11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

138. mál, læknaskipunarlög

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi, að óþarft hefði verið og hláleg vinnubrögð hjá nokkrum hundruðum hjúkrunarkvenna að senda áskorun til ríkisstj. um að hraða byggingu nýs hjúkrunarskóla. Sagði hæstv. ráðh., að þær hefðu vitað, að búið væri að leysa málið og samþykkja 7 millj. kr. fjárveitingu á þessa árs fjárlögum til byggingar skólans og væru því einkennileg vinnubrögð hjá þessari stétt að senda slíka áskorun og í mesta máta óviðeigandi, að mér skildist, af mér að vitna til þeirrar áskorunar. Mér sýnist hins vegar ekkert einkennilegt við það, að þessi áskorun væri send, þó að vitað væri um fjárveitinguna og þau skref, sem hafa verið stigin í þessu máli. Ég vil benda hæstv. forsrh. á, að það hefur áður komið fyrir, að ákveðið hafi verið að reisa stórbyggingar fyrir tilteknar ríkisstofnanir og veitt til þess fé í fjárlögum og það árum saman og samt hefur ekki verið hafizt handa um framkvæmdir. Ég bendi á ákvörðun um byggingu stjórnarráðshúss, sem ákveðin var 1954 og veitt hefur verið fé í fjárlögum til alla tíð síðan og ekki hef ég orðið var við það, að framkvæmdir væru hafnar við þá byggingu. Ég bendi á tollstöð, sem ákveðið var fyrir mörgum árum að reisa. Til þeirrar byggingar hefur árum saman verið tekið sérstakt gjald af öllum innflutningi og mun byggingarsjóður nú nema yfir 30 millj. kr., samt eru framkvæmdir ekki hafnar. Það er matsatriði, hvenær á að hefjast handa um þessar framkvæmdir og ég vil alls ekki með þessum orðum ýta neitt á eftir þessum framkvæmdum, vil einungis sýna fram á, að það getur verið ástæða til að ýta á eftir málum, þótt búið sé að samþykkja fjárveitingar.

Í fjárlögum 1965 eru veittar 7 millj. kr. til byggingar hjúkrunarskóla og á þetta lagði hæstv. forsrh. áherzlu. Í 22. gr. fjárlaga 1965 er einnig heimild til þess að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum, sem fé er veitt til í fjárlögum 1965. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Er óhætt að treysta því, að fjárveiting á þessum lið, 7 millj. kr., verði notuð að fullu og óskert á árinu 1965? Raunar ætti varla að þurfa að spyrja að þessu eftir ummæli hæstv. forsrh. hér í fyrradag, en þetta er þó atriði, sem ég og vafalaust margir fleiri gjarnan vildu fá að vita.

Út af endurskoðun ljósmæðralaga sagðist hæstv. forsrh. hafa fengið sömu svör í dómsmrn. og ég hafði fengið sama dag, að málið væri hjá ráðuneytisstjóranum. Það er ekki tiltökumál, þótt hæstv. ráðh. geti ekki svarað fyrirspurn minni, þegar hann hefur ekki upplýsingar í höndum frá sínum starfsmönnum. Um það gat ég hins vegar ekki vitað, hvað ríkisstj. hefði ákveðið í þessu máli fyrir fram, ég vissi aðeins þau svör, sem ég fékk hjá starfsmönnum í dómsmrn., sem vissu ekki á hvaða stigi málið væri og var það eðlilegt, þar sem þeirra yfirmaður var ekki við og hæstv. heilbrmrh. ekki heldur. Ég vildi hins vegar mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann biðji heilbrmrh. að veita upplýsingar um það hér í hv. d., þegar hann kemur heim, hvenær vænta megi, að frv. til nýrra ljósmæðralaga verði lagt fyrir Alþingi.

Ég skil vel sárindi hv. 2. landsk. þm. og mun ekki svara honum miklu, vil aðeins leiðrétta það, sem hann sagði, að ekki væru til nægilega margar hjúkrunarkonur í landinu. Þessu er ekki þannig varið. Það er mikill fjöldi lærðra hjúkrunarkvenna til og miklu fleiri þeirra mundu vafalaust fást til starfa, ef þeim væru greidd sómasamleg launakjör. – Ég skal svo ekki tefja þessar umræður frekar.