04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

138. mál, læknaskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekkert eðlilegra, en að lög um læknaskipun séu endurskoðuð á nokkurra ára fresti og breytingar samhæfðar þjóðlífsbreytingum og læknishéraðaskipuninni breytt með tilliti til þess. Ég er því síður en svo óánægður með, að fram sé komið á Alþingi frv. til læknaskipunarlaga, og teldi það ekki nema eðlilegt, að síðan núgildandi lög voru sett, hafi ýmsar þær breytingar getað orðið í byggðaþróun landsins, að réttmætt væri og ég vil segja jafnvel nauðsynlegt í einstökum atriðum að gera á þeim breytingar.

Ég sé, að til þess að endurskoða þessa löggjöf hafa verið valdir mjög færir menn úr læknastétt og nokkrir aðrir ágætismenn og það er mér ljóst, að þeim var fengið erfitt hlutverk að vinna, sem sé það, eins og hæstv. heilbrmrh, sagði hér áðan, að reyna að tryggja með breyttri löggjöf góða læknisþjónustu og alveg sérstaklega var þeim falið að finna leiðir til úrbóta í dreifbýlinu.

Þetta voru vissulega verkefni, sem voru þess virði að setja hæfa og færa menn í og þeir hefðu unnið mikið og þarft verk, ef þeir hefðu orkað því að leysa þennan vanda. En það sýnist mér, að þeim hafi því miður ekki tekizt. Það er vitanlega ekki úrræði til þess að leysa vandræði dreifbýlisins að leggja læknishéruð niður. Það er ekkert úrræði. Þar hafa þeir góðu menn þrátt fyrir mjög góðan vilja alveg strandað á verkefninu.

Það var sagt hér áðan að, að því er Vestfjarðakjördæmi snerti, þá kæmu þessar breytingar nokkuð hart niður. Það er sízt ofmælt, því að hér er lagt til að leggja niður Flateyjarhérað, Suðureyrarhérað og Djúpavíkurhérað, og nærri því fjórða er höggvið a.m.k., því að á 11, bls. í þessu þskj. segir: „Ástæða mætti þykja til að fella Súðavíkurhérað“ niður einnig, það fjórða. Frá því hafa þeir þó horfið að sinni og það á að fá að tóra. En undir Súðavíkurhérað heyra Súðavíkurhreppur, Ögurhreppur, Reykjarfjarðarhreppur, Nauteyrarhreppur, Snæfjallahreppur, Grunnavíkurhreppur og á pappírnum Sléttuhreppur með læknisaðsetur í Súðavík. Um allt þetta víðáttumikla læknishérað segja þeir vísu og góðu menn, að ástæða mætti þykja til að þurrka þetta læknishérað líka út, í viðbót við þau þrjú, sem þeir leggja til að lögð verði niður einnig. Það er vafalaust rétt, að það er heppilegast, að visst fjölmenni sé í læknishéraði. En hinu getur enginn kunnugur Íslendingur neitað, að það er ekki hægt að fullnægja því skilyrði, að 600–800 manns séu í læknishéraði hér á landi og byggðum er þannig hagað, að þó að byggð sé fámennari, þá verður hún samt að hafa læknisþjónustu. Ég sé ekki betur, en þessir menn séu á þeirri leið, sem fortakslaust eigi að fá reynslu af, áður en till. eru gerðar um að leggja læknishéruð niður. Og það er það, sem þeir leggja til, að á slíkum stöðum, þar sem torvelt hefur verið að fá lækna, þá séu veitt margvísleg fríðindi, fyrst og fremst í launum og í annan stað á þann hátt að meta þeirra þjónustutíma með öðrum hætti, en annars staðar, veita þar ívilnun og á annan hátt eru þessar till., sem þarna eru gerðar ágætar, en þær átti að reyna í framkvæmd, áður en nokkur tók í mál að leggja viðkomandi læknishéruð niður.

Ég skal aðeins skýra hv. þd, frá því, að hreppstjórinn í Suðureyrarhreppi, Sturla Jónsson, hringdi til mín í gærkvöld og var mikið niðri fyrir. Hann hafði þá hlustað á ríkisútvarpið í gærkvöld, þar sem verið var að gera grein fyrir þessu stjórnarfrv. og hann sagði: Það hefur slegið óhug á alla þorpsbúa við að heyra, að það ætti að leggja þetta læknishérað niður.

