15.03.1965
Neðri deild: 54. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

143. mál, verkfræðiráðunautar ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem liggur fyrir á þskj. 303, um verkfræðiráðunauta ríkisins á Norður-, Austur- og Vesturlandi, flyt ég ásamt hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ). Frv. er, eins og segir í grg., samið af n., sem var starfandi fyrir nokkrum árum, en 2 af nm. eiga nú sæti hér á Alþingi, þ.e.a.s. flm. þessa frv. Frv. eða það, sem þar er lagt til, er byggt á þeirri skoðun, að æskilegt sé, að opinberar framkvæmdir séu, eftir því sem við verður komið, sjálfstæð eða sem sjálfstæðust starfsemi í hverjum landshluta og að þar með skapist sérfræði- eða tæknimiðstöðvar á vegum ríkisins á nokkrum stöðum í landinu. Þróun þessara mála hefur orðið sú, sem kunnugt er, að öll meiri háttar framkvæmdastjórn opinberrar mannvirkjagerðar er staðsett í höfuðborginni. Þar er unnið að rannsóknarefnum, þar eru áætlanir gerðar og teikningar að mannvirkjum, innkaup á vélum og efni o.s.frv. Þangað safnast sérfræðingar þeir, sem að þessum verkum vinna, eiga þar heima og starfa þar að miklu eða öllu leyti. Um sumartímann fara þessir sérfræðingar eða sumir þeirra í skyndiferðir út um landsbyggðina til að athuga viðfangsefni, líta yfir það, sem unnið er á hverjum tíma og gefa fyrirmæli um vinnu, eftir því sem þeim vinnst tími til. Með þessu fyrirkomulagi vill það stundum verða, að framkvæmd og þeir, sem að henni vinna, verði að bíða lengur eftir verkfræðingi sínum eða yfirmanni, en æskilegt væri. Og þar sem framkvæmdir annarra, en ríkisins eru líka langmestar í höfuðborginni og í nágrenni hennar, verður reyndin sú, að utan þess svæðis eru tæknimenntaðir menn eða verkfróðir mjög fáir. Þeir, sem þurfa þar á sérfræðilegri aðstoð að halda, einkafyrirtæki og sveitarfélög, verða yfirleitt að sækja þá þekkingu til höfuðborgarinnar. Það er þá líka orðin almenn trú víðs vegar um land, að þar séu allir færustu sérfræðingarnir. Núna t.d., þegar það er að komast í kring, að landinu verði skipt í nokkur vegagerðarumdæmi og sérstakur verkfræðingur yfir hverju umdæmi, virðist þeim, sem fyrir málum ráða, eiginlega ekki detta annað í hug en að þessir umdæmisverkfræðingar hljóti að eiga heima í Reykjavík og starfa á aðalskrifstofunni hér í höfuðborginni þann tíma, sem þeir eru ekki á ferðalögum í umdæmum sínum.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 303, er gert ráð fyrir, að ráða skuli 3 verkfræðiráðunauta, sem svo eru nefndir, til starfa í tilteknum umdæmum, einn í Norðurlandsumdæmi, annan í Austurlandsumdæmi, þriðja í Vesturlandsumdæmi. Verkfræðiráðunautur Norðurlandsumdæmis skuli hafa aðsetur á Akureyri og taki umdæmi hans yfir Norðlendingafjórðung. Verkfræðiráðunautur Austurlandsumdæmis skuli hafa aðsetur í Egilsstaðakauptúni og taki umdæmi hans yfir Austfirðingafjórðung. Verkfræðiráðunautur Vesturlandsumdæmis skuli hafa aðsetur á Ísafirði og taki umdæmi hans yfir Vestfirðingafjórðung norðan Gilsfjarðar, þ.e.a.s. Vestfirði.

Í 3. gr. frv er svo fyrir mælt, að verkfræðiráðunautur í umdæmi hverju skuli undir yfirumsjón vega- og vitamálastjóra hafa umsjón með vega- og hafnarmannvirkjagerð í umdæmi sínu og jafnframt hafa á hendi undirbúningsrannsóknir og áætlanagerð í sambandi við slík mannvirki, svo og viðhald þeirra að því leyti, sem ríkið lætur slíkt til sín taka.

