08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé mjög vafasöm skoðun, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að gera lítið úr þýðingu þess, að það séu efldir sjóðir húsnæðismálastjórnar með eigin fé. Ég held, að það sé eitt það merkasta, sem hæstv. ríkisstj. er að gera núna, að efla svo mjög eigin fé byggingarsjóðs ríkisins. Við vissum, hvernig það var, þegar húsnæðismálastjórnin var fyrst sett á laggirnar og löggjöf nr. 55 frá 1955 var sett. Þá var reiknað með því, að það ætti ákveðinn hluti af sparifé landsmanna að ganga til íbúðalána. Það leit vel út á pappírnum og það var gott að vissu leyti í framkvæmd, vegna þess að ríkisstj. gerði sérstakar ráðstafanir til þess að semja við viðskiptabanka landsins um það, að þeir veittu ákveðið fjármagn til íbúðalána í formi þess að kaupa bankavaxtabréf veðdeildar Landsbankans. En það kom brátt samt í ljós, að þetta var allsendis ófullnægjandi. Ætla ég ekki að lýsa afleiðingum þess, sem koma fram í því og var mjög áþreifanlegt, að húsnæðismálastjórnin hafði miklu minna fjármagn til umráða, heldur en þurft hefði. Sú saga er öllum kunn og er ekki ástæða til þess að rifja hana hér upp. En ég get ekki annað en bent á þetta í tilefni af síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns.

Ég ætla mér hins vegar ekki að fara að lengja þær umr., sem hér hafa orðið, bæði í dag og svo s.l. þriðjudag. Hæstv. félmrh. hefur svarað svo ýtarlega aðfinnslum og röksemdafærslum stjórnarandstöðunnar, að ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að bæta neinu þar við, enda hallar ekki á ríkisstj. í þeim viðskipum.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég tel, að athugasemdir hv. 3. þm. Norðurl. v. varðandi 1. brtt. meiri hl. heilbr.- og félmn. á þskj. 401 um það atriði, að gildandi fasteignamat verði þrefaldað, þannig að það gildi aðeins fyrir skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum, hafi við rök að styðjast að því leyti, að það sé rétt að athuga þetta mál nánar. Það er alveg rétt, sem hæstv. félmrh. lýsti yfir áðan, að það var mjög góður og mikilsvirtur lögfræðingur, sem samdi þetta, en formaður heilbr.- og félmn. tjáði mér nú rétt áðan, að þessi ágæti lögfræðingur hefði komið að máli við sig og talið, að það væri rétt að athuga þetta mál nokkru nánar. Með tilliti til þessa tekur meiri hl. heilbr.- og félmn. 1. brtt. á þskj. 401 til baka til 3. umr. N. mun koma saman og athuga þetta mái og mun þá að sjálfsögðu einnig athuga þá brtt., sem fram hefur komið á þskj. 436.