18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

105. mál, hjúkrunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til hjúkrunarlaga kemur frá Nd. og hefur farið gegnum þá d. svo til óbreytt. Þó hefur verið gerð smábreyt. á 2. gr., þar sem felld hefur verið niður 3. málsgr. þeirrar gr., eins og var í upphaflega frv., en það skiptir ekki efnislega máli í þessu sambandi.

Þetta frv. er endurskoðun á hjúkrunarkvennalögunum, nr. 27 19. júní 1933 og er að efni til almenn endurskoðun og endurbót á ýmsum ákvæðum þeirra. En jafnframt er frv. fram borið vegna þess, hversu hjúkrunarkvennaskortur hefur verið mikill og inn í þetta frv. fellt eitt ákvæði, sem ætla mætti að gæti unnið að því að bæta nokkuð úr þeim skorti, en það er að þjálfa aðstoðarfólk til hjúkrunar á sérstökum námskeiðum og fjallar 8. gr. um það atriði, þar sem segir, að heimilt sé að þjálfa konur og karla til aðstoðar við hjúkrunarstarf og skal starfsheiti þeirra, námstilhögun, starfsréttindi og skyldur ákveðið í reglugerð. Það hefur verið gert ráð fyrir því, að þetta hjúkrunarfólk yrði þjálfað í samvinnu við Rauða kross Íslands og standa nokkrar vonir til þess, að það geti að einhverju leyti, eins og ég sagði áðan, bætt úr hinum alvarlega skorti hjúkrunarkvenna.

Að öðru leyti er gerð grein fyrir því í aths. frv., hvernig málið er til komið. Það er undirbúið af landlækni og borgarlækni í samráði við hjúkrunarkvennasamtökin í landinu, stjórn Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og fleiri aðila.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Hinar einstöku gr., að svo miklu leyti sem nýmæli eru, sem eru sáralítil umfram það, sem ég hef nú sagt, þá eru þau skýrð í aths.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. heilbr.– og félmn.