16.12.1964
Efri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

106. mál, söluskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, um leið og ég hef mál mitt, að fyrstu viðbrögð mín við þessu frv., þegar það var lagt hér á borð okkar þm. í gær, voru þau, að ég varð undrandi. Og ég get búizt við því, að svo hafi verið um fleiri, sem allt frá því á s.l. vori hafa alið með sér nokkrar vonir um það, að hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir sinn að mörgu leyti óhugnanlega feril í efnahagsmálum og þá alveg sérstaklega að því er varðar þá þætti, sem snúa að öllum almenningi og verkalýðshreyfingunni í landinu, hefði a.m.k. að einhverju leyti séð að sér, eins og það samkomulag, sem hún átti þátt í að gert var við verkalýðshreyfinguna 5. júní s.l., benti til, og þeir munu hafa verið margir, sem hugðu bata hæstv. ríkisstj. varanlegri en reynslan hefur orðið og vonuðu, að hún stefndi ekki jafnrakleitt verðhækkana- og verðbólguleiðina eins og áður.

Það verður að vísu að segjast, að sjálft fjárlagafrv. með þeim gífurlegu hækkunum, sem það boðaði, eða sem svaraði í rekstrarútgjöldum um hálfum milljarði, eins og það leit út, þegar það var lagt fram á hv. Alþingi, og öll meðferð þess fram að þessu gaf auðvitað strax til kynna, að alvara hæstv. ríkisstj. í því að spyrna fótum við verðbólgunni, verðlagshækkunum og sírýrnandi gildi gjaldmiðilsins risti ekki allt of djúpt. En allt um það, þá munu þó flestir hafa vonað, að forðazt yrði að vega enn í þann knérunn, sem nú er gert, og grípa til slíkra algerra óyndisúrræða sem þetta frv. er, — óyndisúrræða, sem útilokað er að leiði annað af sér en auka á allan vanda, sem við er að fást, og hljóta að stórspilla öllum líkum fyrir friðsamlegri lausn þeirra vandamála, sem bíða úrlausnar í launa- og kjaramálum vinnustéttanna, ef þessi úrræði, sem hér eru til umr., skjóta þá ekki loku fyrir þá lausn með öllu.

Áður en ég vík beint að sjálfu því frv. efnislega, sem hér er til umr., tel ég rétt að minna nokkuð á það samkomulag þriggja aðila, þ.e.a.s. ríkisstj., vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar, sem gert var á s.l. vori, svo mjög sem það varðar þetta mál bæði beint og óbeint.

Ég minni fyrst á það, að þetta samkomulag var gert við þau skilyrði og að þeirri atburðarás undangenginni, að kaup verkafólks hafði lækkað frá því í febr. 1960, um það bil sem núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, á sama tíma sem vöruverð og þjónusta hafði hækkað um 84%. Og ef sú saga er rakin einu ári lengra aftur í tímann, þá minnumst við þess, að annar hv. stjórnarflokka, sem þá fór með völd með stuðningi hins, lækkaði raunverulegt kaupgjald verkafólks í landinu um 5.4%, en sjálfar kaupsupphæðirnar um 13.6%.

Samkomulagið í vor var sem sagt gert að undangenginni stórfelldri kjaraskerðingu. Kaupgjaldið hafði verið lækkað ár frá ári allt valdatímabil núverandi stjórnarflokka, fyrst og fremst með aðgerðum af hálfu hæstv. ríkisstj., og ber þar fyrst og fremst að nefna tvennar gengisfellingar, 1960 og 1962, og stórfelldar almennar álögur, sérstaklega í formi söluskatts og nefskatts, auk hækkunar á beinum sköttum. Og mönnum er auðvitað kunnara en því þurfi að lýsa hér í hv. d., hvers konar eindæma verðbólguflóð leiddi af þessum aðgerðum, og allt gerðist þetta í skjóli þess, að það hafði tekizt í upphafi viðreisnarinnar og ræna launamenn þeirri vernd, sem samningar um verðlags bætur á laun veittu, áður en sú vernd var numin úr gildi við upphaf hinnar svokölluðu viðreisnar. Þrátt fyrir allt þetta, sem á undan var gengið og ég ætla ekki að rekja, svo kunnugt sem það er, og þrátt fyrir einstök góðæri, sem höfðu fært þjóðarbúinu sívaxandi tekjur, og öll ytri skilyrði og ástæður voru þannig til mjög mikilla launahækkana, þá sýndu verkalýðssamtökin þá einstæðu — vil ég segja — hófsemi að ganga til samninga, sem fólu ekki í sér neinar grunnkaupshækkanir, svo að nefnandi væru því nafni. Þau féllu frá öllum slíkum kröfum gegn því að fá fram að nýju vísitölubætur, ef verðlag hækkaði, og nokkur atriði önnur, sem þau töldu allmikilvæg fyrir skjólstæðinga og kunnari eru en frá þurfi hér að segja. En ég mundi segja, að fyrst og fremst hefðu verkalýðssamtökin gengið til þessa samkomulags vegna þess, að þau töldu, að með því væri brotið blað varðandi efnahagsmál þjóðarinnar að því leyti, að skilningur væri að skapast hjá ríkisstj. á hinum geigvænlegu afleiðingum verðbólgustefnunnar, ekki aðeins fyrir allan almenning og kjör hans frá ári til árs, heldur á alla eðlilega þróun atvinnuveganna í landinu, á þróun þjóðarbúsins sem heildar og jafnvel fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Kannske gætum við líka látið okkur nægja að svo stöddu að segja, að verkalýðshreyfingin hafi trúað því eða a.m.k. viljað sannreyna, hvort svo væri, að ríkisstj, liti nú orðið, þegar þetta samkomulag var gert, á verðbólguna ekki aðeins sem hentugt tæki til þess að halda raunverulegum lífskjörum almennings niðri, heldur einnig sem vandamál, sem henni bæri nokkur skylda til að reyna að leysa.

