26.10.1964
Neðri deild: 6. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

7. mál, vernd barna og ungmenna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, áður en þetta mál fer lengra, að segja um það örfá orð, eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Að meginstofni er þetta frv. lagað alveg eftir núgildandi lögum um barnavernd, en hefur þó að geyma nokkrar breytingar og talsverð nýmæli, sem mér sýnist í fljótu bragði til bóta og a.m.k. eðlilegt að séu tekin upp í lögin.

Það er mjög ríkt einkenni á þessu frv. að gefa barnaverndarnefndarmönnum sem skýrust fyrirmæli um framkvæmd þeirra starfa, sem þeim eru aðallega falin. En hins vegar er þess auðvitað að gæta, að ógerningur er að hafa þessi fyrirmæli svo skýr og svo tæmandi, að það nái yfir öll þau tilvik og geti svarað öllum spurningum, sem gætu risið í sambandi við svona viðamikil og sérstaklega viðkvæm mál, eins og barnaverndarmál hljóta alltaf að vera. Þess vegna skiptir það alltaf höfuðmáli, án tillits til þess, hve margir eru í barnaverndarnefndum eða barnaverndarráði, að í barnaverndarnefndirnar veljist eingöngu vandað fólk og réttsýnt fólk, sem geri sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð, sem á því hvílir í starfi. Og án þess að um slíkt fólk sé að ræða, þá hygg ég, að lögin geti ekki náð tilgangi sínum.

Með frv. er gert ráð fyrir all miklu víðtækara verksviði barnaverndarnefnda, en áður var og jafnframt, að barnaverndarmálin hljóti meiri sérfræðiþjónustu, en verið hefur. Um þetta er auðvitað það að segja, að á öllu veltur um framkvæmdina. Það er ekki nóg að ætla barnaverndarnefndum víðtækara starfssvið í orði, heldur verður að tryggja, að þær séu þess umkomnar að rækja verkefni sín og þau eftirlits- og varnarstörf, sem á þeim hvíla. Og því aðeins mun ákvæðið um aukna sérfræðiþjónustu koma að haldi, að fyrir hendi séu nægilega margir sérfræðingar, sem geti annað því öllu, sem á þá er lagt að leysa úr. Það er vitað, að á þessu sviði er mikill mannaskortur, ekki aðeins hér í Reykjavik, heldur ekki síður annars staðar á landinu. Þess vegna er það brýn nauðsyn, eins og raunar er bent á í athugasemdum og álíti n., sem frv. samdi, að jafnframt því, sem lögfest verða ákvæði um víðtækara verksvið og vandaðri meðferð barnaverndarmála, þá verði unnið að því að fá fleiri sérfræðinga til starfa og mennta fleira fólk á þessu sviði, því að án þess má það teljast víst, að framkvæmd þessara ágætu og sjálfsögðu ákvæða verði gagnslítil.

Aðalatriðið er því að búa svo að barnaverndarnefndum, að þær geti framfylgt þeirri stefnu, sem boðuð er í frv.

Þá ætla ég aðeins að ræða hér lítillega um þann kafla, sem fjallar um vinnuvernd. En um það eru ákvæði í 39. gr. l. og einnig í því frv., sem hér liggur fyrir. Ég er sammála höfundum frv. um það, að nauðsynlegt er að hafa allskýr fyrirmæli um þessi efni í lögum eða reglugerðum, því að almenn afstaða þjóðarinnar til barnavinnu er síður en svo til fyrirmyndar og vil ég taka þar mjög eindregið undir þær skoðanir, sem fram komu hjá hv. 3. þm. Reykv. Það er tíðara hér, en í nokkru öðru menningarlandi, að börn séu látin vinna erfiðisvinnu á ýmiss konar vinnustöðum og oft við hinar óheppilegustu aðstæður fyrir börn á vaxtarskeiði. Okkur er jafnvel títt að meta þetta okkur mjög til gildis og höldum því fram, að það sé hollt og nauðsynlegt fyrir börn að vinna og það er vissulega rétt, að sú skylda hvílir á foreldrum og raunar á þjóðfélaginu að ætla börnum einhver önnur viðfangsefni, en skólanámið eitt.

