10.04.1965
Efri deild: 66. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

173. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 2 minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það eru fyrst örfá orð vegna ummæla í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., og er þá fyrst að taka þar til, þegar hv. frsm. var að verja mismun á tollum, annars vegar á tollum til þess iðnaðar, sem framleiðir fyrir erlendan markað, og hins vegar tollar á vélar og tæki til þess iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað. Hann sagði í því sambandi, að innflutningstollarnir á iðnaðinn, sem framleiðir fyrir innanlandsneyzluna, væru hugsaðir sem neyzluskattar og þess vegna væru þeir eðlileg fjáröflunarleið og þess vegna væri verjandi að leggja þá á, vegna þess, að mér skildist, að iðnrekendur ættu auðvelt með það að leggja þá á neyzluna, hækka sem sagt verðlagið, þannig yrðu þetta neyzluskattar. Kann að vera, að þetta sé í sumum tilfellum unnt og sjálfsagt nokkuð oft, en ég hygg þó, að á þessu kunni að verða miklir annmarkar, þegar óheft samkeppni kemur til af hálfu erlends iðnvarnings, sem veitt er nærri hömlulaust inn í landið. Ef ekki er þar fyrir hendi nægileg tollvernd, hlýtur svo að fara, að ekki sé mögulegt vegna samkeppnisaðstöðunnar að hækka verðlagið, og mundi þetta þá lenda á atvinnuvegunum alveg á nákvæmlega sama hátt og þessir tollar mundu lenda á þeim, sem reka útflutningsiðnaðinn.

Þá sagði hv. ræðumaður, að nýverið hefðu engin þau skref verið stigin, sem gætu orsakað það, að iðnaðurinn ætti nú frekar í vök að verjast en áður, og það væru aðeins kauphækkanirnar, sem hefðu komið til á undanförnum árum, sem gerðu það að verkum, að iðnaðurinn stæði nú verr að vígi en áður. Ég mun koma að þessu atriði nánar síðar, en ég vil aðeins benda á, að það er auðvitað alveg beint samband á milli þess, hvað hann er fær um að greiða hátt kaupgjald og hvað hann er fær um að færa niður sína vöru, þar er alveg beint samband á milli og þeirrar aðstöðu, sem honum er sköpuð, m.a. aðstöðu, sem mótast af því, hvaða tolla verður að greiða af fjárfestingu iðnaðarins, vélum og tækjum, sem hann þarf á að halda.

Hv. ræðumaður sagði, að það væri ekki unnt að halda fram í þessum málum bæði hagsmunum atvinnurekenda annars vegar og hins vegar neytenda og verkalýðsins. Ég held, að þetta sé mikill misskilningur. Ég held, að þarna geti verið fullkomið samræmi í, og mun ég nánar rekja það síðar.

Þá gerði hann loks að umtalsefni tillögugerðina fyrir 2 árum, sem laut að því, að ég hefði lagt til þá, sem er rétt, að tollar á aðfluttum fatnaði yrðu lækkaðir úr 90% niður í 60%. Ég gæti nú sjálfsagt sagt eins og mikilhæfur stjórnmálamaður gerði stundum hér á hv. Alþ., að ég hef oft skipt um skoðun á skemmri tíma en tveimur árum. En ég hygg líka, að 60% tollur á þessar vörutegundir ætti ekki út af fyrir sig að verða ákaflega hættulegur, þó að sú lækkun hefði átt sér stað, ef fatnaðariðnaðurinn í landinu t.d. byggi við hliðstæð kjör og aðrar atvinnugreinar. En á það hefur verulega skort.

Eins og fram hefur komið, var ekki uppi ágreiningur um það í fjhn., að ákvæði þessa frv. stefndu út af fyrir sig til bóta, svo langt sem þau næðu. Um hitt voru aftur á móti skiptar skoðanir, eins og nál. og brtt. bera með sér, hve miklar breytingar væri nauðsynlegt eða framkvæmanlegt að gera á því takmarkaða sviði tollskrárl., sem þetta frv. fjallar aðallega um. En meginefni frv. er um breytingar á vélakafla tollskrárl., og er yfirleitt gert ráð fyrir lækkun úr 35% í 25% á vélum og tækjum, sem notuð eru í þeim iðnaði, sem framleiðir fyrir innanlandsmarkað, en hins vegar lækkun í 15% og 10% yfirleitt á vélum og tækjum, sem notuð eru í fiskiðnaði og landbúnaði og hafa borið hærri tolla til þessa.