Enn fremur segir í 4. gr., að verkfræðiráðunautur skuli gegn hæfilegri þóknun til ríkisins vera til ráðuneytis bæjarstjórnum, sýslunefndum og sveitarstjórnum við mannvirkjagerð í umdæmi sínu, eftir því sem því verður við komið og ríkisstj. samþykkir. Það, sem hér vakti fyrir þeim, sem sömdu þetta frv. á sínum tíma, var það, að þarna tækist samvinna milli ríkisins annars vegar, sem hefði þessa menn í þjónustu sinni, og hins vegar bæjar- og sveitarfélaganna í hverju umdæmi, þannig að verkfræðiráðunautarnir ynnu einnig að verkfræðilegum störfum fyrir þessa opinberu aðila í umdæmunum og að um það væri þá samið, hver greiðsla kæmi fyrir og hvernig.

Í 5. gr. frv. segir, að ráðh. sá, er fari með vega- og hafnamál, ráði verkfræðiráðunauta og setji þeim erindisbréf að fengnum till. vegamála- og vitamálastjóra. Enn fremur segir, að séu þessi mál ekki í höndum sama ráðh., þ.e.a.s. vega- og hafnamálin, annist hlutaðeigandi ráðherrar ráðninguna sameiginlega og gefi út erindisbréf.

Enn fremur segir í 6. gr., að ríkisstj. gefi út reglugerð að fengnum till. vegamálastjóra og vitamálastjóra og að í þessari reglugerð skuli m.a. ákveða, að hve miklu leyti verkfræðiráðunautar hafi með höndum fjárreiður í sambandi við störf sín. Enn fremur er gert ráð fyrir því í þessari gr. frv., að í reglugerðinni megi með samþykki hlutaðeigandi rn. fela verkfræðiráðunaut í samráði við skipulagsstjóra og húsameistara ríkisins umsjón með hvers konar opinberri byggingarstarfsemi í umdæminu, svo sem skipulagi, byggingu skólahúsa, sjúkrahúsa, kirkna, læknisbústaða, annarra embættisbústaða, félagsheimila o.s.frv., að því leyti sem ríkið hafi afskipti af slíkum framkvæmdum.

Hér er í þessu frv., eins og ég hef áður sagt, gert ráð fyrir, að skipaðir verði sérstakir verkfræðiráðunautar í þjónustu ríkisins, einn fyrir Norðurland, annar fyrir Austurland og þriðji fyrir Vestfirði, enda hafi þeir fast aðsetur hver í sínu umdæmi. Það er ætlazt til þess, að verkfræðiráðunautur í umdæmi hverju lúti sameiginlegri yfirstjórn vegamálastjóra og vitamálastjóra. Á svipaðan hátt og t.d. sýslumaður lýtur sameiginlegri yfirstjórn a.m.k. tveggja rn. og raunar fleiri, en a.m.k. fjmrn. og dómsmrn., á sama hátt ætti það að vera framkvæmanlegt að því er varðar verkfræðiráðunaut, að hann lyti yfirstjórn tveggja rn., ef þannig stendur á, að svo þurfi að vera, en sé sjálfstæður í starfi að öðru leyti, en því, að hann sé settur undir yfirstjórn æðstu embættismanna ríkisins í þessum málum, þ.e.a.s. vegamálastjórann og vitamálastjórann. Verkfræðiráðunautur ætti að hafa umsjón með vega- og hafnarmannvirkjagerð í umdæmi sínu, svo og undirbúningsrannsóknir og áætlanir í sambandi við vegi og hafnir, eins og ég hef áður getið um og sjá um viðhald það, er ríkið lætur fram fara á slíkum mannvirkjum. Enn fremur hefur það verið talið rétt, að heimilað sé að fela verkfræðiráðunaut hliðstæða umsjón með skipulagi og húsagerð á vegum hins opinbera í umdæminu. Það er ekki beinlínis tekið fram í frv., að hann skuli hafa þetta með höndum, en ákvæði um það er í heimildarformi, eins og ég las áðan. Loks er svo, eins og ég sagði áðan, gert ráð fyrir þeim möguleika, að verkfræðiráðunautur og skrifstofa hans veiti bæjar- og sveitarfélögum verkfræðilega aðstoð, ef þess er óskað, gegn hæfilegri greiðslu, sem gangi til ríkisins eða þessarar stofnunar, eftir því sem um semst. En ætla má, að hagkvæmt sé fyrir bæjar- og sveitarstjórnir að geta hvenær sem er leitað til slíkrar stofnunar nærlendis í sambandi við ýmiss konar framkvæmdir á þeirra vegum, svo sem vatnsveitur, gatnagerð og ýmislegt fleira.

