11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

182. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Við höfum fengið nýjan fjmrh. Það er sagt, að nýir siðir komi með nýjum herrum og það á hér við. Það sést á brtt. hans á þskj. 748, þeirri, sem hann var að lýsa hér áðan. Það er því miður litill tími til að átta sig á mál hans og er það þó þess vert, að það væri athugað, því að þetta er hreint ekkert einfalt mál. En það er eins með þetta og önnur mál, sem hæstv. stjórn dembir inn í þingið á síðasta eða næst síðasta degi þess. Þessa till. fengum við ekki að sjá fyrr en nú í dag, þegar við komum hér á þingfund og það er víst meiningin að afgreiða hana nú í sambandi við þetta frv., er hér liggur fyrir.

Það væri ástæða til að spyrja margs í sambandi við þessa till. Hvernig verður framkvæmd hennar? Hvernig er hún hugsuð? Og hverjar verða afleiðingarnar af því, ef þessi till . verður samþ.? Ég treysti mér ekki til þess að sjá þær fyrir nú þegar, en þær geta orðið ýmsar og sumar að ég hygg varhugaverðar. Menn eiga, að mér skilst, samkv. till. að fá frest til þess að bæta fyrir gamlar syndir, möguleika til að fá aflausn, eins og hjá páfanum í Róm fyrr á öldum.

Rannsóknardeildin, sem sett var á stofn í fyrra í sambandi við ríkisskattstjóraembættið, mun þegar hafa rannsakað framtöl manna, ekki veit ég, hve margra og hún mundi hafa orðið vör við undandrátt við skattaframtal, en heyrzt hefur, að málin séu enn óútkljáð.

Við skulum hugsa okkur tvo menn Pétur og Pál. Báðir eru sekir um það að hafa dregið tekjur og eignir undan við skattaframtal og við getum hugsað okkur, að rannsóknardeildin hafi þegar athugað mál Péturs og fundið sök hjá honum, en Páll hafi enn þá sloppið við heimsókn hennar og hann gæti komizt undir nýju ákvæðin, sem hæstv. fjmrh. vill lögfesta. Á þá Pétur að borga sekt samkv. gildandi lögum, en Páll að sleppa við slík? Ja, mér skilst eftir till., að það megi sleppa Páli við þetta, ef hann gefur sig nú fram og játar sína yfirsjón eða undandrátt, en Pétur, það er ekkert um það, að það megi sleppa honum við sekt.

Kemur þá ekki hæstv. fjmrh. ef til vill síðar til þingsins með beiðni um heimild til að fella niður sektargreiðslur manna, sem þegar eru uppvisir að brotum? Kemst hann ekki að þeirri niðurstöðu, ef hann íhugar málið betur, að þetta þurfi að gera til samræmis? Ég býst við, að hann gæti sagt, að það hafi verið tilviljunum háð, hvar rannsóknardeildin byrjaði sín störf. Það er bara tilviljun, að það var Pétur, sem varð fyrir barðinu á henni, en ekki Páll. Menn eiga að koma af sjálfsdáðum og gefa rétta skýrslu fyrir 1. marz 1966. Ef menn láta bíða til þess tíma, að fresturinn rennur út, að gefa sig fram, hefur þá rannsóknardeildin nokkuð að starfa við rannsóknir á skattaframtölum, á meðan fresturinn er að líða? Lætur hæstv. ráðh. eða ríkisskattstjóri ekki rannsóknarmennina bíða á meðan og sjá, hverjir gefi sig fram af fúsum vilja? Það sýnist mér nú trúlegast, til þess að menn geti notað sér þessa nýju reglu. Ætli yfirmenn þessara mála hugsi ekki sem svo, að ástæðulaust sé að angra menn með rannsóknum, fyrr en séð er, hvort þeir koma og kaupa syndakvittun rétt áður en fresturinn rennur út? Ef þeim sýnist þetta eðlileg málsmeðferð, þá mun starfssvið rannsóknarmannanna þrengjast mjög um sinn, en auðvitað halda þeir áfram að taka laun sín úr ríkisfjárhirzlunni hjá hæstv, ráðh.

