06.05.1965
Neðri deild: 84. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á síðasta ári voru sett lög um loftferðir. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um skrásetningu réttinda í loftförum, er samið í framhaldi af þeirri löggjöf og með sama hætti. Skv. 1. gr. laga nr. 49 1947 skal um stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu loftfari fara eftir reglum um fasteignir, að svo miklu leyti sem þeim verður við komið. Nú eru loftför alþjóðleg samgöngutæki. Er því auðsætt, að móta ber reglur um eignarrétt og eignarhöft í loftförum með hliðsjón af því.

Genfarsáttmálinn frá 19. júní 1948 geymir reglur um þessi efni. Er sáttmálinn reistur á málamiðlun á milli lögskipanasáttmála ríkjanna. Ísland undirritaði sáttmálann, en hefur eigi fullgilt hann.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er við það miðað, að Ísland staðfesti sáttmálann og öðlist þar með þá vernd fyrir loftför sín í sáttmálaríkjunum, sem sáttmálinn veitir, en sáttmálinn geymir reglur um, að hve miklu leyti sáttmálaríki ber að virða réttindi í loftförum, er eiga heima í öðrum sáttmálaríkjum.

Samgmn. hefur rætt þetta mál allýtarlega og leggur einróma til, að það verði samþykkt óbreytt að öðru leyti en því, að hún flytur brtt. við 36. gr. frv., að lögin skuli þegar öðlast gildi.