Ríkið yrði að sjálfsögðu að sjá verkfræðiráðunautunum fyrir hæfilegum starfsskilyrðum á hverjum stað, svo sem skrifstofuhúsnæði og starfskröftum til aðstoðar eftir því, hve mikil verkefnin reyndust, m.a. sérfræðilegri aðstoð, ef á henni þyrfti að halda. Um það voru þeir sammála, sem að gerð þessa frv. stóðu og á það verður að leggja sérstaka áherzlu, er til kemur, að þannig verði að þessari starfsemi búið, starfsemi verkfræðiráðunautanna á Norður-, Austur- og Vesturlandi, að hægt sé að fá vel hæfa menn og áhugasama til að gerast verkfræðiráðunautar. Og það má raunar teljast sennilegt, að sú samvinna milli ríkis og sveitarfélaga og sýslufélaga, sem hér er rætt um, geti miðað í þá átt að skapa betri skilyrði fyrir þá sérfræðinga, sem þarna störfuðu. En árangur af þeim ráðstöfunum, sem hér er um að ræða og frv. fjallar um, verður áreiðanlega að mjög miklu leyti og jafnvel að öllu leyti undir því kominn, hvernig til tekst um val þessara manna, um val verkfræðiráðunautanna. Verkfræðingar þeir, sem skipa sæti verkfræðiráðunauta á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum, verða að vera þess umkomnir að vera sjálfstæðir í starfi, þannig að þeim megi yfirleitt treysta eigi síður en hinum, sem starfa í aðalstöðvunum í Reykjavík, enda þótt yfirstjórnin syðra hafi úrskurðarvald og gefi fyrirmæli, ef nauðsyn krefur.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að í þeirri reglugerð, sem sett verði samkv. frv., ef að lögum verður, verði ákvæði um það, að hve miklu leyti verkfræðiráðunautur eða skrifstofa hans skuli hafa með höndum fjármál í sambandi við störf sín. En þar er einkum átt við útborganir vegna framkvæmda. Hér er að vísu um mikilsvert mál að ræða, en ekki var talið rétt að gera ákveðnar till. um það að svo stöddu. Það töldum við aðalatriðið í þessu máli, að verkfræðistofnunum á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum yrði komið á fót á þann hátt, sem um er rætt í frv. þessu, en að starfshættir þeirra og verksvið verði síðan að skapast smátt og smátt með hliðsjón af reynslu. Mætti þá svo fara, að þessar stofnanir í hinum einstöku landshlutum yrðu, er tímar líða, alveg sjálfstæðir aðilar hver í sínum landshluta gagnvart fjárveitingavaldi og ríkisstj., og þegar að því kemur, sem koma mun, að landinu verði skipt í fylki með sjálfstjórn í sérmálum, mun það koma af sjálfu sér, að starfsemi verkfræðiráðunautanna í hinum einstöku landshlutum mun lúta fylkisstjórnum þeim, sem þá koma til starfa.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir sérstökum verkfræðiráðunautum á Suður- og Suðvesturlandi. Er að svo stöddu gert ráð fyrir, að hinar opinberu framkvæmdir þar verði áfram í beinni umsjá hlutaðeigandi ríkisstofnana í Reykjavík, enda er þar hægara um heimatökin. En vera mætti, að til þess yrði að koma síðar, að einnig í þessum landshlutum kæmu sérstakar stofnanir af þessu tagi. Ef sæmilega tekst til, verður að gera ráð fyrir því, að verkfræðiráðunautar þeir, sem hér er um að ræða, geti létt nokkuð störfum af hlutaðeigandi yfirstofnunum í Reykjavík og þess vegna þurfi ekki að verða af því verulegur kostnaðarauki, þó að það fyrirkomulag verði tekið upp, sem hér er gert ráð fyrir. Það ætti að geta haft þau áhrif, að færri starfsmenn þyrfti og minni kostnað að öðru leyti í aðalstöðvunum hér í höfuðborginni.

Ég hef orðið þess var nú síðustu árin, að vaxandi áhugi hefur verið fyrir því á ýmsum stöðum, að fyrirkomulag eitthvað þessu líkt yrði tekið upp. Núna skömmu eftir að þetta frv. var lagt fram, kom fram annað mál hér í hv. d., sem er í raun og veru alveg sams konar, en aðeins á þrengra sviði, þar sem er frv. tveggja hv. Vestfjarðaþm. á þskj. 306 um verkfræðiskrifstofu Vestfjarðakjördæmis. Ég þykist sjá, að fyrir þeim vaki alveg það sama og vakti fyrir þeim, sem sömdu þetta frv., að hugmynd þeirra og óskir um svona starfsemi á Vestfjörðum geti fallið inn í rammann. Hins vegar má vel vera, að í frv. þeirra séu einhver ákvæði, sem hagkvæmt væri að taka upp í staðinn fyrir eitthvað, sem er í okkar frv., og þyrftu þessi mál því að athugast samhliða.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.