08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. mikið og ætla ekki að blanda mér í þær með því að ræða um þau atriði, sem fram hafa komið í umr. yfirleitt, heldur kveð ég mér aðeins hljóðs til þess að gera stuttlega grein fyrir brtt., sem ég hef lagt fram ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. á þskj. 436. Till. gengur út á það, að í 7. gr. eftir setningunni „Húsnæðismálastjórn getur enn fremur veitt sveitarfélögum lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum“ — og þar leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til, að verði bætt við „Öryrkjabandalagi Íslands“, þá leggjum við til, að við þessar setningar bætist: „og einnig stjórn stúdentagarðanna til byggingar íbúða fyrir kvænta stúdenta“. Ég skal ekki eyða tímanum í það að gera hér grein fyrir nauðsyn þess að byggja slíkar íbúðir fyrir kvænta stúdenta, sökum þess að hv. alþm. er það mál kunnugt, því að fyrir nokkru var útbýtt hér í hv. Alþ. skýrslu frá nefnd stúdenta, sem um það mál fjallaði. Samkv. þeirri skýrslu kemur í ljós, að um 40% stúdenta við Háskóla Íslands eru kvæntir.

Það liggur í augum uppi, að þessir kvæntu stúdentar þurfa að taka sér á leigu íbúðir og það er því ekki síður lausn á hinum almennu íbúðavandamálum að byggja þessa svonefndu hjónagarða, heldur en hverjar aðrar íbúðir, sökum þess að stúdentarnir taka að sjálfsögðu ekki annað húsnæði, á meðan þeir búa þar. Þess vegna virðist okkur flm. þessarar till. ekki óeðlilegt, að húsnæðismálastjórnin stuðli að byggingu hjónagarða með sama hætti og annarra íbúða í landinu og inn í þessa grein verði sett heimild um það, að húsnæðismálastjórn hefði heimild til þess að veita slík lán til stjórnar stúdentagarðanna. Okkur flm. er að sjálfsögðu ljóst, að þetta er í sjálfu sér engan veginn nægilegt til þess að tryggja það, að hægt sé að byggja þessa hjónagarða. Það verður að sjálfsögðu að finna aðrar leiðir til þess að tryggja það. En eigi að síður virðist okkur eðlilegt, að slíkar íbúðir gætu notið eðlilegrar lánsfyrirgreiðslu með sama hætti og aðrar íbúðir í landinu.

Þar sem þessi till. er svo seint fram komin sem raun ber vitni, þykir mér eðlilegt að taka hana aftur til 3. umr. og leyfi mér að fara þess á leit við hv. heilbr.– og félmn., að hún taki til athugunar fyrir 3. umr., hvort hún gæti ekki mælt með þessari till. Ég sé nú ekki hv. formann heilbr.– og félmn. hér í salnum, en ég vildi leyfa mér að biðja hv. frsm. meiri hl. um að hlutast til um, að þetta verði hugleitt í n., áður en 3. umr. fer fram.