10.12.1964
Efri deild: 29. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

6. mál, þingsköp Alþingis

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði hér grein fyrir afstöðu Framsfl. í þessu máli. Það eru einkum tvö. atriði í ræðu hans, sem mig langaði aðeins að drepa á.

Hann fullyrti það m.a., að þetta frv. væri til komið fyrir samkomulag annars vegar milli ríkisstj. eða stjórnarflokkanna og hins vegar milli Sósfl. Þetta kemur mér alveg á óvart. Ég hafði aldrei heyrt neitt um þetta, og nú langar mig til þess að spyrja þennan hv. þm.: Getur hann staðfest þessa fullyrðingu sína, eða er þetta bara gripið úr lausu lofti, meiri og minni getgátur, sem ganga manna á meðal?

Annað atriði vildi ég aðeins gera aths. við. Hann sagði það, að Sósfl. ætti fulltrúa í utanrmn. Þetta vil ég ekki telja nákvæmt hjá þeim ágæta manni að orða þetta á þessa leið. Sannleikurinn er sá, að Sósfl. á engan fulltrúa á Alþingi. Það er Alþb. sem kosningaflokkur í samræmi við landslög, sem á fulltrúa á Alþingi, og það er um fulltrúa þess að ræða í þessum tilfellum, en ekki fulltrúa Sósfl.

Ég hirði litt um rök Framsfl. fyrir þessari hlutlausu afstöðu sinni í málinu. En þó gat hv. þm. þess, í lok ræðu sinnar, að Framsfl. teldi ekki verða úr neinu bætt um störf þingsins, þó að þessi breyting yrði á gerð. Þetta er skoðun, sem er fyllilega frambærileg, hvort sem hún er rétt eða ekki. Annars var það ætlun mín að spyrja hv. þm. nánar um rök Framsfl. fyrir þessari hlutlausu og allt að því neikvæðu afstöðu, því að það er í sjálfu sér ekki ástæða til fyrir Framsfl. að gerast hlutlaus í þessu máli frekar en öðrum bara af því, að það er til komið með einhverjum vissum hætti. Vitanlega geta framsóknarmenn eins og við aðrir hér á þingi ekki verið þekktir fyrir annað en að taka afstöðu til mála eftir málefnum, en ekki eftir því, hver ber þau fram eða hvernig þau eru fram komin.