Í fyrsta lagi er nú þannig háttað í Suðureyrarhéraði, að héraðið er innilokað af háum fjöllum hálft árið og mjög torveldar samgöngur við staðinn. Í annan stað er þetta vaxandi og þróttmikið sjávarþorp með núna rétt innan við 500 íbúa. 484 íbúa, þegar n. tekur upp sínar íbúatölur. Og að vetrinum, einmitt þegar plássið er innilokað, þá er þar fjöldi aðkomufólks í þjónustu við hina þróttmiklu útgerð, sem þarna er rekin. Þá er enginn vafi á því, að það eru yfir 600 manns á Suðureyri að vetrinum. Jú, núna er reynslan fengin af því og gömul reynsla einnig, hvernig það gengur, þó að samvizkusamur læknir sitji á Flateyri og reyni að þjóna Suðureyrarhéraði. Jú, hann kemur þar oftast einu sinni í viku, ef tíð leyfir, og þá þyrpist fólk í Suðureyrarkauptúni í kringum hann, bíður daglangt sumt, kemst ekki að á þeim degi, bíður langt fram eftir næsta degi til þess að komast að hjá lækninum. Þetta er engin þjónusta. Það er miklu hreinlegra að segja Súgfirðingum: Þetta þorp verður að leggjast niður. Það er of fámennt, til þess að þar sé hægt að veita þá þjóðfélagsþjónustu, sem veita verður þó, og það verður að flytja allt fólkið í burtu. — Enda er enginn vafi á því að bara boðskapurinn um það, að eigi að leggja Suðureyrarlæknishérað niður, getur orðið til þess að losa um fjölda fjölskyldna þaðan og þetta er þannig, óvitandi vafalaust, tilræði við sveitarfélögin.

Suðureyrarhérað er þannig landfræðilega sett, að það hefði tvímælalaust átt að heyra undir þann flokk læknishéraða, sem upp er talinn á bls. 12 á þessu þskj., en þar eru nefnd 20 læknishéruð, sem um er sagt, að telja verði örðugt eða ókleift sökum staðhátta að sameina þau um læknamiðstöðvar, og þess vegna verði þau hvert um sig að vera læknishérað. Þau eru afmörkuð þannig frá náttúrunnar hendi. Það er alveg eins með Suðureyri og Nes í Norðfirði, að þar eru fjöllin, sem umlykja staðinn og þjónustu verður að veita því fólki, sem innan þessara fjalla býr. Og flestir þessir staðir, sem þarna eru nefndir, 20 í röð, eru afmarkaðir þannig landfræðilega, að þar verður læknishéraðið að lúta landfræðilegum takmörkum.

Hreppstjórinn í Súgandafirði bað mig þess lengstra orða í gærkvöldi að færa þingmönnum þær óskir sínar og allra Súgfirðinga að, að því óráði yrði ekki horfið að leggja Suðureyrarlæknishérað niður og sérstaklega auðvitað bað hann þess, að það væri heitið á Vestfjarðaþingmenn að beita sér alvarlega gegn því, að þetta verði gert og ég trúi ekki öðru en að þeir verði við því kalli.

Það má segja, að fámennið í Flateyjarhreppi torveldi það mjög að hafa þar sérstakan lækni til þjónustu við það fólk, sem ekki er nema rúmt 100, 119 manns, þegar n. gerði athugun á mannfjölda í því héraði. En sannast að segja verðum við að gera okkur grein fyrir því um eyjabyggð á Íslandi, að það verður að taka sérstakt tillit til hennar og veita henni þjónustu með öðrum hætti en t.d. fólkinu á Suðurlandsundirlendinu. Þar verður að miða við aðrar tölur íbúa, áður en tekið er í mál að synja þessu fólki, sem þarna býr, um nauðsynlega þjóðfélagsþjónustu, svo að hér duga ekki tölur einar. Það væri blindingi, sem vildi miða eingöngu í þessum efnum við tölur. Eða Árneshreppur, ég tel að það sé algerlega óforsvaranlegt að leggja það læknishérað niður, þrátt fyrir að það sé fámennt og það verði bókstaflega að bjóða mönnum til þess að sitja þar sem læknir það álítleg kjör, að menn fáist til þess, a.m.k. um nokkurra ára skeið og stuðla þá heldur að því með þjóðfélagsaðgerðum, að skipt sé um á nokkurra ára bili, ef einangrunin er þessum mönnum svo þung í skauti fremur öðrum mönnum, að þeir geti ekki þar verið. Og vissulega hafa læknar vegna sinnar sérfræðiþekkingar og þarfar á að endurnýja þá þekkingu nokkra sérstöðu um það að veigra sér við að sitja í þessum fámennu héruðum, það játa ég. En það er mín sannfæring, að hér má þjóðfélagið einskis láta ófreistað til þess að fá læknisþjónustu einnig í hin fámennari héruð, ef þjóðfélagið hefur bókstaflega ekki tekið þá ákvörðun um það að leggja þessi byggðarlög í auðn. En það er stórt skref stigið í þá átt, ef ákveðið er af þjóðfélagsins hendi, að þar verði ekki læknisþjónusta veitt.