Það er áreiðanlega mikilvægt uppeldisatriði, að börn venjist snemma á eða kynnist vinnu, kynnist af eigin raun helztu atvinnuháttum þjóðarinnar. En það er háskaleg stefna að ætla börnum að skila fullum vinnudegi og ekki aðeins það, heldur líka fullri eftirvinnu til jafns við hrausta og vinnusama karlmenn, eins og allt of mörg dæmi eru um hér á landi. Slík stefna getur ekki einvörðungu verið sprottin af áhuga á því að venja börn við vinnu og vekja áhuga þeirra á atvinnuháttum til lands og sjávar, heldur er þetta meira og minna blandað annarlegum sjónarmiðum, t.d. peningasjónarmiðum, sem ekkert eiga skylt við uppeldisgildi, nema síður sé og ekki sízt vegna þess, að það er ekkert eftirlit haft með því, hvernig börnin eyða þeim peningum, sem þau vinna sér inn. Þess vegna held ég, að þarna sé algerlega um neikvæð uppeldisáhrif að ræða. Auk þess er það svo, að það er síður en svo þroskavænlegt fyrir börn og unglinga, sem vart eru af bernskuskeiði, að láta þau þræla við einhæf verksmiðjustörf innilokuð í hitasvækju og hávaða frá morgni til kvölds allt liðlangt sumarið, en slíkt er ekki dæmalaust í okkar þjóðfélagi og er okkur satt að segja til margfaldrar skammar og ekki hins minnsta sóma.

Þess vegna held ég, að það væri til mikils gagns, ef ákvæði frv. um vinnuvernd barna kæmust í framkvæmd og hægt væri að opna augu manna fyrir því, að vinnuþrælkun á börnum er smán, sem aðrar þjóðir hafa fyrir áratugum — kannske hundruðum ára — lagt blátt bann við bæði í orði og á borði. Og farnast þessum þjóðum sízt verr en okkur í uppeldis- og heilbrigðismálum og um almenna afkomu.

En ég vil samt endurtaka, að þrátt fyrir þetta tel ég mikilvægt, að börnum sé ætlað að vinna eitthvað, því að hæfileg vinna er þeim holl og nytsamleg. En þá veltur á miklu, hver störfin eru og við hvaða skilyrði unnið er. Í því sambandi vil ég nefna það, að æskilegt væri, að skólastarf okkar gæti að sumrinu færzt út á nýtt svið, þar sem einmitt væri lögð áherzla á ýmiss konar verkkennslu. Eins hygg ég, að börnum sé það æði nytsamlegt að vera í sveit og ef til vill að vinna við annan smáatvinnurekstur, eftir því sem kraftarnir leyfa og þá undir handleiðslu góðra húsbænda. Hitt tel ég að sé forsmán, að pakka börnum inn í verksmiðjur og ætla þeim að starfa þar í mjög einhæfum verkum, kannske 10–12 klukkustundir á dag, eins og ég veit allt of mörg dæmi um. Það er því æskilegt, að þessi kafli laganna verði ekki bókstafurinn einn, heldur verði barnaverndarnefndunum gert mögulegt að fylgjast með í þessum málum og koma á nauðsynlegum úrbótum. En þar skiptir kannske mestu máli að breyta skólunum í það horf, að börn geti lært nytsamleg og holl verkleg störf undir handleiðslu ábyrgra manna. Að vísu er það stærra mál, en svo að barnaverndarnefndir sem slíkar geti komið þeirri skipun á, heldur er það vitanlega verkefni ríkisvaldsins og þá sérstaklega yfirstjórnar skólamálanna að vinna að slíkri þróun.

Í frv. er gert ráð fyrir nokkrum breytingum að því er varðar kvikmyndaeftirlit og væntanlega er það tilgangurinn að efla kvikmyndaeftirlitið og gera það virkara en það kann að vera nú. En í því sambandi vil ég leyfa mér að gera athugasemd á þessu stigi málsins og vænti þess, að n., sem kemur til með að fjalla um málið, taki það til athugunar, en þar á ég við það vandamál, sem skapazt hefur í sambandi víð sýningar kvikmynda í sjónvarpi. Á kvikmyndaeftirlitið að ná til sjónvarpsins?

Þannig háttar nú í okkar menningarmálum, að hæstv. ríkisstj. hefur af miklu ábyrgðarleysi heimilað erlendum hernaðaryfirvöldum að reka sjónvarp, sem nær til þúsunda íslenzkra barnaheimila. Sjónvarpsheimildin út af fyrir sig er nógu slæm. En í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr., er nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort hermannasjónvarpið í Keflavík, sem íslenzk börn horfa á í þúsundatali, sé undanþegið íslenzku kvikmyndaeftirliti. Ég veit ekki, hvort svo er og væri mjög æskilegt að fá það upplýst, því að það væri vitaskuld alger óhæfa ofan á hið fyrra, ef ameríska sjónvarpið fær óátalið að sýna kvikmyndir, sem innlendum kvikmyndasýnendum er bannað að sýna börnum. Ég tel því, að það sé í samræmi við þá stefnu frv. að hafa sem skýrust fyrirmæli um hvað eina, að það sé skýrt tekið fram í lögum, að kvikmyndaeftirlitið nái einnig til sjónvarpskvikmynda, ekki aðeins kvikmynda, sem íslenzkt sjónvarp kemur til með að sýna, heldur líka kvikmynda, sem hæstv. ríkisstj. hefur heimilað erlendum her að sjónvarpa inn á íslenzk barnaheimili.