10.12.1964
Efri deild: 29. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

6. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. gerði réttilega grein fyrir, höfum við tveir nm., ég og hv. 1. þm. Vestf., ekki skrifað undir þetta nál. Ég tel rétt að gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna við höfum ekki skrifað undir þetta nál. Ástæðan til þess er í stuttu máli sú, að sú fjölgun nm., sem í frv. þessu felst, er byggð á samkomulagi utan þings, gerðu á milli stjórnarflokkanna og Sósfl. Þeir hafa haldið því mjög á lofti, einkanlega stjórnarflokkarnir, að Framsfl. hafi þar hvergi nærri komið, hvorki fengið það né heldur þess verið þörf.

Að svo vöxnu máli höfum við talið það eðlilegast að láta þá þríflokka, sem um málið hafa samið, Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl., eina um það að koma málinu í höfn. Við teljum, að bezt fari á því eftir atvikum, að stjórnarflokkarnir einir hafi heiðurinn af því að koma á þeirri fjölgun í fastanefndum, sem hér skal lögfest. Þeir bera á því ábyrgðina, og þá er rétt, að þeir beri líka af því heiðurinn. Heiður þeim, sem heiður ber. Við viljum á hinn bóginn ekki bregða sérstaklega fæti fyrir það, að Alþb. fái fulltrúa í föstum þingnefndum, einkanlega þar sem því ber að öllu óbreyttu, miðað við flokkahlutföll í þinginu, sæti í 5 manna nefndum, en það sæti hafa stjórnarflokkarnir sölsað undir sig, svo sem kunnugt er. Við teljum þess vegna rétt, eins og málið er vaxið, að láta það afskiptalaust.

Hitt er svo annað mál, sem ég get ekki stillt mig um að benda á í þessu sambandi, að þeim háu herrum, hæstv. ráðh., gengur illa að samræma guðspjöll sín. Þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir þessu frv. á dögunum, lét hann að því liggja og tók það fram, að það væri lýðræðisleg og þingræðisleg nauðsyn, til þess að allir þingflokkar gætu átt sæti í þingnefndum, að gera þessa breytingu. Það hefði sýnt sig í fyrra, að nauðsynlegt væri að fara inn á þá braut. .En auðvitað eru 7 manna nefndir, — því skýt ég nú svona inn á milli sviga, — engin allsherjarlausn í því tilfelli, því að ef hugsunina á að halda áfram til enda, þá þarf kannske síðar meir og fljótlega — hver veit? — að fjölga nefndarmönnum upp í 9, ef það á að vera tryggt undir öllum kringumstæðum, að allir þingflokkar hafi fulltrúa í fastanefndum. En látum það liggja á milli hluta. En á sama tíma og hæstv. forsrh. flutti hinn fagra boðskap í framangreinda átt, eða nánar tiltekið fyrir einum 2—3 dögum, stóð hæstv. félmrh. hér í pontunni og flutti um það yfirlýsingu, að utanrmn. væri ekki starfhæf og hefði ekki verið starfhæf lengi af ástæðum, sem öllum væru kunnar, og það fór ekkert á milli mála, hvað hæstv. félmrh. átti við, þegar hann lét þessi orð falla. Hann átti við það, að vegna þess að Sósfl. hefur átt og á sæti í utanrmn., væri hún ekki starfhæf. Og ef litið er lengra aftur í tímann og flett upp í Alþýðublaðinu 29. júní 1963, þá skrifaði hæstv. viðskmrh. grein í blað það, þar sem hann gerði grein fyrir kosningaúrslitum og rakti það af miklum fjálgleik og með stórum orðum, að hin örlagaríkasta afleiðing síðustu alþingiskosninga og einn gleðilegasti árangur þeirra væri sá, að Alþb. ætti þess ekki lengur kost að hafa fulltrúa í 5 manna nefndum, og hann var hátíðlegur, hæstv. viðskmrh., og hafði að fyrirsögn kunn orð: „Aldan er hnigin.“ Já, þeim ber ekki vel saman, þessum hæstv. ráðh., og ég get varla ætlazt til þess, að jafnhreinskilinn og heiðarlegur málflutningsmaður og hv. frsm. meiri hl. er ráði við það að koma þessum skoðunum saman í eina heild, en fróðlegt væri það, ef hann vildi reyna það hér á eftir. En sem sagt, á sama tíma og hæstv. forsrh. segir, að það sé nauðsynlegt að fjölga í nefndum, til þess að sósíalistar fái þar sæti, þá segir hæstv. félmrh., að ákveðin nefnd þingsins sé ekki starfhæf, af því að Sósfl. á þar sæti. Ja, það væri synd að segja, að það færi mikið fyrir því, að það væri „system í galskaben“ á stjórnarheimilinu frekar en fyrri daginn.

Svo skal ég að lokum bara bæta því við sem minni persónulegu skoðun, að ég álít, að þessi breyting að fjölga í nefndum þingsins úr 5 upp í 7 miði að því að gera þingstörfin og nefndastörfín öll þunglamalegri og þyngri í vöfum, og ég álít, að þessi breyting horfi síður en svo til bóta í starfsháttum Alþingis. En eins og ég áðan sagði, þrátt fyrir það viljum við ekki, eins og málið allt er vaxið, bregða fæti fyrir það og munum þess vegna ekki greiða atkv. um það.