12.04.1965
Efri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

70. mál, búfjárrækt

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Brtt. þær, sem hér er um að ræða, eru í fyrsta lagi við 4. gr., og sú breyting leiðir beinlínis af því, að við umr. um frv. til jarðræktarl. voru tekin inn ákvæði, sem eru efnislega shlj. þessari brtt., og þess vegna tel ég eðlilegt, að hún verði samþykkt. Aðrar brtt. tel ég ekki veigamiklar við frv. og brtt. við 6. gr. tel ég að sé til bóta. Hún er á þá leið, að álit héraðsráðunautar komi til um það, hvort kjósa skuli kynbótanefndir. Ég tel það til bóta. Aðrar brtt., sem Nd. hefur gert við þetta frv., eru við kaflann um hrossarækt. Ég fyrir mitt leyti mun ekki leggjast á móti því, að þessar till. verði samþykktar, og tel ekki ástæðu til að leggja málið að nýju fyrir landbn., þar sem þessar breytingar voru nokkuð ræddar í n. á fundum og ég hef ástæðu til að ætla, að þar sé ekki andstaða yfirleitt gegn þeim. Þó tel ég þær ekki nauðsynlegar, en get fallizt á eftir atvikum, að frv. verði samþ. hér með þessum breytingum í heild, þar sem nú er áliðið þings og ég tel nauðsynlegt, að málið nái fram að ganga á þessu þingi.