10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

122. mál, skrásetning réttinda í loftförum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, frv. til l. um skrásetningu réttinda í loftförum, er samið af Gizzuri Bergsteinssyni hæstaréttardómara. Þegar loftferðalögin voru afgreidd hér á síðasta þingi, var boðað, að frv. sem þetta þyrfti að fylgja með.

Þetta frv. var flutt snemma á þinginu í hv. Nd., en af einhverjum ástæðum tafðist það þar lengi og er nú fyrst nýkomið úr hv. Nd. til þessarar d. Eigi að síður hefur frv. verið í hv. Alþ. og hv. Ed.-menn hafa fengið frv. En það má vera, að það dragist úr hömlu að kynna sér þau mál, sem ekki eru komin til d., og þess vegna hafi hv. Ed.-menn ekki lesið málið.

Ég ætla ekki að fara út í það að lýsa þessum lagabálki, sem er allmikill, í 5 köflum, 37 greinar, það ætla ég ekki að fara út í, vegna þess að það væri nokkurt mál. En ég vil mælast til þess, að hv. dm. sýni þessu máli þann velvilja, þótt það hafi stuttan tíma verið hér í d., að setja sig inn í það eftir mætti. Það þarf helzt að verða að lögum á þessu þingi og ég segi: nauðsynlega. Og það má segja, að það sé vanræksla af minni hendi að hafa ekki fylgzt með því í hv. samgmn. Nd., að það væri afgreitt fyrr en raun ber vitni.

Ég vil leggja til að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að nota tækifærið til þess að tala hér einnig fyrir öðru máli. Það er frv. til l. um viðauka við lög nr. 57 25. maí 1949, um nauðungaruppboð.

Þótt nafnið bendi ekki til þess, er þetta frv. einnig fylgifiskur loftferðal. og eins og segir í aths. við frv., var frv. þetta undirbúið með sama hætti og önnur frv. um loftferðamál. Frv. þetta miðar að því að veita ákvæðum Genfarsáttmálans frá 1948 um uppboð á loftförum lagagildi. Ákvæðin eru þó eigi takmörkuð við sáttmálaríki, þar sem þau þykja eiga við önnur loftför. Sáttmáli um alþjóðaviðurkenningu á réttindum í loftförum, gerður í Genf 19. júní 1948, er fskj. með frv. til l. um skrásetningu réttinda í loftförum.

Ég vil einnig, herra forseti, leggja til að, að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn. Og um þetta frv., eins og það fyrra, vil ég mælast til, ef hv. dm. treysta sér til þess, það verður vitanlega að fara eftir því, að þetta frv. megi einnig verða að lögum, áður en þingi lýkur.