04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

140. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér barst nýlega erindi, dags. 18. febr. 1965, frá heyrnleysingjum, þar sem þess var farið á leit, að breytt yrði umferðarlöggjöfinni og þeim með því gefinn kostur undir vissum kringumstæðum á að geta fengið ökuskírtefni og aka bíl eins og aðrir. Skólastjóri heyrnleysingjaskólans átti tal um þetta mál við mig og það kom í ljós, að í nágrannalöndum okkar er löggjöfin töluvert öðruvísi að þessu leyti en hjá okkur og reynsla annarra landa hefur sýnt, að slys við akstur hjá heyrnarlausu fólki eru töluvert minni, en almennt gengur og gerist. Það er af þessu tilefni, sem þetta frv. er borið fram.

1. gr. felur það í sér að breyta ákvæði umferðarl., þar sem stendur nú, að hlutaðeigandi verði að hafa góða sjón og heyrn, m.ö.o. góða heyrn til þess að mega aka bifreið. Þar skal nú koma: „hafi góða sjón, nægjanlega heyrn og sé að öðru leyti nógu hraustur andlega og líkamlega.“ Þetta er mjög svipað og tilsvarandi ákvæði í nágrannalöndum okkar. Það er hægt að gera vissar varúðarráðstafanir. Í sumum tilfellum geta heyrnartæki gert eitthvert gagn, stundum alls ekki og þá er hægt að gera kröfur til þess, að bílar séu öðruvísi og betur útbúnir með speglum. En almennt er ekki talið, að mjög dauf eða lítil sem engin heyrn sé nokkur hindrun fyrir því, að menn séu eins öruggir í akstri og aðrir.

Ég vildi ekki draga, að þetta mál kæmi fram, enda þótt ég vissi, að umferðarlaganefnd hafði á prjónunum ýmsar aðrar hugmyndir um breytingar á umferðarl. Það gat verið nokkuð mikið í húfi og ástæðulaust að hindra þetta fólk frá því að verða þessa réttar aðnjótandi eins og við hinir. Það fer víst nógu mikils á mis þrátt fyrir það og í sumum tilfellum getur þetta hreinlega verið atvinnuspursmál, t.d. við ýmiss konar akstur, þar sem það kemur ekki að sök, eins og við vöruflutninga og annað slíkt. Ég skrifaði því umferðarlaganefnd og tjáði henni, að ég hefði hug á því að flytja brtt, hér að lútandi við umferðarl. og vildi fá umsögn hennar um það og hún lét mér í té umsögn, þar sem segir, að þetta sé í samræmi, eins og ég sagði áðan, við það, sem gerzt hefur hjá okkar nágrönnum á Norðurlöndum og hún mælir með því, að þessi breyting verði gerð. En þá í leiðinni taldi hún rétt að taka með einn þátt í hugsanlegum breytingum þessara l. í sambandi við tryggingarnar, þó að önnur atriði væru látin bíða og mættu bíða og að sumu leyti nauðsynlegt vegna samræmingar við umferðarlöggjöf nágrannalandanna, sem við fylgjumst með, þó að við höfum ekki verið beinir þátttakendur í því.

Í samræmi við þetta er 2. gr. frv., sem fjallar um vátryggingarnar og miðar að því að breyta upphæðunum. Þar er sagt, að eiganda skráðs vélknúins ökutækis sé skylt að kaupa í vátryggingarfélagi, sem viðurkennt er af dómsmrh. og halda við vátryggingu fyrir ökutæki sitt, sem nemur 500 þús. kr. fyrir reiðhjól með hjálparvél, það var áður 100 þús. kr., 1 millj. fyrir dráttarvél, það var 200 þús. kr., 1 millj. fyrir bifhjól, sem var 200 þús. kr., og 2 millj. fyrir bifreið, sem að hámarki var 500 þús. kr. í sambandi við þessar skyldutryggingar. Þetta er vegna þess, að miðað við verðlagsþróunina hjá okkur hefur gildi vátryggingarfjárhæða rýrnað svo mikið, að skyldutryggingin er ekki talin fullnægjandi, hvorki fyrir eigendur ökutækjanna né þá, sem fyrir tjóninu verða. Að mati umferðarlaganefndar eru þetta eðlilegar breytingar. Þetta leiðir ekki af sér mjög verulegar hækkanir á iðgjöldunum. T.d. í sambandi við skyldutryggingarnar, ef um þær er að ræða, mundi hækkunin verða, miðað við 2 millj. kr., sem hæst er farið í bifreiðunum, úr 500 þús. í 2 millj., þá mundi hækkunin að líkindum verða 10–14%. Ef tekin er dráttarvél, þar sem hámark skylduvátryggingar var 200 þús. kr., var iðgjaldið fyrir þá tryggingu 300 kr., en ef upphæðin er hækkuð, eins og hér er lagt til, í 1 millj., verður iðgjaldshækkunin 150 kr. Nú vil ég ekki segja það, að hv. þm. kunni ekki að hafa eitthvert annað mat á þessum upphæðum og það er sjálfsagt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, taki það til athugunar. En það verður ekki um það deilt, að það ber mikla nauðsyn til að breyta þessum upphæðum og ef menn á annað borð eru á það sáttir, þyrfti helzt þetta mál að ná fram að ganga, þannig að það gæti orðið að lögum fyrir næsta tryggingatímabil, sem hefst 1. maí. Það kemur til athugunar allt undir meðferð málsins.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi vænta þess, að málið gæti samt sem áður fengið góða afgreiðslu og skjótan byr og vildi leyfa mér að leggja til að, að lokinni þessari umr, verði málinu vísað til 2. umr. og allshn.