18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Frsm. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal nú verða mjög stuttorður, enda færist nú mjög í samkomulagsátt með okkur hv. 8. þm. Reykv. og mér. Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að hann teldi, að engin ástæða væri til þess að væna dómstóla á vesturlöndum um hlutdrægni gagnvart útlendingum. Þá erum við sammála um það. Og þá vona ég, að hann verði mér sammála um, að það sé engin þörf á því að taka þau mál, sem hér er um að tefla, undan íslenzkum dómstólum, þeir útlendingar, sem þar eiga hlut að máli, fái alveg nægilegt öryggi með því að sækja sín mál fyrir íslenzkum dómstólum, ef til kæmi. Að vísu tók hann þetta svolítið aftur í öðru orðinu, að mér skildist, eða hafði nokkurn fyrirvara á, því að hann kom að því, að í raun og veru yrði það alltaf dýrara og óhagstæðara að sækja mál fyrir útlendum dómstóli. Þar er ég honum aftur líka hjartanlega sammála. Það er einmitt ein af ástæðunum fyrir því, að ég er andvígur þessum gerðardómsákvæðum í fyrirhuguðum álsamningi, því að vitaskuld verður það miklu dýrara og að ég ætla á allan hátt erfiðara fyrir Ísland að ná rétti sínum með því móti, sem gert er ráð fyrir, að ætla útlendum dómstóli, sem enga þekkingu hefur á íslenzkum lögum, samt að dæma eftir íslenzkum lögum. Það er svo sem annað að leggja það undir alþjóðadóm, hvort farið væri eftir þjóðréttarreglum. Þjóðréttarreglurnar eiga alþjóðadómstólar að þekkja, en þeir eiga ekki að þekkja lög í einstöku landi og hafa enga sérstaka þekkingu á því.

Og svo fannst mér það færast líka nokkuð í samkomulagsáttina með okkur um olíusamninginn, ekki þó alveg. En við skulum nú segja, að það væri ekki um olíu að tefla, ekki viðskipti við Rússland að ræða. Við skulum segja, að það hafi verið keypt timbur í Finnlandi. Hvaða dómstóll mundi hafa dæmt um þau viðskipti eða í deilum, sem af þeim hefðu risið? Og ef það stæði nú svoleiðis á í Rússlandi, að það væri ekki ríkið, sem í raun og veru er aðili að þessum samningum, heldur einhver einkaaðili þar í landi, sem hefði selt olíuna, við hefðum keypt olíu frá Rússlandi af einkaaðila, hvaða dómstólar skyldu hafa átt að fjalla um það mál, sem út af þeirri sölu hefði risið, ef ekkert hefði verið um það samið? Vill ekki hv. þm. hugleiða það? Það skyldu þó aldrei hafa verið rússneskir dómstólar? Við getum snúið blaðinu við. Ef við seldum síld héðan til Svía og ekkert væri samið um það og Svíar teldu síldarsaltandann hér vanefna sínar skyldur, hvaða dómstóll ætli dæmdi í því máli? Ætli það yrði ekki íslenzkur dómstóll? Margt getur komið til greina í þessu sambandi og mörg frávik, en ég hugsa, að þetta mundu vera aðalreglurnar. Það er því kannske ekki alveg eins mikil goðgá og menn eru að halda fram, að það hafi verið samið um gerðardómsákvæði í þessum rússnesku olíuviðskiptasamningum.

Við erum sammála um það, að Efnahagsbandalagið sé ekki sambærilegt á neinn hátt við þennan álsamning, sem hér liggur fyrir. Það er auðvitað alveg rétt, eins og hv. 8. þm. Reykv. benti á, að efnahagsbandalagssamningurinn er miklu víðtækari að því leyti til, að hann gerir ráð fyrir, að löggjafarvaldi í vissum málum sé einnig afsalað í hendur þeirra yfirríkjastofnana, sem þar er um að tefla. En nú er það svo, að dómsvald og löggjafarvald er hvort tveggja þættir ríkisvaldsins. Með álsamningnum er fallizt á að afsala dómsvaldinu í vissum greinum í hendur alþjóðadómstóla. Hvað mundu menn segja um það, ef samningur yrði gerður við einkafyrirtæki um það að afsala löggjafarvaldinu í tilteknum greinum í samningum við einkafyrirtæki? Nú held ég því fram, að dómsvaldið sé síður en svo veigaminni eða lítilvægari þáttur í ríkisvaldinu en löggjafarvaldið, þó að löggjafarvaldið sé að vísu fyrirferðarmeira. En sá einstaklingur, sem þarf að sækja sinn rétt, veit það og skilur, hve dómsvaldið er þýðingarmikið.

Það, sem ég vildi segja, er þetta, að þegar og úr því að dómsvaldinu er að einhverju leyti afsalað, er fordæmið skapað. Þá má alveg eins fara að með einhvern þátt löggjafarvaldsins löggjafarvaldið í einstökum málum. Ég geri ráð fyrir því, að ef hv. 8. þm. Reykv. vildi velta því fyrir sér, mundi honum finnast það nokkuð fjarstætt. En í raun og veru er enginn eðlismunur á þessu. Honum mundi finnast það fjarstætt, jafnvel þó að löggjafarvaldið ætti í þessu tilfellí að færast í hendur einhverrar alþjóðlegrar stofnunar.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar á þessu stigi.