Hann hefur trúlega nóg fé í ríkissjóði til að borga þetta. Hann var að vísu að segja okkur, að það væri óuppgert enn þá, hvernig ríkisbúskapurinn kæmi út fyrir árið sem leið. En trúlega getur hann borgað þessum mönnum launin eins og öðrum. Hann ætlar líka að taka samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, 80% hærri tekjuskatt af lægstu skattskyldum tekjum en gert var 1960. Þetta eiga þeir að borga, sem telja rétt fram. Ríkissjóður á að borga kostnað af starfi rannsóknardeildarinnar. Þetta þýðir, sýnist mér, að þeir, sem telja rétt fram, eiga að borga þetta. Ég hefði nú talið réttara, að þeir brotlegu borguðu þennan kostnað með sektum samkv. ákvæðum laganna. Og hvernig er með vaxtagreiðslur af því fé, sem þeir hafa haft af ríkissjóði á undanförnum árum? Það er ekkert um það í till., að þeir eigi að borga vexti. Og ég minnist þess ekki, að það sé í gildandi skattalögum neitt um vaxtagreiðslur af sköttum, þó að greiðsla dragist. Það verður þá leiðrétt, ef þetta er misminni hjá mér.

Það voru svonefndar eldhúsdagsumræður hér í gærkvöld, fyrra kvöldið, sem þeim er útvarpað. Þar kom einn af hv. þm. stjórnarflokkanna á elleftu stundu og flutti ræðu. Það er hv. 9. landsk. þm. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi verið að tala þar um vasklega framgöngu stjórnarinnar í rannsóknum skattaframtala og látið í það skína, að nú mundu loks þeir brotlegu fá makleg málagjöld. Hann var heppinn, þessi hv. þm., að fá að tala fyrra kvöldið í hinum almennu umr., áður en till. hæstv. fjmrh. kom fram. Það hefði verið lakara fyrir hann að flytja þennan þátt í kvöld. Hann verður sjálfsagt með atkvgr. að taka aftur það, sem hann sagði landslýðnum í gærkvöld um góða framgöngu ríkisstj. í stríðinu við skattaundandráttarmenn, ef þessi till. hæstv. ráðh. verður samþ., svo að frv. þurfi að fara aftur til Ed. Hann verður aðeins að bíða um stund eftir því að fá að gera það, á meðan verið er að matbúa handa honum nýjan rétt, sem hæstv. fjmrh. ætlar að senda héðan til Ed. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. í þessu máli, hv. 1. landsk. þm., sagði líka áðan í framsöguræðu sinni, að menn gerðu sér miklar vonir um starf rannsóknardeildarinnar.

Fyrstu lögin um tekjuskatt og eignarskatt voru sett hér á landi árið 1921. Það voru að vísu til lög um tekjuskatt frá árinu 1877, en þau voru mjög í öðru formi og frábrugðin þeim skattalögum, sem hér hafa verið í gildi síðustu áratugina. Þessum lögum frá 1877 var breytt 3. okt. 1903 og enn var samþ. á þingi viðauki við þau í októbermánuði 1917, en þau voru afnumin með lögunum nýju 1921. Það er ástæða til að vekja athygli á einu ákvæði, sem var í skattalögunum frá 1917, sem voru um breytinguna á og viðauka við lögin frá 1877. Þar stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þyki skattanefnd ástæða til, getur hún krafizt þess, að framteljandi staðfesti framtal sitt með eiði eða drengskaparheiti fyrir dómi.“

Ég hef ekki rannsakað það, hvenær þetta var fellt úr lögum, en svona var þetta árið 1917. Þá þótti þeim rétt að setja þetta í lög, þeim sem þá áttu sæti á löggjafarsamkomunni. En hverjir voru það, sem stóðu að þessari lagasetningu árið 1921? Lögin voru gefin út hér í Reykjavík 27. júní 1921 og hétu lög um tekjuskatt og eignarskatt. Þau voru útgefin af konungi vorum Kristjáni X, sem þá var hér á ferð og undir þau ritaði með honum þáverandi fjmrh. Íslands, Magnús Guðmundsson. Ég ætla að lesa fyrir ykkur — með leyfi hæstv. forseta — upphaf 41. gr. þessara laga. Það er þannig:

