09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

138. mál, læknaskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Fyrst út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan, þegar hann talaði um nauðsyn þess, að læknastúdentar fengju strax frá upphafi það, sem hann kallaði námslaun. Hæstv. menntmrh. svaraði því raunar að meginefni til. Auðvitað skiptir ekki öllu máli, hverju nafni námsstyrkir eru kallaðir. Hitt er staðreynd, að með námsstyrkjum, með námslánum, með ókeypis kennslu við háskólann er hér greitt betur fyrir námsmönnum, en í flestum öðrum löndum. Það hygg ég, að hlutlaus rannsókn muni ótvírætt leiða í ljós. En auk þess vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel það langt frá því að vera nokkurt böl fyrir námsmenn og þar með stúdenta, þó að þeir hafi að sumri til þurft að vinna fyrir sér, eins og kallað er. Ég tel það þvert á móti mjög mikilvægan þátt í uppeldi íslenzkra menntamanna, að þeir, sem hér á landi hafa lokið námi, hafa yfirleitt unnið að sumri til innan um venjulega verkamenn eða bændur. Og þetta á mikinn þátt í farsælli framþróun okkar þjóðfélags og ég mundi telja það mikinn galla á okkar menntun, ef þessi háttur hyrfi úr henni og það sízt vera til góðs, heldur beinlínis til afturfarar. Ég veit, að á meginlandi Evrópu, svo að ekki sé talað um Bretland, þekktist þetta ekki áður fyrr, að stúdentar ynnu eins og venjulegt fólk. Þeir voru eins konar yfirstétt, sem hafði lítil kynni af lífskjörum alls almennings. Hér á landi hefur þessi háttur ekki tíðkazt, a.m.k. ekki um þá, sem stundað hafa nám á Íslandi. Um þá, sem orðið hafa að leita lærdóms erlendis, horfir þetta öðruvísi við, einkum áður og raunar enn, bæði vegna kostnaðar við ferðalög og vegna þess, að háskólafrí eru þar styttri og með öðrum hætti, en hér á landi tíðkast. En ég mundi telja það, eins og ég segi, mjög miður farið, ef það hyrfi úr sögunni, að námsmenn ynnu þá almennu vinnu, sem til fellur hér að sumarlagi. Og ég ætla það ekki fjarri lagi, að með því að leggja stund á slíka vinnu og með þeim styrkjum og lánum, sem veitt eru og annarri fyrirgreiðslu, sem ekki er ofraun aðstandendum stúdenta, sé það yfirleitt svo, að þeir geti komizt vandræðalaust af. Þess vegna er ég ekki hv. 3. þm. Reykv. sammála um, að slíkt námslaunakerfi, sem hann talaði um, sé mest aðkallandi í þessum efnum. En ég vek þá einnig athygli á því, að hann gerði ráð fyrir, að þeir, sem slíkra námslauna nytu, skuldbyndu sig beinlínis til þess að vinna hjá ríkinu og er þá ekki sýnt, hvort allir mundu una þeirri skuldbindingu, þegar til lengdar léti. Ég vék raunar nokkuð að þessari sömu hugsun í orðum þeim, sem ég mælti hér í gær, en ætlaðist þó ekki til, að jafnrík skuldbinding yrði lögð stúdentum á herðar og hv. 3. þm. Reykv. nú talar um. En við skulum þá einnig muna, að það er rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að það er frekar orðaleikur heldur en efnismunur, hvort styrkir eru kallaðir námslaun eða styrkir, og það er óhagganlegt, að íslenzkir stúdentar njóta nú yfirleitt meiri fyrirgreiðslu, en víðast hvar er tíðkanlegt um sams konar menn og mjög vafasamt, að það námslaunakerfi, sem hv. þm. talaði um, yrði þeim til heilla eða til þess að efla þá til að inna af höndum þau störf, sem þeim eru ætluð í þjóðfélaginu, eftir að þeir hafa lokið sínu námi.

Varðandi ummæli hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. e., má auðvitað endalaust deila um, hvort sú n., sem skipuð var til samningar þessa frv. hafi einmitt verið skipuð .á hinn rétta hátt. Hún er skipuð sérfræðingum án tillits til stjórnmálaskoðana þeirra. En ég vil þó benda á, að sú aðfinning, að þar hefði skort næga þekkingu á aðstæðum þeirra, sem við erfiðust skilyrði eiga að búa um læknisþjónustu, fær ekki staðizt, því að einn nm. var einmitt Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri í félmrn., maður, sem áratugum saman gegndi sýslumannsembætti í Norður-Múlasýslu, einu því héraði, sem hér hefur sérstaklega verið gert að umræðuefni, maður, sem er nákunnugur ekki síður en hv. 2. þm. Austf. aðstæðum öllum í því læknishéraði, sem sá þm. bar sérstaklega fyrir brjósti og fann að, að leggja ætti niður samkv. þessu frv., sem vissulega er þó ofmælt, eins og ég sýndi fram á í orðum mínum í gær. Við nefndarskipunina hefur einmitt þess verið gætt, að tekið væri tillit til og fyrir hendi í n. þekking á aðstæðum þeirra, sem erfiðastar aðstæður hafa í þessum efnum.

Þá verð ég að segja, að ég varð nokkuð undrandi yfir ummælum hv. 11. þm. Reykv. hér áðan. Hann spurði sérstaklega, hvað liði ljósmæðralagafrv., sem lýst hefði verið á Alþ. í fyrra að mundi verða lagt fyrir þetta hv. Alþ., sem nú situr. Það má segja, að eigi spyrji þm. af því, að hann viti eigi. Hann veit ofurvel, að hæstv. heilbrmrh, er fjarstaddur í embættiserindum. Ég spurði um þetta frv. áðan og var þá sagt, að hv. þm. hefði spurt sömu spurningar í morgun og verið tjáð, að málið væri í höndum ráðuneytisstjórans í dómsmrn. og heilbrmrn., sem einmitt er fjarstaddur. Þetta vissi hv. þm. hvort tveggja og var því óþarft af honum að spyrja.

