05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2265)

74. mál, einkasala ríkisins á tóbaki

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu heyrt það í sambandi við þetta mál, að auglýsingar á tóbaki hefðu ekki mikið að segja í sambandi við útbreiðslu þess. Ég vil þó benda á, að auglýsendur virðast telja það svara kostnaði að greiða stórfé fyrir auglýsingarnar og það sýnist mér benda ótvírætt í þá átt, að þeir telji það nokkurs virði. En hvað sem því líður, tel ég, að það sé augljóst, að það þurfi að taka upp harða baráttu gegn reykingum. Það liggja fyrir óyggjandi sannanir um skaðsemi þeirra. Og við þurfum m.a. að byggja þá baráttu upp á þann hátt að auka stórlega fræðslu um skaðsemi reykinga. Mér finnst það því óviðeigandi, að samtímis því, sem ég vil vænta þess, að dagblöð landsins taki upp baráttu í þessu efni, taki upp fræðslu um skaðsemi reykinganna, birtist í þeim samtímis auglýsingaflóð frá seljendum tóbaksins. Ég sé því ekkert athugavert við það, að við frábiðjum okkur auglýsingar á tóbaki, hvort svo sem það hefur meiri eða minni þýðingu í sambandi við útbreiðslu þess. En ég tel óviðeigandi, að við leyfum svo og svo mikla auglýsingaherferð í þeim efnum, þegar við hljótum að viðurkenna,að við verðum að hefja baráttu gegn reykingunum.