þús. kr., jöfn til allra. Annars má náttúrlega óendanlega deila um það, hvað lánsupphæðin ætti að vera, og ég get ósköp vel fallizt á, að það væri æskilegt og indælt, ef maður gæti hækkað lánin enn þá meira. Ég tel, að með þeim fjáröflunarmöguleikum, sem fyrir hendi eru, þá sé, eins og sagt var hér áðan af hv. 12. þm. Reykv., um tvær leiðir að velja, annaðhvort að draga úr þessum 750 íbúðum og fækka þeim ellegar í öðru lagi, að það safnaðist fyrir hali, eins og gerzt hefur á undanförnum árum, þannig að ég held, að það væri ekki unnt, ekki a.m.k. með þessari fjárveitingu, sem hér er fyrir hendi, eða þeim tekjumöguleikum, sem húsnæðismálastjórn hefur, að hækka lánin úr 280 þús. og veita þessi aukalán til félaga í verkalýðsfélögum, nema því aðeins að það komi til þá einhver meiri fjáröflun en gert er ráð fyrir í frv.

Þá kom það fram í ræðum beggja frsm., 1. og 2. minni hl., að ríkisstj. hefði ekki staðið við júní samkomulagið. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt því beinlínis fram, að júní samkomulagið hefði verið rofið, en hv. 9. þm. Reykv. orðaði þetta anzi skemmtilega, á þá leið að segja, að það hefði ekki sem skyldi verið staðið við samkomulagið. Ég veit ekki, hvort það er til mismunandi gráða af því að standa við það, sem menn hafa tekið að sér, eða ekki. Mér hefur skilizt, að annaðhvort yrði maður að standa við það eða standa við það ekki. En hv. þm. orðaði þetta nú svona og meinar hann þá sjálfsagt eitthvað sérstakt með því, að það hafi ekki sem skyldi verið staðið við samkomulagið. Og hann rökstuddi það aðallega með því og meira að segja báðir, að skattar hefðu á s.1. ári verið með eindæmum og þeir hefðu gert ýmsum manninum erfitt lífið og torveldað það, að þeir gætu komizt af, eins og þeir hefðu búizt við að gera. En ég vil bara benda á það, að þessir skattar voru ákveðnir, áður en júní samkomulagið var gert og það var þess vegna ekki við neinn að sakast nema þá sjálfa, sem höfðu samþ. þau skattalög og lög um tekjustofna sveitarfélaga, sem afgr. voru hér á Alþingi, áður en júní samkomulagið var gert. Að tala um það, að skattar, sem lagðir voru á eftir l., sem búið var að samþykkja áður en júní samkomulagið var gert, brjóti í bága við samkomulagið, það getur undir engum kringumstæðum staðizt eða talizt nein brigð við það samkomulag, sem gert var, eftir að þessi tekjuöflunarlög voru samþ., það er alveg útilokað.

Annars má ýmislegt segja um þetta fram og til baka. Ég hef heyrt það nefnt t.d., þó að ég sé ekki að halda því fram, að það hafi sum verkalýðsfélög farið lengra í sínum kauphækkunum, en júní samkomulagið gerir ráð fyrir. En eins og við vitum, var það forsenda fyrir júní samkomulaginu, að grunnkaupið yrði ekki hækkað. Allt í allt verður niðurstaðan af mínum umþenkingum sú, að ég get ekki mælt með því, að till., hvorki 1. né 2. minni hl., verði samþ. Till. 1. minni hl. eru eingöngu við 7. gr. og ég hef rakið þær breytingar án þess að orða það beint í sambandi við breytingarnar sjálfar. Ég get ekki samkv. þeim rökum, sem ég hef flutt, mælt með því, að þeirra till. verði samþ.

Hv. 9. þm. Reykv. kom að því í ræðu sinni, að það væri mikill skaði, að nú ætti að ákveða í fjárlögum, hversu miklu fé skyldi verja til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og það væri afturför frá því, sem verið hefði nú 2 eða 3 síðustu árin. Eins og hv, þm. muna, var það áður fyrr í l., að framlög ríkisins til heilsuspillandi húsnæðis voru ákveðin í fjárlögum og framlög ríkissjóðs við þá fjárlagaákvörðun bundin. En fyrir stuttu var þessu breytt þannig, að það var lagt í vald sveitarfélaganna, hversu mikið þau gerðu að því að útrýma heilsuspillandi húsnæði og ríkissjóður varð svo að gera svo vel að greiða eða lána jafnmikið á móti. Þetta hefur svo orðið til þess, að þessi framlög hafa margfaldazt alveg gífurlega og ríkissjóður hafði í byrjun ársins enga hugmynd um, hversu mikið hann þyrfti að greiða í þessu skyni. Ég man ekki tölurnar, en það er alveg öruggt, að frá því að þessu ákvæði var breytt, þá hefur framlagið margfaldazt, en þannig er þetta ekki um nein framlög, sem ríkissjóður greiðir til opinberra framkvæmda. Við skulum taka t.d. hafnargerðir. Ríkissjóður á að borga 40%, í flestum tilfellum, af því, sem höfn kostar. En það er ákveðið í hverju einasta tilfelli, hvað ríkissjóður þurfi að greiða á hverju ári. Alveg eins er með skóla, alveg eins er með sjúkrahús. Það er ákveðinn hluti af byggingarkostnaðinum, sem ríkissjóður á að greiða, en alls staðar ákveðið hámark í fjárlögum. En að hafa það alveg opið, það leiðir til þess, að ríkissjóður eða ríkisstj. hefur engin tök á því að „kontrolera“, hve mikið er gert á hverju ári, ef það á bara að borga jafnmikið og sveitarfélögin vilja láta gera. Ég held þess vegna, að þetta ákvæði sé alveg nauðsynlegt. Ef menn vilja láta vinna eitthvað dálítið verklega, þá er leið til þess að taka það upp í fjárlögin fyrir fram, heldur en að það komi á ríkissjóðinn, án þess að það hafi verið gert ráð fyrir því.

Ég held, að það hafi ekki verið miklu meira, sem ég þarf að nefna. Hv. 12. þm. Reykv. gerði grein fyrir nokkrum atriðum, sem ég hafði annars ætlað mér að ræða, en ég sé enga ástæðu til þess að endurtaka það hér, sem hann sagði. Ég sem sagt legg til, að till. meiri hl. verði samþ., en till. minni hl. felldar.