Ég verð að segja, að þetta frv. er hnefahögg framan í alla þá, sem gengu til samninganna í vor í góðri trú á heilindi hæstv. ríkisstj. í baráttunni gegn verðbólgunni. Sú trú hefur að vísu hlotið áföll, áður en samningstímabilið er hálfnað, en þetta frv. er þó þeirra áfalla langmest og alvarlegust. Í því sambandi nefni ég fyrst, hvernig staðið er að þessu máli. Hér er ekki verið að hafa fyrir því að leita álíts viðsemjandans frá því í vor, þ.e.a.s. verkalýðssamtakanna, á því, hvort hann telji á rétt sinn gengið beint eða óbeint, eða yfirleitt verið að leita eftir viðhorfi hans til þeirra aðgerða, sem munu hafa í för með sér nýjar álögur á skjólstæðinga hans upp á 300—400 millj. kr. a.m.k., þegar öll kurl eru komin til grafar. Og það er líka athyglisvert, að þessum álögum er skellt yfir á miðjum þeim samningstíma, sem samkomulagið átti að gilda. Ég verð að segja, að verkalýðshreyfingin hafði ríkar ástæður til, bæði beinar og óbeinar, að ætla, að til engra slíkra aðgerða sem þessara yrði gripið án þess að leita álits hennar áður. Það er að vísu fjarri mér að ætla að halda því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi afsalað sér umfram það, sem skjalfest var með samkomulaginu á s.l. vori, rétti sínum til að hafa forgöngu til lagasetningar hér á hv. Alþingi, en í þessu sambandi held ég, að það sé líka nauðsynlegt að líta aftur ofurlítið til forsögunnar, fyrst tilrauna hæstv. ríkisstj. í nóv. í fyrra til þess að knésetja verkalýðssamtökin með því að svipta þau samningsréttinum, síðan verkfallsstríðsins í desembermánuði sama ár og loks samninganna á s.l. vori. Sagan um þessa þrjá sögulegu viðburði segir okkur auðvitað ótvírætt, hverjum sem augu hefur og eyru, að ríkisstj. hvarf tilneydd eða vegna skynsemi sinnar, hvort sem maður vill heldur hafa, frá þeirri stríðsstefnu, sem hún hafði áður haldið sleitulaust uppi allt frá valdatöku sinni. Hún valdi á s.l. vori samningaleiðina, leið viðræðna um vandamálin, leið samstarfs við verkalýðshreyfinguna, leið aðgerða gegn verðbólgunni, og við, sem tókum þátt í samningunum fyrir verkalýðshreyfinguna, höfðum vissulega fulla ástæðu til þess að ætla, að vilji hæstv. ríkisstj. til þess að fara þessa leið í samskiptum við verkalýðshreyfinguna mundi a.m.k. endast í þetta eina ár, sem samkomulagið átti að gilda, og þó fremur lengur en skemur.

En maður verður að játa þá lífsreynslu, að svo lengi lærir sem lifir, þó að það virðist nú ekki vera tilfellið um hæstv. ríkisstj. Hún virðist vera búin að gleyma a.m.k. að verulegu leyti, vonandi þó ekki öllu, hvert stríðsstefnan var að leiða hana sjálfa, því að hafi nokkur ríkisstj. verið stödd á hengiflugi með gapandi tortíminguna fyrir neðan, þá var það hún fyrir 13 mánuðum. Og ég held, að það væri hollt fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál m.a. að gera ráð fyrir því, að hún geti haldið svo á málum, að henni yrði kannske öðru sinni sýnt fram af bakkanum, og kynni þá minna að vera hirt um það en hið fyrra sinnið að rétta henni hönd til bjargar.

Nei, það er sannarlega ekki neinum blöðum um það að fletta, að þær aðgerðir til aukinnar dýrtíðar og þær aðgerðir til þess að hindra eðlilegar kjarabætur vinnustéttanna, sem felast í þessu frv. og ég mun koma nánar inn á síðar, þær eru freklegt brot gegn anda þess samkomulags, sem hæstv. ríkisstj. gerði við verkalýðssamtökin á s.l. vori. Og ég tel þetta að vísu veigamikið, þó að það sé ekki brot, hvorki á skjalfestu samkomulagi né samkomulagi, sem gert hefur verið með yfirlýsingum. Þá verður það líka að segjast, þó að ég telji það raunar ekki eins veigamikið, að ég fæ ekki betur séð en frv. feli í sér bein svik á yfirlýsingum, sem voru gefnar í sambandi við samkomulagið, — yfirlýsingum, sem að vísu voru ekki skjalfestar, en bæði ég og fleiri þykjast muna fullvel, að voru gerðar. Í grg. með frv. er frá því skýrt, að fjár á nú að afla upp á 68 millj. kr. til þess að standa undir viðbótarniðurgreiðslum fyrir árið 1964 vegna samkomulagsins og vísitöluhækkunar á kaup, sem ella hefði orðið. Ég man ekki betur en því væri mjög greinilega lýst yfir a.m.k. tvisvar sinnum af ábyrgum aðilum, sem tóku þátt í þessum viðræðum fyrir hæstv. ríkisstj., og ég hef borið það undir aðra, sem einnig tóku þátt í þessum viðræðum til undirbúnings samkomulagsins, að því var mjög greinilega lýst yfir, að engar nýjar álögur yrðu lagðar á vegna niðurgreiðslu á árinu 1964. En samkv. þessu frv. er komið með reikninginn á eftir fyrir allri þeirri upphæð, sem samkomulagið kostaði hæstv. ríkisstj. í niðurgreiðslum á þessu ári. Og þetta er meira að segja gert án þess, að leitað sé nokkurs rökstuðnings í lélegri afkomu ríkissjóðs á því ári, sem nú er að líða.

Ég verð að taka það strax fram í sambandi við það, sem kom hér fram hjá hæstv. fjmrh., að bæði ég og fleiri þdm. hafa heyrt ágizkanir hans um þróun innflutnings og um það, hvað líklegt væri að skattar og önnur gjöld yrðu há, nú undanfarin ár, og meðan a.m.k. hæstv. ráðh. kemur ekki fram á hv. Alþingi með bráðabirgðayfirlit yfir afkomu ríkisins á þessu ári, þá met ég þessar ágizkanir hans ekki nokkurn hlut meira en ég gerði fyrir árið 1962 og 1963. Það er ekkert líklegra en fullyrðingar hans nú séu á sömu bókina lærðar og þá.

Annars verð ég að segja það í sambandi við það, úr því að ég er farinn að tala um samkomulagið og þau brigð, sem ég tel að hér hafi verið í frammi höfð í sambandi við niðurgreiðslurnar á þessu ári, þá vil ég einnig koma aðeins inn á það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. var að tala um, hvort það hefði verið samið um eitthvað meira, hvort það hefði kannske verið samið um það í sambandi við kaupgjaldsmálin, að við ættum að hafa hér fulltrúa í n., Alþb., og annað því um líkt. Þetta talaði hann um í dylgjutón, sem ég kann ekki við, í öðru orðinu, þó að hann í hinu orðinu fullyrti, að hann væri sannfærður um, að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert. Ég verð að segja, að það situr ekki á þessum ágæta fulltrúa samstarfsflokks okkar Alþb.-manna, m.a. í verkalýðshreyfingunni, að bera fram svona dylgjur, og ég vísa þeim algerlega til föðurhúsanna. Um ekkert slíkt var samið á s.l. vori.

En þegar þannig er haldið á málum, eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert varðandi fjáröflun til niðurgreiðslna á árinu 1964, þá horfir vissulega ekki vænlega um það, að eflzt geti gagnkvæmt traust og friðsamleg sambúð milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna. Og þá er bezt að snúa sér að því athuga ofurlítið nánar, hvað felst í þessu frv. að öðru leyti og aðgerðum, sem beint leiðir af því eða í sambandi við það standa.

Það er þá fyrst það að telja, að söluskatturinn er hækkaður um 46%, ekki um 2.5% eins og aðalfyrirsögn Vísis hljóðar upp á. Hækkunin er 46%, eftir að hann hefur verið hækkaður um 80% í fyrra frá árinu þar á undan. En þetta þýðir í fyrstu lotu tæplega 2.5%verðhækkun á öllu verðlagi í landinu, sem síðan hlýtur að vaxa verulega vegna víxláhrifa, þannig að innan tíðar verður a.m.k. 6 stiga vísitöluhækkun, sem af þessu leiðir, og að auki þau víxláhrif, sem kunna að koma fram, m.a. vegna ýmiss konar innanlandsframleiðslu. Og svo í öðru lagi felst það í frv., að önnur gjöld eru hækkuð allverulega. Þetta felst fyrst og fremst í frv., og það má segja, að þetta mál sé að því leyti ekki svo ákaflega flókið.

En þá er rétt að gera sér eins vel og hægt er í lítilli athugun grein fyrir því, hvaða afleiðingar þetta hefur bæði á verðlagsþróunina og efnahagsmálin og á kjaramálin í landinu. Við hér í þessari hv. þd. erum nýbúnir að verða áheyrendur að fræðilegri ræðu, sem hv. 10. þm. Reykv. flutti yfir okkur eins og skóladrengjum um það, hvenær vísitala væri slæm og hvenær hún væri góð, og mér skildist á ræðu hans, að hann teldi, að ákvæði um vísitölu gætu verið harla góð, þ.e.a.s. sem aðhald fyrir stjórnarvöld um það að hækka ekki verðlag úr hófi fram, en hún væri slæm, þegar hún færi í gang. Þetta væri eins og sjálfvirkur hreyfill, sem a.m.k. væri skaðlaus, meðan hann gengi ekki, en þegar hann færi í gang, væri hann stórhættulegur. Ég held, að það sé engum blöðum um það að fletta, að margt er rétt í þessari kenningu hv. 10. þm. Reykv., og ég get í aðalatriðum samsinnt því, þetta er einnig mín skoðun, að það sé fyrst og fremst það gildi, sem ákvæðin um vísitöluna hafa, það sé aðhaldið til stjórnarvalda. Það er það aðhald, sem þau hefur skort á undanförnum árum, og hefur greinilega sýnt sig þennan tíma fram að þessu, sem vísitalan hefur verið í gildi, að þá hefur hún haft mjög verulega þýðingu að þessu leyti, þ.e.a.s. þangað til núna, að hæstv. ríkisstj. setur þennan hættulega hreyfil sjálf í gang. Um það er engum blöðum að fletta, að vélin er farin að ganga, og hún mun eiga eftir að ganga næstu mánuðina og trúlega næstu árin. Ég hygg, að það megi um þetta segja, að það sé miklum mun auðveldara að láta það vera að setja vélina í gang heldur en stöðva hana aftur, a.m.k. hefur reynslan verið sú.

Af þessu frv., segir í grg., að leiði 3% kauphækkun á öll laun á landinu í öllum atvinnugreinum og yfirleitt hjá öllum, sem laun taka og laun greiða. Nú er það auðvitað næsta líklegt, að svo fari í þessu tilfelli sem fleirum, að allir aðilar, sem kaup þurfa að greiða, velti þeirri byrði af sér, sem hér er á þá lögð, nema útflutningsframleiðslan, sem hlýtur að búa við það heimsmarkaðsverð, sem gildandi er á hverjum tíma, og hlýtur því að rekast á harðan vegginn með það, að hún getur engum af þeim byrðum velt af sér, sem lagðar eru á hana í hækkuðu kaupgjaldi eða með öðrum hætti, nema þá til komi uppbætur og styrkir úr ríkissjóði. En á útflutningsframleiðsluna á sem sagt eins og aðrar atvinnugreinar í landinu að leggja 3% kauphækkun í krónutölu, sem þó kemur ekki að neinum notum fyrir þá, sem launin taka. Það er ekki alveg sögð öll sagan með því, hvernig útflutningsatvinnuvegirnir fara út úr þessu, því að í sambandi við afgreiðslu fjárl. og einnig þá í beinu sambandi við þetta frv. eru teknar af fiskiðnaðinum 95 millj. kr., sem hann fékk á s.l. ári, þannig að það er greinilega um það að ræða, að hann hlýtur að búa við versnandi hag, sem nemur þessum 95 millj., sem ríkissjóður nú hrifsar til sín, og að auki hlýtur hann svo að bera þessi 3%.

Í grg., sem fylgdi frv., sem samþ. var hér í fyrra og fjallaði fyrst og fremst um aðstoð við sjávarútveginn og hækkun söluskatts, frv. til l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt útreikningum Fiskifélags Íslands nemur aukning útgjalda hraðfrystihúsanna vegna 15% kauphækkunar sem svarar 5.2% af framleiðsluverðmæti húsanna. Miðað við 1200 millj. kr. árlega framleiðslu frystihúsanna, sem er áætluð framleiðsla þeirra fyrir árið 1963, er hér um að ræða 62 millj. kr. upphæð.“

Þ.e.a.s., að 15% kauphækkun kostaði frystihúsin í landinu 62 millj. kr. Nú er um það að ræða, að af fiskiðnaðinum eru teknar til ríkisþarfa 95 millj. kr., og að auki á svo að leggja 3% kauphækkun á fiskiðnaðinn, og mér skilst, að það sé ekki fjarri því, að þetta svari til þess, að nýjar byrðar séu lagðar á fiskiðnaðinn í landinu, sem mundu jafngilda 20—25% kauphækkun, sem þær aðgerðir svara til, sem hér er um að ræða. En sem sagt, aðrar atvinnugreinar í landinu geta velt af sér byrðunum og látið þær renna út í verðlagið, en það leiðir svo aftur til nýrra kauphækkana.

Í þriðja lagi felst svo í þessu, að tekjuþarfir ríkissjóðs aukast um 42 millj. kr. vegna hækkaðs kaups og vísitölu og almannatrygginga, þ.e.a.s. að skattur leiðir af sér nýjan skatt, — það eru smáhjól í vélinni, sem þar eru að verki, — skattur lagður á vegna annars skatts.

Og í fjórða lagi verður að ætla og er vafalaust óhætt að fullyrða, að margir tugir milljóna, e.t.v. 50—90 millj. kr., svo að maður nefni einhverjar tölur, renna í vasa þeirra innheimtumanna, þeirra misjafnlega heiðarlegu innheimtumanna, sem fara með innheimtu á þessum nýja skatti, og fyrir þann hluta innheimtunnar fást auðvitað engar bætur, hvorki í vísitölu né öðru.

Ég get sleppt því að ræða þetta miklu nánar, svo góð skil sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði þessu atriði, og ég get því látið mér nægja að taka undir allt, sem hann sagði um þetta.

Ef við skoðum svo þetta mál út frá sjónarmiði venjulegs manns, sem við þetta á að búa, hvernig skyldi málið þá líta út? Auðvitað fer ekki hjá því, að þessar nýju álögur leiða til þess, að meiri tilhneiging verður til þess að krefjast hærra kaups og það af raunverulega mörgum ástæðum, ekki sízt vegna þess eðlis söluskattsins, að hann leggst tiltölulega þungt á þá, sem lægst laun hafa, þá, sem hafa fyrir barnmörgum heimilum að sjá, hann leggst jafnt á gamalmennið og hvítvoðunginn eins og þann, sem er fullvinnandi, nokkurn veginn, sem sagt það er gömul og ný reynsla, að hann leggst þyngst á þá, sem hafa aðeins til hnífs og skeiðar. Og svo í öðru lagi hlýtur þessi tilhneiging til kauphækkana fremur að vaxa en hitt, vegna þess að einmitt í þessari skattheimtu er útilokað, að fullkomnar bætur fáist í vísitölu. Í öðru lagi, sem ég álít þó miklu veigameira í þessu sambandi, þá leiðir þessi breyting, sem hér hefur verið gerð, bæði á söluskattinum og á því, hvernig sá styrkur, sem áður gilti til útflutningsatvinnuveganna, er nú af tekinn og notaður í almenna eyðslu hjá ríkissjóði, þá hlýtur það að leiða til þess, að möguleikar atvinnuveganna, og þar á ég sérstaklega við útflutningsatvinnuvegina, til þess að standa undir eðlilegum kauphækkunum, hljóta að stórminnka. Dýrtíðin er látin éta upp þá möguleika, sem þarna hafa verið fyrir hendi, enda má það vissulega vera íhugunarefni, hvernig yfirleitt er mögulegt að koma t.d. bættum verzlunarkjörum, hækkuðu verðlagi á útflutningsframleiðslu og öðru slíku til skila til fólksins, sem vinnur við þessar atvinnugreinar, ef verðgildi þeirra peninga, sem fæst fyrir útflutninginn, er rýrt í sífellu. Ég held, að eðli þess máls sé þannig, að það sé nokkurn veginn séð fyrir því, að það sé ekki mögulegt.

Niðurstaðan verður þá sú, að það verða verðbólgubraskararnir, sem ganga með stóra hlutinn frá borði, en það er útflutningsframleiðslan og fólkið, sem vinnur, sem tapar. Það hefur verið höfuðeinkenni verðbólguþróunarinnar, og það verður áreiðanlega höfuðeinkenni þeirra áhrifa, sem þetta frv. hefur.

Hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar hafa lengi haft á vörunum þau kjörorð, að kauphækkanir væru sjálfsagðar í fullu hófi, þær væru sjálfsagðar, að svo miklu leyti sem þjóðarframleiðslan ykist, og annað því um líkt. En á stjórnartíma núv. hæstv. ríkisstj. hefur reynslan af þessu orðið sú, að þjóðartekjurnar hafa vaxið oft og tíðum meir en í flestum nágrannalöndum okkar, en lækkun hefur orðið svo að segja árlega á raunverulegu kaupgjaldi og launatekjum á hverja tímaeiningu, og aðferðin, sem lengst af hefur verið notuð til að halda í þessu horfinu, hefur verið sú að magna verðbólgu með stjórnaraðgerðum, eins og ég hef áður rakið, og heyja stöðugt stríð við launastéttirnar, og það verður að segjast, að þetta frv. er enn eitt sporið á sömu gömlu, troðnu slóðinni. Þetta er þeim mun hörmulegra sem ríkisstj. átti alveg óvenjulegt tækifæri, sem e.t.v. engin ríkisstj. hefur haft á mörgum undanförnum árum, til þess að stöðva verðbólguna, til áframhaldandi verðstöðvunar, því að það var komin verðstöðvun á í landinu og hefur verið frá því á s.l. vori. Að vísu verður að segja, að það hafa ekki allir verið jafnánægðir með þetta. Braskararnir hérna í Reykjavík, kaupsýslumennirnir, sem hafa grætt á verðbólgunni, þeir sem hafa spekúlerað í fasteignum og lóðum, hafa verið afskaplega óánægðir. Ég heyri, að brúnin hafi létzt á þeim á kaffihúsunum hérna í Reykjavík í morgun og þeir hafi talið, að nú mundu bjartari tímar vera fram undan fyrir þá, og mig undrar það sannarlega ekki.

Nú kunna menn e.t.v. að segja sem svo: Er þetta nú annars ekki allt í lagi með að hleypa verðbólguhjólinu af stað að nýju, fyrst almenningur fær kaupið hækkað með vísitölu? Og ég sé það í því ágæta einkamálgagni hæstv. fjmrh., að það slær fréttinni upp í dag þannig, að með mjög stóru letri er prentað: „3% almenn kauphækkun,“ en með miklu smærra letri: „Söluskatturinn hækkar um 2.5%.“ Það voru að vísu 46%, en það er kannske smávegis ónákvæmni. En það er eðlilegt, að menn spyrji þessarar spurningar, og það er sjálfsagt að reyna að svara henni, eftir því sem maður hefur vitið til.

Ég var að sýna fram á það áðan, hvernig öll kauphækkunin, sem hér er um að ræða, og þó raunverulega miklu stærri fjárhæðir lenda á útflutningsframleiðslunni og hvernig möguleikar hennar til þess að standa undir kauphækkununum á næsta vori, þegar samningar renna út, hljóta að rýrna að sama skapi, þ.e.a.s. um a.m.k. sem svarar 20% kauphækkun, og það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að fiskiðnaðurinn í landinu væri fær um að bera 25% kauphækkun, en það er það, sem hæstv. ríkisstj. er að segja með þessum aðgerðum. Nú er í sambandi við þetta nauðsynlegt að hafa í huga, að það hefur lengi verið vitað með fullri vissu, að verkalýðshreyfingin mundi ekki sætta sig við óbreytt kaupgjald lengur en fram á næsta vor, eftir allt það, sem á undan var gengið, og það var m.a. einróma álít þings Alþýðusambands Íslands, sem háð var hér í fyrra mánuði í Reykjavík, ekki aðeins Alþb.-manna og framsóknarmanna, stjórnarandstæðinga, heldur bókstaflega allra, sem þetta þing sátu sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í landinu, líka þeirra, sem fylgdu núv. stjórnarháttum, að útilokað væri annað en að á næsta vori yrðu að koma til verulegar kauphækkanir eftir ekki aðeins alla þá stöðvun raunverulegra kauphækkana, sem hefur staðið núna í sex ár, heldur verulega rýrnun kaupgjalds fyrir hverja tímaeiningu á þessu tímabili. Og menn vonuðu að sjálfsögðu, að í kjölfar samkomulagsins, sem gert var í vor, væri nú skapaður grundvöllur fyrir raunhæfari kjarabótum en áður. Ég hygg jafnvel, að það hafi margir verið farnir að ímynda sér það, að nú væru stóru stökkin í kaupgjaldsmálunum liðin tíð, nú væri hægt að sætta sig við kannske allt aðra hluti en við höfum oft orðið að gera í verkalýðshreyfingunni í sambandi við kaupgjaldsmál, vegna þess að það, sem fengist, væri þá öruggt, vegna þess að ríkisstj. hefði fullan skilning á því, að kjarabætur yrðu að vera raunhæfar, það mætti ekki taka þær aftur um leið.

Ég held, að það sé ekki hægt að ganga fram hjá þessu viðhorfi verkalýðshreyfingarinnar, þegar þessir hlutir eru athugaðir. Reikningurinn fyrir síðustu ár var ekki gerður upp á s.l. vori. Hann stendur enn þá óuppgerður. Og það kann auðvitað að skipta ákaflega miklu, hvað verkalýðshreyfingin sættir sig við í sambandi við það reikningsuppgjör, hvernig hæstv. ríkisstj. hagar sér í efnahagsmálunum, hvernig hún hagar sér í þeim málum, sem varða mestu verkalýðshreyfinguna, og hérna höfum við, hvernig spilin eru lögð á borðið. Eftir góðærin, sem að undanförnu hafa verið fyrir fiskiðnaðinn, fyrir útgerðina í landinu, er raunverulega lögð á þann atvinnuveginn, sem fyrst og fremst er miðað við, þegar um kaupið er samið, þá er lögð á hann sem svarar 20—25% kauphækkun. Síðan á að segja við verkalýðshreyfinguna og útflutningsframleiðsluna: Þið skuluð bara prófa að semja, þið skuluð prófa að semja um kauphækkanir. — Við þurfum svo sem ekki að efast um svörin, eftir að þessi skilyrði hafa verið sköpuð af hæstv. ríkisstj. Og það þarf mikla bjartsýni til að halda, að svona vinnubrögð eins og hér hafa verið viðhöfð kunni að stýra góðri lukku í sambandi við þá samninga, sem þá eiga að fara fram.

Það er þess vegna gráthlægilegt, þegar einkamálgagn hæstv. fjmrh. talar um almenna kauphækkun í sambandi við þetta frv., því að þetta frv. er frv. um beina kauplækkun, beina stórfellda kauplækkun. Það eru þakkirnar, sem verkalýðshreyfingin fær fyrir þann ársfrest, sem hún gaf hæstv. ríkisstj. til þess að vera viðbúin því að mæta kröfum hennar um raunhæfar og verulegar kjarabætur eftir árið. Það er jólagjöfin, sem verkalýðshreyfingin og verkalýðurinn í landinu fær fyrir samningsvilja sinn.

Menn spyrja auðvitað: Er þetta virkilega nauðsynlegt? Er virkilega nauðsynlegt að leggja á milli 300 og 400 millj. kr. í nýjum álögum auk þess hálfa milljarðs, sem gert var ráð fyrir í fjárlfrv. að rekstrarútgjöld ríkissjóðs ykjust? Er það virkilega svo, að það sé ekki hægt að stanza ofurlítið við, þegar tollar og skattar eru orðnir nærri því 3 milljarðar og hafa hækkað úr rúmum 700 millj. kr. á sex árum? Er það virkilega svo, að byrðarnar, sem almenningur í landinu verður að bera, séu ekki orðnar nógu þungar? Það er sjálfsagt að athuga þetta mál svolítið betur.

Ef litið er á afkomu ríkissjóðs á undanförnum árum, hefur ár hvert, sem ríkisreikningar liggja fyrir um, verið stórkostlegur rekstrarog greiðsluafgangur á undanförnum árum. Það hefur alltaf verið sagt í sambandi við fjárl. og yfirleitt í sambandi við umr. um efnahagsmál hér á hv. Alþingi, að allar tekjur væru áætlaðar eins háar og nokkrar líkur væru til, það væri spennt til þess ýtrasta. En niðurstaðan hefur orðið m.a. sú, að 1963 er rekstrarafgangur ríkissjóðs 339 millj. og í greiðsluafgang er talið að hafi orðið á því ári um 170 millj. kr. Ég spyr nú í minni fáfræði, ég veit að vísu, að einhverju af þessu hefur þegar verið ráðstafað, en ég hef ekki enn þá séð lagt fram hér á hv. Alþingi greinargóða skýrslu um það, hvernig þessu hefur verið ráðstafað og að hve miklu leyti þessu er ráðstafað. Ég vil fá að vita það. Og hvað þá um greiðsluafgang fyrri ára? Hvað hefur verið gert af því fé, sem sannanlega hefur verið ofheimt umfram þarfir af almenningi? Voru ekki einhvern tíma lagðar 100 millj. í sérstaka bók, til þess að hæstv. fjmrh. gæti montað af því, að í fyrsta skipti í sögunni legði nú ríkissjóður inn á einhverja fasta bók? Kannske hann hafi lagt það inn á 10 ára bók? Ég veit það ekki, ég vil fá að vita það líka.

Svo er það afkoman 1964. Það furðulega hefur skeð, að fjárlfrv. er nú senn komið til 3. umr, og bráðabirgðayfirlit yfir afkomu ársins 1964 til þessa hefur ekki enn þá verið lagt fyrir fjvn. Það hefur verið tekið svo í það, að hún geti kannske fengið þráðum að sjá það, en það hefur ekki mátt ske t.d. áður en 2. umr. fjárl. fór fram. Það verður að vísu að segjast, að hæstv. ráðh. hefur kannske haft sínar afsakanir, hann var úti í löndum, aldrei þessu vant, og var sagt hér í þinginu, að hann væri að kynna sér, hvar helzt væri hægt að leita nýrra skattstofna, en hann virðist ekki hafa lært mikið í ferðinni. Að vísu minnir mig, að ég sæi í einhverju blaði, að það væri einhver ný tegund af skatti, sem hefði einhvers staðar skotið upp kollinum og mundi ekki vera afleit. En niðurstaðan var sú, að ekkert af þeim lærdómi, sem honum hlotnaðist í þessari ferð, var hægt að nota í sambandi við vandamálin núna. Þannig kann hæstv. ráðh. í sinni námsferð að hafa tafizt frá því að geta gefið Alþingi þessar upplýsingar, og þykir mér, að ekki sé seinna vænna, að þessar upplýsingar séu gefnar, ekki bara í ágizkunarformi frá honum, eins og í hans frumræðu hér áðan, heldur í greinargóðri og skjalfestri skýrslu.

En svo mikið er víst, að ég á afskaplega bágt með að trúa því, að afkoman á árinu 1964 hafi orðið mjög slæm og það svo slæm eins og hæstv. ráðh. var að láta liggja hér að, að það yrði líklega, sagði hann, greiðsluhalli, ef ríkissjóður væri látinn bera þær byrðar, sem hæstv. ríkisstj. skuldbatt sig í sambandi við samningana í vor að yrðu ekki lagðar á og átti að greiða af tekjum ársins, sem nú er að líða.

Ég á ákaflega torvelt með að trúa þessu. Það hefur nefnilega engin „katastrófa“ skeð í okkar efnahagsmálum á þessu ári. Það hefur verið uppgripaár til lands og sjávar. Innflutningurinn hefur vaxið stórkostlega. Útflutningurinn hefur vaxið enn þá meira. Það er vitað, að útflutningurinn til þessa hefur vaxið líklega um 800 millj. kr., og það er ákaflega ólíklegt, að þess sjái ekki einhvern stað í innflutningnum og þeim tekjum, sem af honum verða hafðar. Sem sagt, öll viðskipti þjóðarinnar út á við hafa vaxið stórkostlega. Ég er ekkert að fullyrða um, að það hafi skeikað 28%, eins og það gerði annaðhvort árið 1962 eða 1963, frá ágizkunum hæstv. ráðh., þegar hann var að láta búa til fjárl., en mér þykir ákaflega sennilegt, að það hafi allar fyllstu vonir staðizt í sambandi við þetta ár. Ég a.m.k. trúi ekki öðru, fyrr en ég fæ skjölin á borðið um það.

Ekki er undan því að kvarta t.d. , að tekjuskatturinn hafi brugðizt. Ég hef upplýsingar um það frá mönnum í þeirri n., sem unnu að athugun á tekjuskattinum, út af þeirri miklu óánægju, sem varð út af álagningunni síðustu, að álagður tekjuskattur hafi orðið 47 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárl. þessa árs, og eitthvað sýnist manni nú, að hægt væri að gera við þá upphæð, sérstaklega ef aðrir tekjustofnar hafa gefizt álíka vel á árinu.

En sem sagt, mér finnst það ekki mögulegt fyrir hæstv. fjmrh. að draga það öllu lengur að gefa hv. Álþingi yfirlit um afkomuna, — ég tala nú ekki um fjvn., því að það er náttúrlega reginhneyksli, að hv. fjvn. skuli hafa þurft að vinna að afgreiðslu fjárl. án þess að hafa nokkurt bráðabirgðayfirlit yfir afkomu ársins núna og samanburð við fyrri ár.

Það skyldi nú aldrei vera, að það, sem ofheimt hefur verið af almenningi á undanförnum árum og e.t.v. hefur sloppið undan eyðslusemi hæstv. fjmrh., hossaði nokkuð upp í það að jafna metin, sem hér er um að ræða? Við skulum gera okkur grein fyrir því, að hér er ekki um sjálfa brúttóupphæðina að ræða, þar sem a.m.k. 42 millj. ganga í sjálfar sig, þannig að það er þá ekki um að ræða raunverulega tekjuþörf nema upp á 250 millj. En um þetta verður að sjálfsögðu ekki fullyrt, fyrr en eðlilegar og fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir.

En um fjármálastefnu hæstv. núv. fjmrh. er annars það að segja, að maður hlýtur oft og tíðum að spyrja: Er það meiningin, að það eigi að reka ríkissjóðinn sem ófyrirleitið gróðafyrirtæki, sem einskis svífst? Eða á að gæta ráðdeildar og forðast að seilast dýpra til skattheimtu en brýna nauðsyn ber til? Það getur vel verið, að það þyki góð latína einhvers staðar úti í löndum, e.t.v. við talsvert önnur skilyrði en hér eru, að hafa mikinn greiðsluafgang, þ.e.a.s. heimta meira í sköttum en þörf er á á hverjum tíma. En svo mikið er víst, að þessi kenning hefur reynzt illa hér á landi. Hún hefur reynzt mjög illa, og ég hygg, að hún hljóti að gera það alls staðar, þar sem sköttum er þannig fyrir komið, að meginþungi þeirra hvílir á lágtekjufólki og öllum almenningi. En það er rétt, þessari kenningu er haldið fram mjög fast af ýmsum þeim erlendu aðilum, sem eru stöðugt að skipta sér af íslenzkum efnahagsmálum og gefa út um þau álít, ef þá ekki bara hrein fyrirmæli til þeirrar ríkisstj., sem nú situr.

Hér hefur verið rætt um það, að það kynni nú einnig að vera eins og undanfarin ár, að tekjuáætlun væri of lág. Um það skal ég ekki fullyrða. En það er ákaflega sennilegt, að svipaður háttur hafi verið hafður á um þá áætlun og undanfarin ár og að upplýsingar, sem um þetta eru gefnar, eða ágizkanir séu ekki miklu áreiðanlegri en þær reyndust á undanförnum árum.

Það er sem sagt engan veginn sannað mál og reyndar ólíklegt, að nokkurrar fjáröflunar sé þörf í sambandi við fyrirhuguð fjárlög. Ef samt sem áður er óhjákvæmilegt að jafna metin, ber auðvitað fyrst að leita allra úrræða

til sparnaðar, og það má vel vera, að það sé nauðsynlegt.

Nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. Ég minnist þess, að það var á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, að mig minnir, þá hélt hann útvarpsræðu um sparnað í ríkisrekstri, og ég man ekki betur en að hann nefndi þá 29 liði, sem mætti spara mjög mikið á. Þá voru fjárl. ekki nema milli 600 og 700 millj., og þó átti að vera hægt að spara stórkostlegar upphæðir á ekki mikið undir 30 liðum. Á ekki hæstv. fjmrh. þessa upptalningu sína, og vill hann ekki gera grein fyrir því, hvernig honum hefur gengið að spara á þessum liðum? Ég held, að hæstv. ráðherra hefði mjög gott af að fara yfir þessa liði og sýna, hvernig honum hefur gengið að lifa eftir sínum eigin heilræðum.

En hvað sem því líður, þá er það a.m.k. alveg öruggt, að hækkun fjárlaga um fast að einum milljarð á einu ári, án þess að um nokkrar teljandi kauphækkanir hafi verið að ræða, er algerlega óeðlileg, og getur tæplega verið annað en slíkt hljóti að hefna sín. Það er ekkert eðlilegt við slíka þróun málanna. Og ég kem aftur að því, að verðstöðvunin á s.l. vori gerði mögulegt að stöðva eða a.m.k. að hægja mikið á ferðinni um hækkanir í ríkisrekstrinum. En niðurstaðan er sú, að hraðinn í hækkununum hefur aldrei verið slíkur, aldrei verið svo ofsalegur sem nú.

Ég held líka, að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að slík stöðvun eða a.m.k. að hægt væri á ferðinni, var óhjákvæmileg forsenda fyrir því, að um áframhaldandi verðstöðvun gæti verið að ræða. Og ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það, að ef þeirri stefnu hefði verið framfylgt af heilindum, þ.e. einnig stöðvunarstefnu í ríkisrekstrinum, þá hefði almenningur jafnvel sætt sig við nokkru hægari framkvæmdir á ýmsum sviðum og tekið fúslega á sig óþægindi af sparnaðaraðgerðum. En viljinn til þess að beita nokkrum sparnaði hefur reynzt minni en enginn, —óráðsía, fjáraustur og flottræfilsháttur hvert sem litið er.

Hið næsta hæstv. ráðh., sem fyrir þessu standa, er ferðaþeytingur heimshorna á milli, milljóna veizlukostnaður, einkabílstjórar eða einkaþjónar, tugmilljóna bifreiðakostnaður þeirra sjálfra og annarra hærri embættismanna, milljónir í óþarfabyggingar gæðinga stjórnarflokkanna, hv. þm. stjórnarflokkanna alveg sérstaklega. Þannig er ráðdeildin í toppnum, — ráðdeild þeirra, sem ættu að vera til fyrirmyndar öðrum, en ekki viðvörunar. Og svo er að öðru leyti stórfelld þensla ríkisbáknsins, í einstökum tilfellum jafnvel margföldun, eins og t.d. í skattakerfinu á örfáum árum. og óþarfaaustur til þarfs sem óþarfs rekstrar og framkvæmda. Ég held, að í skemmstu máli mætti segja, að hæstv. ríkisstj. hagaði sér í þessum efnum eins og nýríkur braskari.

Það er vissulega óhætt að fullyrða um það, hvernig sem þetta mál er skoðað, að ríkisstj. átti annarra kosta völ en þessara, sem hún hefur valið. En því miður hefur hún ekki valið þann kostinn, sem lakari er af tveimur, heldur þann, sem er lakastur og hættulegastur af mörgum.

Söluskatturinn er áætlaður nú eftir þessa nýjustu 46% hækkun 984.4 millj. kr., eða tæpur milljarður, og svarar til þess að vera um 30 þús. kr., ef því væri jafnað á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Auk þess verður svo almenningur að bera hærri útsvör en nokkurn tíma áður, miðað við það kaup, sem menn hafa, hærri tekjuskatt en nokkru sinni áður, miðað við það kaup, sem menn hafa, og hærri nefskatta en menn hafa nokkurn tíma áður búið við. En þeir hafa hækkað alveg stórkostlega. Ég held mér sé óhætt að segja, að þeir hafi margfaldazt í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar og eru farnir að vera mjög tilfinnanlegur liður í útgjöldum hverrar fjölskyldu.

Þessi upphæð, sem söluskatturinn nú verður, þ.e.a.s. sá parturinn af honum, sem yfirleitt lendir í ríkiskassanum, er orðin hærri en öll fjárlög fram að valdatíma núv. hæstv. ríkisstj. Og ég mundi telja það lágt áætlað, að auka þessa hluta, sem kemur til skila, lægju a.m.k. 2—3 hundruð millj. kr. eftir í vasa innheimtumannanna, eða álíka upphæð og nú á að bæta við, án þess að nokkrar ráðstafanir séu gerðar gegn skattþjófnaði, þeim stórfellda skattþjófnaði, sem allir vita að framinn er í sambandi við þennan skatt.

Það er því sama, hvernig á er litið. Þessi hækkun, sem hér er um að ræða, er óþörf. En hún er jafnframt sú óheppilegasta og fyrir almenning sú óhagstæðasta og fyrir efnahagsþróunina hættulegasta af öllum hugsanlegum leiðum, sem til voru.

Þegar núverandi hæstv. ríkisstj. stóð fyrir því í ársbyrjun 1960 að innleiða almennan 3% söluskatt á allar nauðþurftir almennings, þ. á m. ýmsar þær vörur, sem aldrei áður hafa verið skattlagðar í allri sögu þjóðarinnar frá upphafi byggðar, þá spáði bæði ég því hér og ýmsir aðrir þingmenn Alþb., að verið væri að stíga risaskref til verðbólguþróunar og það væri líka verið að stíga skref til styrjaldar við verkalýðssamtökin. Reynslan sannaði, að við vorum sannspáir. Afleiðingarnar urðu eins og við sögðum fyrir: versnandi lífskjör, stéttastríð, ófriður á vinnumarkaðinum, öryggisleysi fyrir aðalatvinnuvegina og fyrir allan almenning. Hér er nú í þriðja sinn vegið í þennan sama knérunn og áður. Verðbólgan er mögnuð, og stríðshanzkanum er kastað til voldugustu almannasamtakanna í landinu, rift þeim grundvelli, sem lagður hafði verið til vinnufriðar og samstarfs milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar. Við Alþb.-menn vörum enn þá við afleiðingunum. Og við erum fullvissir um, að við gerum það sem talsmenn verkalýðshreyfingarinnar allrar, ekki aðeins þeirra meðlima í verkalýðshreyfingunni, sem kjósa með okkur í almennum kosningum, heldur líka í nafni þeirra, sem fylgja núv. stjórnarflokkum. Við skorum þess vegna á hæstv. ríkisstj. að draga þetta frv. til baka og fresta afgreiðslu fjárl. þangað til eftir nýár, hefja þá þegar viðræður við verkalýðshreyfinguna og við stjórnarandstöðuna um friðsamlega lausn vandamálanna, freista þess að treysta grundvöll að vinnufriði í landinu og grundvöll að eðlilegum og raunhæfum kjarabótum fyrir alþýðu manna. Af slíkum vinnubrögðum mundi hæstv. ríkisstj. hljóta verðskuldaðan sóma og verðskuldað traust.

Það fer að vísu ekkert á milli mála; að hæstv. ríkisstj. getur þvingað þetta frv. nú fram fyrir jólin. Hún hefur aðstöðuna til þess og valdið, sem til þess þarf. En ég held, að það væri hollt fyrir hana að muna þá staðreynd, sem hæstv. forsrh. minnti reyndar á í ræðu hér í gærkvöld um allt annað mál, að það eru til fleiri aðilar en hún, sem lögum og rétti samkv. hafa mikið vald í þjóðfélaginu og rétt til þess að beita því, og til þess beri að taka tillit. Það er sannarlega hörmulegt til þess að vita, að hæstv. ríkisstj. virðist annaðhvort hafa gleymt þessari staðreynd, þegar hún ákvað að grípa til þeirra óyndisúrræða, sem hér eru á ferðinni, eða þá að öðrum kosti hún efnir til öngþveitis og ófriðar með ráðnum hug, ráðin í því að reyna enn á ný að knésetja samtök fólksins í landinu þrátt fyrir reynslu sína af fyrri tilraunum í þá átt. Þessu frv. hlýtur að verða mætt af fullri andúð og mótaðgerðum, jafnt af hverjum þeim, sem fæst við heilbrigðan atvinnurekstur í þessu landi, og verkalýðssamtökunum og launþegunum. Hinir einu, sem fagna þessum aðgerðum til þess að setja verðbólguhjólið í gang að nýju, eru spákaupmenn, verðbólgubraskarar og skattþjófar í kaupsýslustétt, sem nú virðast vera orðnir algerlega ofan á að nýju í Sjálfstfl. En illt er að vita til þess að hafa þá ríkisstj. í landi, sem lætur þessa aðila ráða gerðum sínum.