Þær brtt., sem ég flyt við vélakaflann í frv. og í tollskránni, eru fyrst og fremst þær, að dregið verði verulega úr þeirri mismunun, sem frv. gerir ráð fyrir, annars vegar milli innanlandsiðnaðarins og sjávarútvegs, fiskiðnaðar og landbúnaðar hins vegar, og legg ég til, að þær iðnaðarvélar, sem þannig eru settar í 25% tollflokk, verði færðar niður í 15% flokkinn, þ, e. a. s. þar verði látin duga hæstu gjöld, sem lögð eru á vélar og tæki útvegs, fiskiðnaðar og landbúnaðar. Þá legg ég til, að nokkuð af vélum og tækjum til landbúnaðarins verði fært niður í lægsta flokk, sem tæki útvegsins eru yfirleitt í, þ.e.a.s. 4%, í þeim tilvikum, þar sem um er að ræða sambærileg tæki í landbúnaðinum við þau, sem að þessu leyti njóta beztu kjara.

Ég sé, að hv. 1. minni hl. leggur til, að gengið verði allmiklu lengra í þessa átt, þ.e.a.s. meginhluti véla og tækja verði færður niður í 4% flokkinn, og má sjálfsagt færa sterk rök fyrir þeirri tillögugerð, þó að ég hafi tekið þann kost að þessu sinni að fara nokkuð vægara í sakirnar. Yfirleitt verður að telja, að sú fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð að leggja toll á vélar og tæki til þeirrar höfuðatvinnugreinar, sem þjóðin byggir afkomu sína á, sé meira en hæpin í flestum tilfellum, og mun það óvíða tíðkast meðal annarra þjóða að nokkru marki. Út yfir tekur þó að mínu viti, að höfuðatvinnugreinunum sé stórlega mismunað í þessum efnum og miklu þyngri gjöld lögð á eina þeirra en aðra. En þrátt fyrir þá lækkun, sem í þessu frv. er ráðgerð, er slík mismunun gagnvart iðnaðinum aukin frá því, sem er nú. Þessi mismunun gagnvart iðnaðinum er þeim mun háskalegri nú en oftast áður, sem aðstaða hans öll hefur í mörgum greinum farið stórversnandi á síðari árum og þó aldrei meira en á síðasta ári og því ári, sem nú er að líða. Tvö síðustu árin a.m.k. hefur verið um að ræða verulega fækkun í starfsmannahaldi iðnaðarins og í sumum greinum hans mjög mikla. Allmörg iðnfyrirtæki, sérstaklega í fatnaðariðnaði og sumum greinum matvælaframleiðslu, hafa ýmist orðið að hætta starfsemi sinni með öllu eða hafa mjög dregið saman seglin. Nú í vetur hafa tugir iðnfyrirtækja hér í Reykjavík ekki getað staðið í skilum við verkafólk með launagreiðslur, og það mun nú vera orðið aðalstarf stéttarfélags verksmiðjufólksins að standa í innheimtu launa fyrir fólkið. Uppsagnir starfsfólks, jafnvel í tugatali samtímis, eru orðnar daglegt brauð. Þessi þróun málanna er ekkert sérkenni fyrir þann iðnað, sem sumir mundu e. t. v. telja óþarfari en annað eða lítt þarfan. Samdrátturinn nær ekki síður til hinna greinanna, svo sem veiðarfæraiðnaðarins, sem nú virðist bíða dauða síns mitt í viðreisninni, og einnig til gróinna fyrirtækja eins og t.d. Vinnufatagerðar Íslands og enn annarra fyrirtækja, sem byggja að verulegu leyti á innlendu hráefni, svo sem t.d. skógerðar, en í þeirri grein hjarir nú aðeins eitt fyrirtæki og mun þó búa við erfiðan rekstur. Þó að ástandið sé ekki slíkt í öllum greinum iðnaðarins og þau fyrirtæki búi við sæmilegan hag eða jafnvel góðan, sem t.d. njóta náttúrlegrar verndar, sem svo mætti kalla, í þeim tilvikum, sem erlend samkeppni kemur ekki til greina vegna flutningskostnaðar, eða búa

við vernd vegna hamla á samkeppnisinnflutningi enn þá eða njóta mjög fullkominnar tollverndar, held ég, að það sé ekki unnt að láta eins og ekkert sé. Þegar þessi atvinnugrein, sem flestir landsmenn hafa lífsframfæri af, er svo á vegi stödd sem iðnaðurinn er nú að verulegum hluta, þá ber löggjafarvaldinu tafarlaust að leita orsakanna og gera ráðstafanir, sem duga til bjargar.