„Nú skýrir einhver maður visvítandi rangt frá einhverju því, sem máli skiptir um tekjuskatt eða eignarskatt og skal hann þá sekur um allt að því tífalda skattupphæð þá, sem undan var dregin. Sektina skal þó aldrei miða við lengri tíma en 10 ár alls. Stjórnarráðið ákveður sektina, nema það eða sá seki óski, að málinu sé visað til dómstólanna.“

Þannig var ákveðið í þeim lögum, sem þáverandi fjmrh., Magnús Guðmundsson, gaf út ásamt konungi vorum. Í þeim lögum, sem nú gilda og í frv., sem hér liggur fyrir, eins og það kom frá Ed., eru ákvæði, sem eru svo að segja eins og þetta. Þannig er það í 7. gr. frv., en í henni er umorðun á 48. gr. skattalaganna og þar stendur svo í upphafi þeirrar gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú skýrir skattþegn af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt frá einhverju því, er máli skiptir um tekjuskatt hans eða eignarskatt og skal hann þá sekur um allt að því tífaldri skattupphæð þeirri, sem undan var dregin.“

Þetta er eins og það var í lögunum 1921.

Þetta mun hafa verið óbreytt í skattalögum alla tíð síðan. Og á þessum tíma hafa ákaflega margir menn gegnt starfi fjmrh., en eins og kunnugt er, þá er sá ráðh. yfirmaður skattamála. Í þeirri stöðu hafa verið menn úr þeim flokki, sem einu sinni hét Íhaldsflokkur og menn úr þeim flokki, sem nú nefnir sig Sjálfstæðisflokk og þar hafa verið líka menn úr Framsfl., en þetta ákvæði hefur haldizt óbreytt alla tíð. Ég vek athygli á því, að þessi sektarákvæði, sem þarna eru í lögum, eru ákaflega rúm. Það er allt að tíföld sú upphæð, sem undan var dregin. Ég er ekki kunnugur, hvernig þessu hefur verið beitt. Ég veit ekki um það, hvort nokkurn tíma hefur verið farið í hámark. Ég efast um það. Ég veit það ekki. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér það. En ákvæðin eru ákaflega rúm. Og þeir, sem fara með framkvæmd skattamála, hafa það í hendi sinni að ákveða sektir eftir þessum rúmu ákvæðum. Þeir hafa það í sinni hendi.

Hæstv. ráðh. talar um í ræðu sinni ofsóknaraðgerðir og óhæfilegar refsingar. Telur hann virkilega, að þessi ákvæði, sem eru svona rúm og teygjanleg: „allt að tífallt það, sem undan er dregið“, feli í sér nú allt í einu ofsóknaraðgerðir eða í sambandi við þessi ákvæði sé hægt að tala um óhæfilegar refsingar allt í einu nú árið 1965? Þetta er búið að vera í lögum, eins og ég benti á, síðan 1921. Menn hafa vitað eða átt að vita, hvað var í skattalögunum og hvað lá við, ef þeir fóru ekki eftir þeim. Það er því alveg út í hött að tala um ofsóknir eða óhæfilegar refsingar nú.

Ég get ekki fallizt á þessa till. hæstv. ráðh. Ég tel það ekki sæmilegt að slengja slíku máli inn á síðasta eða næstsíðasta degi þingsins. Ég tel ekki rétt að fella niður sektir, eins og þar er lagt til, að óathuguðu máli á síðasta degi þingsins.

Eins og ég gat um í upphafi þessara orða, þá höfum við nú fengið nýjan fjmrh. Það er kominn nýr Magnús í stól fjmrh. Sá er ekki Guðmundsson, heldur Jónsson og fyrsta verk hins nýja fjmrh. er að rífa niður það, sem nafni hans byggði fyrir 44 árum. Eftir að hafa lesið þessa till. hæstv. ráðh., held ég, að við hann megi segja: „Ill var þín fyrsta ganga.“