Ég vil víkja að fásinnu eins og þeirri, að það eigi að hugga Súgfirðinga með því að segja við þá: Það á að reyna hins vegar að útvega ykkur lækni hluta af árinu. Það á að fá aðstoðarlækni í héraðið hluta úr árinu. — Geta þeir fullyrt, að þeir geti útvegað aðstoðarlækni hluta úr árinu og þá hvern hluta ársins? Líklegt þætti mér, að það tækist kannske yfir sumarmánuðina. En þá geta Súgfirðingar miklu fremur bjargað sér. Þá geta þeir leitað læknis til Ísafjarðar, þá geta þeir leitað til Þingeyrarlæknis, þó að Flateyrarlæknishérað væri ekki skipað. En hvaða líkur eru til þess, að hægt sé að útvega aðstoðarlækni með aðstoðarlækniskjörum í Súgandafjarðarlæknishéraði vetrarmánuðina, þegar héraðið er innilokað? Ég verð að segja það, að þær líkur eru ákaflega litlar.

Ef gerður er svo samanburður á þessum 2 kauptúnum, sem eru þéttbýliskjarnarnir á þessum slóðum, Flateyrarkauptúni og Suðureyrarkauptúni, þá er það alveg auðséð mál, að það er kauptúnið, sem er að verða fjölmennara, sem á að verða svipt sínum lækni, Suðureyrarkauptún. Það er í örum vexti og það skakkar örfáum íbúum, að Suðureyrarkauptún sé ekki orðið fjölmennara en Flateyrarkauptún. En það er ekki hægt að leysa þessi mál á þessum stað með lækni annaðhvort á Flateyri eða Suðureyri. Það er leið, sem er útilokuð, af því að Suðureyri er einangruð hálft árið. Þess vegna verður að vera læknir á Flateyri og á Suðureyri einnig. Gamla skipanin var sú, að Suðureyri var hluti af Flateyrarlæknishéraði. En reynslan sýndi, að það var óviðunandi og óforsvaranlegt. Þá var stofnað læknishérað á Suðureyri 1957 og það segja Súgfirðingar, að hafi verið sú mesta öryggisbót, sem þeir hafi nokkurn tíma orðið aðnjótandi í þjóðfélaginu. En nú á sá draumur líka að verða búinn. Nú á að leggja þetta læknishérað niður.

Ég segi að lokum eins og hv. 3. þm. Vestf.: Ég ber fram hin hörðustu mótmæli gegn því, að Suðureyrarlæknishérað verði lagt niður og raunar einnig, að Árneshreppur verði ekki læknishérað áfram. Um Flateyjarlæknishérað er erfiðast að hafa uppi mótmæli, fámennið er þar slíkt, og yrði þá að gefa íbúunum valfrelsi um það, hvort þeir sæktu lækni til Reykhólahéraðs eða Stykkishólms. Geri ég ráð fyrir, að engir þm. mundu beita sér gegn því, að þeir ættu þess kost. En hitt verð ég að segja, að það hryggir mig, að það skuli hafa svo til tekizt hjá þessum ágætu mönnum, að þeir skyldu setja það svart á hvítt, setja þá till. fram í stjórnarfrv.-formi að leggja þetta unga læknishérað niður í hraðvaxandi, þróttmiklu plássi, sem hefur alveg sérstaklega landfræðilega aðstöðu, þannig að því verður ekki veitt læknisþjónusta utan að frá hálft árið.