Ég ætla, að það sé auðsætt, að orsakanna til þeirra erfiðleika, sem ýmsar greinar iðnaðarins þurfa nú við að búa, sé fyrst og fremst að leita í aðgerðum núv. ríkisstj. og þá alveg sérstaklega þeim að opna í sífellt ríkara mæli fyrir hömlulausan innflutning samkeppnisiðnaðar, án þess að gefa iðnaðinum nokkurt svigrúm eða möguleika jafnframt með öðrum ráðstöfunum til þess að standast þá samkeppni, sem af þessu hefur leitt, nema síður hafi verið, því að jafnframt verzlunarfrelsinu svonefnda hafa tollar af innfluttum samkeppnisiðnvarningi í ýmsum tilfellum verið lækkaðir og sú vernd, sem þeir veittu ásamt með takmörkunum á innflutningi, þess vegna minnkað.

Nú er þess mjög að gæta, að mikill hluti íslenzks iðnaðar er vaxinn upp við skilyrði takmarkana á innflutningi og í ýmsum tilfellum hárra verndartolla og rekstur hans hefur auðvitað oft verið miðaður við þau skilyrði og uppbygging hans. Það er þess vegna bersýnilegt; að snöggar stórbreytingar geta reynzt harla örlagaríkar og jafnvel kippt grundvellinum undan mörgum fyrirtækjum, jafnvel þó að þau með nægum tíma og möguleikum til endurskipulagningar og hagræðingar í rekstri gætu reynzt fullkomlega samkeppnisfær við hliðstæð erlend fyrirtæki. Nú er það vafalítið svo, að sumt af þeim smáiðnaði, sem hér hefur verið starfræktur, á vafasaman rétt á sér frá þjóðhagslegu sjónarmiði. En fyllilega verður þó ekki gengið úr skugga um það, hvaða iðngreinar eigi tilverurétt hér, nema þeim hafi verið sköpuð lífsskilyrði til jafns við aðrar atvinnugreinar og möguleikar til þess að skipuleggja rekstur sinn eftir kröfum tímanna. En á þetta hefur mjög skort og skortir enn, og eru fjárfestingarskattarnir, þ.e.a.s. tollar af vélum og tækjum og söluskatturinn af sama, þar eitt gleggsta dæmið. Það mun nú láta nærri, að að undanförnu hafi þessi gjöld numið 40—45%, miðað við innkaupsverð aðkeyptra framleiðslutækja iðnaðarins, meðan hliðstæð sköttun á tækjum til fiskveiða hefur verið í kringum 2% og í kringum 20% á tækjum og vélum til landbúnaðarins. Það hefur verið bent á það og leidd að því sterk rök, m.a. af forsvarsmönnum iðnaðarins, að ef mismununin á þessu sviði væri úr sögunni, gæti iðnaðurinn að óbreyttum öðrum rekstrarskilyrðum hækkað laun til starfsmanna um 10—20%, mismunandi eftir því, hver endingartími tækjunum er ætlaður, og eftir því, hve mikla fjárfestingu þyrfti á hvern starfsmann. Og auðvitað gæti þessi mismunun þá eins komið fram að einhverju leyti, ef um það væri að tefla, í lækkuðu verðlagi. Mér virðist því óvíst, hvort hið opinbera þyrfti nokkru að tapa við slíka breytingu, þar sem auknar tekjur og þar með aukin gjaldheimta vegna atvinnurekstrar eða þá starfsmanna hans kæmi í stað hinnar fyrri skattlagningar.

Margs annars þarf auðvitað að gæta í sambandi við uppbyggingar- og rekstrarskilyrði iðnaðarins og við mat á gildi hans. Þar koma m.a. til lánamálin og fjölmargt fleira, en eitt vil ég þó sérstaklega nefna, sem ég held, að ekki megi gleymast, og það eru möguleikar nýtízkuiðnaðar og þá ekki sízt smáiðnaðar ýmiss konar til þess að nýta vinnuafl, sem ekki mundi notast þjóðfélaginu í neinni annarri atvinnugrein. Þar er því oft um hreinlega fundið fé að ræða fyrir þjóðarheildina. Stöðvun smáiðnaðarins mundi því vafalaust ekki eingöngu þýða minnkaða framleiðslu, heldur beinlínis baka hinu opinbera aukin útgjöld, þar sem fjöldi fólks yrði sviptur atvinnumöguleikum, og er þetta í raun augljósara en mörg orð þurfi um að hafa.