Þá lýsti hann því, að það mundi með staðaruppbót vera hægt að ráða bót á hjúkrunarkvennaskorti úti um land, en flutti siðan nokkuð langa tölu einmitt til að sýna fram á, að staðaruppbót mundi þar enga bót á ráða, vegna þess að ekki er um að ræða, að það skorti sérstaklega hjúkrunarkonur á tilteknum stöðum úti á landi. Þær eru sums staðar hlutfallslega fleiri þar miðað við þarfir samkv. því, sem hann sjálfur upplýsti, heldur en hér í Reykjavík. Þar er skortur á konum í þessari stétt og vitanlega verður ekki bætt úr þeim skorti með staðaruppbót á tilteknum stöðum. Það verða þá einungis sköpuð vandræði á öðrum stað, ef manneskja er yfirborguð til þess að koma á hinn.

En furðulegast af öllu var þó, þegar hv. þm. sagði, að hjúkrunarkonur hefðu nú hundruðum saman eftir áramótin skrifað undir áskorun um byggingu hjúkrunarkvennaskóla og þannig yrði að reka þessi má áfram með svipum, eins og hann sagði. Það er að vísu rétt, að nú eftir áramótin barst ríkisstj. í hendur plagg frá hjúkrunarkonum, þar sem samþykkt er að skora á hæstv. ríkisstj. að greiða fyrir byggingu Hjúkrunarskóla Íslands, svo að henni verði lokið hið bráðasta. Eftir plagginu sjálfu er nú hins vegar svo að sjá, að þessi samþykkt hafi verið gerð hinn 11. ágúst 1964 og okkur undraði áhugi forustukvenna, þegar við fengum plaggið í hendur einhvern tíma í febrúar, að það skyldi hafa tekið allan tímann frá því í ágúst þangað til í febrúar að skjóta því upp í stjórnarráð. Nú upplýsir hv. þm., að þetta plagg hafi fyrst verið undirritað eftir áramótin. En svipuhöggin, sem þurfti að greiða og áhrifamátt þeirra má sjá af því, að í 20. gr. fjárl. eru ætlaðar undir XIII. lið 20. gr., 11. undirlið, 7 millj. kr. til byggingar hjúkrunarskóla, þannig að ríkisstj. og Alþ. voru þegar áður, en þetta plagg var undirritað, búin að gera ráðstafanir til þess bæði að afla fjár og gera annað, sem þurfti, til þess að í þessa byggingu yrði ráðizt. Það mun vera rétt, að lánaheimild, sem var fyrir hendi í fyrri fjárl., var ekki beitt á síðasta ári, af því að þá var málið ekki nógu undirbúið af hálfu stjórnar skólans. Látum það eiga sig. En hitt er óhagganlegt, að áður en þessi undirskriftasöfnun var hafin, sem hv. þm. nú upplýsir að hann á einhvern hátt er sérstaklega kunnugur, var búið að gera ráðstafanir til þess, að þessi skólabygging yrði hafin og henni haldið áfram með öllum mögulegum hraða, þangað til henni lyki. Á hitt má svo einnig minna í þessu sambandi, að til fárra skóla hefur á seinni árum verið varið meira fé en einmitt til hjúkrunarkvennaskólans á landsspítalalóðinni, enda sjá það allir, sem þar fara um, að þar er fyrir hendi mjög stór og vegleg bygging. Ástæðan til þess, að hún hefur hins vegar komið að minni notum en ella, er sú, að forstöðufólk stofnunarinnar taldi ráðlegra og varði til þess of fjár, að þarna væri um algeran heimavistarskóla að ræða, þannig að meginhluti húsrýmis fer undir heimavist, en ekki sjálfar skólastofurnar. Ég þori að fullyrða, að ef með þennan skóla hefði verið farið á svipaðan hátt og aðra skóla hér í Reykjavík, fyrst og fremst hugsað um skólastofurnar og aðrar slíkar aðstæður, hefði hjúkrunarkvennaskólinn fyllilega nægt enn í dag. Það er sú ákvörðun forstöðumanna stofnunarinnar að hafa þetta heimavistarskóla, sem hefur gert að verkum, að skólinn varð of lítill fyrr en flesta grunaði og menn áttuðu sig á og nú þarf enn að verja of fjár í þessu skyni. Ég hef enga þekkingu til þess að dæma um réttmæti þess, að allir hjúkrunarnemar eigi að vera í heimavist í sínum skóla. Ég veit hins vegar, að það er einstætt skilyrði um skóla hér í Reykjavík, að sá háttur sé á og ég hef einnig lesið ádeilur á þá aðferð frá aðila, sem mér skilst að telji sig hafa sérþekkingu í þeim efnum. Það er atriði, sem ég skal ekki blanda mér í. Hitt stendur óhagganlegt, að í þessu skyni hafa verið gerðar þær ráðstafanir, sem stjórnvöld á sínum tíma töldu fullnægjandi. Og nú enn var búið, áður en þetta svipuhögg var reitt, sem hv, þm. talaði hér áðan um, af hálfu ríkisstj. og Alþ. að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að skólabyggingunni yrði haldið áfram og þess vegna voru þau ummæli, sem hér voru viðhöfð, vægast sagt mjög óviðeigandi.