11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

105. mál, hjúkrunarlög

Frsm. (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Heilbr.-- og félmn. hefur haft til athugunar frv. til hjúkrunarlaga, sem hér liggur fyrir á þskj. 158. Frv. var sent til umsagnar Læknafélags Íslands, sem telur sig ekkert hafa við það að athuga. Þá mættu á fundi hjá heilbr. og fél-.mn. forsvarskonur hjúkrunarsamtakanna og óskuðu þær mjög eindregið eftir, að 3. mgr. 2. gr. yrði felld niður úr frv. N. athugaði þetta atriði sérstaklega og varð sammála um að leggja til, að umrædd mgr. yrði felld niður. Telur n., að ákvæði 2. mgr. 2. gr. um heimild til handa ráðh. um undanþágur sé tæmandi og að það raski því ekki í neinu efni þessarar gr. frv., þó að 3. mgr. hennar falli niður.

Efni þessa frv. er, eins og hæstv. heilbrmrh. benti á í framsöguræðu sinni, er málið var lagt fram í þessari hv. d. til 1. umr., almenn endurskoðun á hjúkrunarkvennalögunum, nr. 27 frá 19. júní 1933. En auk þess eru í þessu frv. nokkur nýmæli, sem ekki hafa áður verið í l. varðandi þessi mál. Helzta nýmæli frv. er að finna í 8. gr. þess, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að þjálfa konur og karla til aðstoðar við hjúkrun og skal starfsheiti þeirra, námstilhögun, starfsréttindi og skyldur ákveðið í reglugerð.“

Um þessa gr. frv. segir í aths., sem því fylgja, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalástæðan til endurskoðunar hjúkrunarkvennalaganna er hinn mikli skortur á hjúkrunarkonum í landinu. Ein leið til að bæta að nokkru úr þeim skorti er að þjálfa sérstaka stétt aðstoðarfólks, er vinni við hjúkrunarstörf undir stjórn hjúkrunarkvenna. Hefur þessi leið verið farin erlendis og mun hafa reynzt vel. Þykir því rétt að heimila með lögum sams konar ráðstöfun hér á landi. Aðstoðarfólk þetta hlýtur aðallega verklega þjálfun um nokkurra mánaða skeið. Það vinnur ekki á eigin spýtur, en tekur að sér ýmis vandaminni störf undir stjórn hjúkrunarkvenna og getur því að vissu marki komið í þeirra stað.“

Enn fremur segir í aths., að í ráði sé, að Rauði kross Íslands taki að sér að stjórna þjálfun þessa fólks.

Allir, sem til þekkja, vita, að mikill skortur hefur verið á lærðu hjúkrunarfólki mörg undanfarin ár hér á landi og er ekki annað sjáanlegt, en að með tilkomu hinna nýju og stóru sjúkrahúsa, sem nú er verið að reisa bæði hér í Reykjavík og víðar um landið, verði þessi skortur enn tilfinnanlegri, þegar þessi hús verða tekin í notkun, þar sem þau að sjálfsögðu útheimta nýtt starfsfólk og enn fleira, en þau sjúkrahús, sem nú eru í notkun hér. Verður því sú leið, sem hugsað er að fara í 8. gr. frv., að teljast eðlileg og líklegust til úrbóta, þar sem ekki er nema um takmarkaða tölu hjúkrunarfólks að ræða, sem hægt er að útskrifa árlega úr Hjúkrunarskóla Íslands, eins og nú er. En rétt er að benda á það í þessu sambandi, að verulegt átak er fyrirhugað í þessu sambandi með stækkun þessa skóla, og er á 20. gr. fjárl. fyrir þetta ár gert ráð fyrir framlagi í þessu sambandi. Tel ég ástæðu til að ætla, að verulegra úrbóta sé von í þessum efnum, þegar stækkun skólans hefur átt sér stað.

Herra forseti. Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri brtt., sem fram kemur á þskj. 316.