16.11.1964
Neðri deild: 15. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

6. mál, þingsköp Alþingis

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er um 2. umr. málsins að ræða, og gæti því komið til greina að koma enn fram einni breyt. við frv., ef samkomulag gæti orðið um það, en mér sýnist, að það sé svo eðlilegt að gera þá breyt., að það sé ótrúlegt, að ekki ætti að vera hægt að fá samstöðu um það atriði.

Frv. gerir aðeins ráð fyrir breyt. á ákvæðum viðvíkjandi fjölda manna í n. í hvorri þingdeild um sig. En hins vegar er ekki fjallað að neinu leyti um n. í Sþ. En eftir að sú breyt., ef að l. yrði, sem í þessu frv. felst, væri samþ., þá væru fundarsköp Alþingis þannig, að áfram væri um að ræða eina 5 manna n., fastákveðna n. í þinginu, en það er kjörbréfanefnd í Sþ. Ég vil mega skjóta því til þeirrar n., sem hefur haft með málið að gera, hvort ekki gæti orðið um það samkomulag að bæta því ákvæði við í þetta frv., að í kjörbréfanefnd Sþ. skuli vera einnig um 7 menn að ræða, en ekki 5, eins og bundið er í þingsköpunum. Mér finnst þetta vera aðeins til samræmis við önnur ákvæði þarna og sízt minni ástæða til þess, að þarna væri um 7 manna n. að ræða í Sþ., heldur en í hvorri þingdeild um sig. — Ég vil aðeins skjóta þessu til n., ef hún vildi á milli 2. og 3. umr. taka þetta til athugunar.