Eins og ég áður sagði, mun það vera harla sjaldgæft, að iðnaðarþjóðir leggi tolla, a.m.k. svo að nokkru nemi, á innflutning véla og tækja eða hráefna til iðnaðarins og nær algilt, að þær vernda auk þess iðnað sinn jafnframt með tollum á fullunninn varning. Hér er því nánast um alíslenzkt fyrirbæri að ræða, sem varla kann góðri lukku að stýra, allra sízt þegar þess er gætt, að iðnvarningi þessara þjóða, sem búa miklu betur að sínum iðnrekstri, er takmarkalaust hleypt inn á okkar þrönga markað.

Mér þykir það líka athyglisvert í þessu sambandi, að í öllum ráðagerðum um stóriðju hér á landi gera talsmenn hennar ráð fyrir því, að allur innflutningur fjárfestingarvara, véla, tækja og byggingarefnis, verði með öllu tollfrjáls, þar sem engum erlendum auðhringum mundi detta í hug að ráðast í slíkan rekstur, ef honum væru búin sömu skilyrði hvað þetta snertir og íslenzkum iðnaði. Og nú þegar hafa verið samþ. hér á hv. Alþ. lög um tollfrelsi fyrirhugaðrar kísilgúrverksmiðju. Ég spyr nú, hvort nokkur sanngirni eða samræmi sé í þeirri stórfelldu mismunun, sem hér er stefnt að, og það mætti líka spyrja, hvort því mundi verða unað, að erlendir aðilar njóti hér annars og meiri réttar en Íslendingar sjálfir.

Með till. mínum er þó ekki gengið lengra til móts við þarfir iðnaðarins en svo, að ég legg til, að tollar á vélum og tækjum verði færðir niður í 15%. eða eins og ég áðan sagði hæsta tollflokk, sem tilsvarandi framleiðslutækjum fiskiðnaðar og landbúnaðar er gerður. Skemmra held ég, að ekki verði með nokkurri sanngirni gengið, enda mundi sú mismunun, sem nú er, aukast að öðrum kosti.

Auk till. minna varðandi lækkun tolla á iðnaðarvörum og iðnaðarvélum flyt ég svo nokkrar till., sem eru utan þess sviðs, sem markast af þessu frv. Er þar í fyrsta lagi um að ræða nokkra lækkun á nokkrum vörutegundum til bygginga, sem nú bera hærri toll en aðrar sambærilegar efnivörur til húsbygginga, en þær eru nú flestar í 35% tollflokki.

Í öðru lagi flyt ég þær brtt., að felldur verði niður tollur af pappír, bæði til blaðaútgáfu og bókagerðar, en þessar vörur eru nú í 4% tollflokki hvað blaðapappír snertir og pappír að öðru leyti í 30% tollflokki. Mér virðist harla óeðlilegt, að blaðaútgáfa sé skattlögð hér á landi, á sama tíma sem um það er rætt af ráðamönnum á öðrum Norðurlöndum að styrkja dagblaðaútgáfu með stórum fjárframlögum af opinberu fé. Er líka öllum kunnugt, að blaðaútgáfa hér á landi er alls ófær um skattgreiðslur, enda er henni haldið uppi með miklum erfiðleikum og mikilli meðgjöf af hálfu stjórnmálasamtaka og annarra þeirra samtaka, nema þar sem um er að ræða útgáfustarfsemi þeirra aðila, sem aðstöðu sinnar vegna geta skattlagt neytendur almennt stórkostlega óbeint með því að láta þá greiða auglýsingar sínar í hækkuðu vöruverði. Við Íslendingar viljum telja okkur mikli bókmenntaþjóð og ættum því ekki að skattleggja bókagerð okkar með háum pappírstollum. Við ættum þar að láta nægja að skattleggja þá útgáfustarfsemi, sem einhverjum ágóða skilar.

Loks flyt ég 3 brtt. við heimildagr. tollskrárlaganna. Í fyrsta lagi þá, að ríkisstj. verði heimilað að endurgreiða þeim, sem byggja íbúð til eigin þarfa, tolla af aðfluttu byggingarefni. Þetta nái þó aðeins til þeirra, sem byggja íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína í fyrsta skipti á ævinni. Þessa till. flutti ég einnig 1963, þegar tollskráin var til meðferðar. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að fjárfestingarsköttun ríkisins á sviði íbúðabygginga eigi verulegan þátt í hinum óhæfilega háa byggingarkostnaði hér á landi, byggingarkostnaði, sem er miklum mun hærri en t.d. á öðrum Norðurlöndum og er einn allra mikilvirkasti verðbólguhvatinn í þjóðfélaginu. Lækkun tolla á byggingarefni var vafalaust einhver raunhæfasta leiðin til umbóta á þessu sviði, leið, sem hægt er að fara, hvenær sem fjáröflunarsjónarmið ríkisins leyfa. Ég er þeirrar skoðunar, að þá ætti að byrja á því að rétta unga fólkinu, sem er að byggja upp heimili sín í fyrsta skipti, höndina með því að íþyngja því ekki um skör fram með því að skattleggja framtak þess, eins og nú er gert.

Í öðru lagi flyt ég svo þá brtt. við heimildargr, tollskrárinnar, að ríkisstj. verði heimilað að endurgreiða tolla af dráttarbrautum og hlutum til þeirra. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeirri till. hæstv. fjmrh., sem flutt er af meiri hl. fjhn. á sérstöku þskj. og fjallar um heimild til að lækka þessa tolla niður í 10%, en ég álít réttara að hafa heimildina svo rúma, að endurgreiða megi öll gjöld af þessum tækjum. Hér er um að ræða framkvæmdir til grundvallarþjónustu við sjávarútveginn, viðhald skipastólsins, og einnig er hér um að ræða aðstöðu til þess að efla skipasmíðaiðnaðinn í landinu, þ.e.a.s. ný skip. Mér finnst allt mæla með því, að slíkar framkvæmdir séu tollfrjálsar á sama hátt og innflutningur fiskiskipanna sjálfra, því að ella væri hér í raun og veru um öfuga tollvernd að ræða. Rökin fyrir þessari breytingu verða þó enn skýrari, þegar þess er gætt, að flestar þær þjóðir, sem stærstar eru í skipasmíðaiðnaði og munu koma til með að keppa við þann skipasmíðaiðnað, sem nú er að festa hér rætur, styrkja skipasmiðar mjög verulega af almannafé. Má þar t.d. nefna Vestur-Þýzkaland, Frakkland, Holland og — þótt ótrúlegt kunni kannske að þykja — sjálf Bandaríki Norður-Ameríku.

Loks flyt ég þá brtt. við heimildagr., að endurgreiða megi tolla af dísilvélum til rafmagnsframleiðslu. Sú fjáröflunaraðferð ríkisins að tolla innflutning á vélum og tækjum til raforkuframleiðslu er auðvitað harla einkennileg, þegar þess er gætt, að ríkið sjálft er aðaleigandi orkuveranna og jafnframt aðalseljandi raforkunnar. Má í þessu sambandi minna á þann grátbroslega atburð, þegar Sogsvirkjunin var í fjárþröng vegna tollgreiðslu til ríkisins fyrir nokkrum árum og þegar gripið var til þess ráðs, að ríkið gaf út skuldabréf að upphæð 25 millj. kr. til þess að greiða sjálfu sér sömu upphæð í tollum.

Í þessu sambandi má einnig minna á, að svo virðist sem nú eigi með öllu að afnema tolla á aðfluttum vélum, tækjum og efnum til vatnsaflsvirkjana, ef virkjað verður hér fyrir atvinnurekstur erlendra auðhringa, og getur þá tæplega verið hugmyndin, að réttur Íslendinga sjálfra eigi að vera annar og minni í þessu efni. Eins og kunnugt er, er raforkuþörf okkar nú í síauknum mæli fullnægt með rafmagnsaflstöðvum, og virðist með öllu fráleitt að torvelda uppsetningu slíkra stöðva, þar sem þeirra er þörf, með því að leggja háa tolla á innflutning þeirra.

Ég ætla, að af því, sem ég hef nú sagt, sé ljóst, í hverju brtt. mínar felast, og ég legg til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef nú að nokkru lýst. Þar með er þó engan veginn sagt, að ég telji ekki þörf á frekari breytingum á lögum um tollskrá, en stuttur athugunartími í hv. fjhn. hefur ekki leyft þá íhugun, sem þurft hefði til gagngerðrar tillögugerðar um frekari breytingar.