03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

179. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. með shlj. atkv. hv. dm. og samkv. einróma meðmælum hv. fjhn. d. Efni frv. er það, að í því felst heimild fyrir ríkisstj. til þess að hækka hlutdeild sína í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 111/4 millj, dollara í 15 millj. dollara.

Svo sem kunnugt er, hefur Ísland verið aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá stofnun hans. En hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er m.a. fólgið í því að aðstoða aðildarríki, sem eiga í tímabundnum greiðsluörðugleikum, með því að veita þeim yfirdrátt með mjög hagkvæmum kjörum. En yfirdráttarheimild hvers aðildarríkis stendur í vissu hlutfalli við hlutdeild aðildarríkisins í stofnfé sjóðsins. Ísland hefur þegar notið mjög verulegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varðandi yfirdrátt, þegar það hefur þurft á honum að halda.

Á síðasta aðalfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem haldinn var í Tokyó á s.l. hausti, var samþ. almenn hækkun á hlutdeild aðildarríkjanna um 25%, þ.e.a.s. gefa aðildarríkjunum kost á að auka hlutdeild sína í sjóðnum um 1/4 og færi þá auðvitað réttur aðildarríkjanna til þess að njóta fyrirgreiðslu sjóðsins eftir því, þ.e. hækkaði í sama hlutfalli.

Ríkisstj. hefur talið rétt, að Ísland hækkaði aðild sína í sjóðnum til þess að eiga þar aukinn rétt, enda má búast við því, að næstum öll aðildarríkin geri slíkt hið sama. Samkv. l. frá 1961 um Seðlabanka Íslands var Seðlabankinn gerður fjárhagslegur aðili fyrir hönd Íslands að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Samkv. þeim l. mundi því Seðlabankinn verða að leggja fram það fé, sem aukning í hlutdeild Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mundi gera nauðsynlega, en þær reglur gilda, að hækkun hlutdeildarinnar þarf að greiðast að aðeins 1/4, hitt verður fært Seðlabankanum til skuldar í reikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En sem sagt, þennan 1/4 aukningarinnar, sem Ísland á að greiða, mundi Seðlabankinn samkv. l. um hann inna af hendi, þannig að ríkið sjálft þarf enga greiðslu að inna af hendi.

Ég vona, að hv. Nd. sjái sér einnig fært, eins og hv. Ed., að afgreiða frv. nú á þessu þingi, þótt skammt sé orðið eftir af þingtímanum, og það takist að afgreiða málið samhljóða hér í þessari hv. d. eins og í Ed. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjhn.