11.02.1965
Neðri deild: 41. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

104. mál, landgræðsla

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Að frv. því, sem hér liggur fyrir um landgræðslu, er alllangur aðdragandi. Árið 1957 var af þáv. ríkisstj. skipuð nefnd til þess að endurskoða þau lög, er gilt hafa um sandgræðslu og heftingu sandfoks. Þessi nefnd skilaði árið eftir frv. til nýrra laga og með nýju nafni í samræmi við efni þess; um heftingu sandfoks og græðslu lands. Síðar, í ársbyrjun 1960, að ég ætla, var þessi sandgræðslunefnd. enn á ný kölluð til starfa af ríkisstj., þeirri sem þá var tekin við, og endurskoðaði hún hið fyrra frv. frá 1957 og gerði á því nokkrar breytingar. Í þriðja sinn var málið, eftir því sem segir í grg. þessa frv., tekið upp til athugunar að fyrirmælum ráðh, hinn 4. júní 1963 og þá skipuð til þess ný nefnd. Og í fjórða sinn var málið enn tekið upp til athugunar í sérstakri stjórnskipaðri n., sem skipuð var hinn 10. júlí 1964, svo sem einnig segir í grg. þessa frv. Á þessu tímabili frá 1958—1964 hefur það frv., sem í öndverðu var samið af sandgræðslunefndinni 1957, verið flutt nokkrum sinnum af einstökum þm. óbreytt eða með nokkrum breytingum, en ekki hlotið afgreiðslu.

Í frv. frá 1957 og þeim frumvörpum, sem á undanförnum árum hafa verið flutt hér á Alþingi, voru tvö meginatriði. Annað meginatriðið var skipulagsbreyting, þ.e.a.s. skipulagsbreyting á sandgræðslunni og víkkun á starfssviði hennar, þannig að auk þess að fást við heftingu sandfoks og græðslu sanda, sem tekið var fram í hinum eldri lögum, skyldi nú einnig unnið að landgræðslu, þ.e.a.s. græðslu landa, sem ekki koma undir hið eldra hugtak um sandgræðslu.

Þetta er annað meginatriðið, sem fólst í frv. frá 1957, en hitt meginatriðið var að afla á sérstakan hátt fjár til hinnar auknu starfsemi, þ.e.a.s. til landgræðslunnar. Og það var gert ráð fyrir því, að þessa fjár yrði aflað þannig, að landgræðslustofnunin fengi í hendur sérstakan tekjustofn. Og auðvitað er það öllum ljóst, að landgræðsla, eins og gert hefur verið ráð fyrir í þessum frv. og einnig er gert ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir, verður ekkí framkvæmd á þann hátt, sem gert er ráð fyrir, nema til komi mikið fjármagn.

Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um annan meginþátt þessara mála, þ.e.a.s. um skipulagsbreytingu á sandgræðslunni og víkkun á starfssviði hennar. Og í samræmi við það efni er gert ráð fyrir, að lögin fái nýtt nafn, þ.e.a.s. heiti lög um landgræðslu. Hins vegar er í þessu frv. ekki fjallað um þann þáttinn, eins og hv. frsm. landbn. tók fram áðan, þ.e.a.s. fjáröflunina.

Á þessu leyfi ég mér að vekja athygli, og ég vil jafnframt segja það, að fyrir þessa starfsemi væri að sjálfsögðu mikið við það unnið, ef takast mætti að lögfesta sérstakan tekjustofn einhvers konar til landgræðslunnar og ekki sízt vegna þess, að þær tekjur, sem þannig fengjust, mundu af sjálfu sér hækka með hækkandi verðlagi og þyrfti þá ekki að sækja undir fjárveitingavald um slíkar hækkanir. En þrátt fyrir það, þó að þetta frv. verði samþ., sem hér liggur fyrir, er auðvitað ekki neitt því til fyrirstöðu, enda sjálfsagt mál, að haldið verði áfram að athuga fjáröflunarmöguleikana.

Þetta mál, landgræðslan, hefur nú, eins og ráða má af því, sem ég sagði hér áðan, hlotið mjög rækilega athugun, og vissulega hafa bæði fróðir menn og áhugamenn fjallað um það í þeim nefndum, sem að því hafa starfað undanfarin ár. Ég tel því, og ég tek það fram af því, að ég hef verið nokkuð riðinn við flutning frv. um þetta mál á undanförnum árum, að telja verði það ávinning, að sett verði nú löggjöf um þennan þátt málsins, enda þótt fjáröflunin bíði, og mun greiða atkv. með þessu frv. En þess er þá að vænta, að hinn þátturinn hljóti einnig sína athugun á sínum tíma.