22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

72. mál, hægri handar umferð

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal fúslega játa, að mat mitt og viðhorf til þessa máls er láust við að vera byggt á sérfræðilegri skoðun. Ég gladdist fremur en hitt yfir þeim ummælum og þeirri hógværð, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. og hann viðhafði, þegar hann lagði málið fyrir þessa hv. d. Hann sagði á þá leið, ef ég man rétt, að hann hefði enga ákveðna skoðun á málinu, og að sjálfsögðu má þá bæta við: enga pólitíska skoðun. Ég skildi það svo, að hæstv. ráðh. legði málið fyrir án persónulegs mats á því, en meira með tilliti til embættisskyldu sinnar að uppfylla þá ósk, sem komið hafði fram á sínum tíma hér á hv. Alþ., að málið skyldi eftir ákveðna athugun vera lagt fyrir.

Fyrir mér sem öðrum hv. þm. vakir það eitt í þessu máli að reyna að mynda sér raunsæja skoðun á því og reyna að meta þau sjónarmið, sem fram hafa verið sett, en það má segja um þetta eins og fleiri mál, að sitt sýnist hverjum og misjafnar verða niðurstöðurnar, þegar til á að taka. Má vera, að þeir, sem hafa t.d. ákveðin sjónarmið og ákveðna skoðun í málinu, hafi átt auðveldara að undirbyggja hana með meiri athugun og lengri og hafa því e.t.v. meiri tilhneigingu til að reyna að láta sín sjónarmið ráða við afgreiðslu málsins.

Það verður tæplega sagt, að hinir ágætu menn, sem samið hafa þetta frv. fyrir hæstv. ríkisstj., reyni í þeirri grg., sem frv. fylgir, að hafa ákveðin og einhuga sjónarmið til framdráttar málinu, þótt vissulega komi fram á ýmsa lund, að þeir hallast frekar að því, að þetta frv. verði samþ. Það er sagt í grg. frv., að hægri handar akstur tíðkist víða um álfur og þ. á m. mjög um meginland Evrópu, og í því sambandi vakin athygli á þeirri slysahættu; sem Íslendingum kann að vera búin á ferðalögum í eigin bílum og undir áhrifum af vinstri handar akstri hér heima, og þess vegna geti þeir e.t.v. verið hættulegir bæði sér og öðrum í umferðinni í öðrum löndum. Á það finnst mér nú samt eiga að líta, fyrst um sinn a.m.k. og raunar til langframa, hver umferðarvelferð þjóðarinnar er í þessu máli heima í hennar eigin landi, því að þrátt fyrir vaxandi ferðamennsku er öllum vitanlegt, að mestur hluti þjóðarinnar fer sjaldan eða aldrei til annarra landa og ferðamenn héðan njóta oftar en hitt leiðsögu og aksturshæfni bílstjóra hlutaðeigandi þjóða, þegar um landferðalög er að ræða erlendis. Það virðist því meira en hæpið að ætla sér að láta þá íslenzku borgara, sem sífellt eru á ferðaflakki í öðrum löndum í eigin bílum og sjaldan eru jafnvel heima, nema þegar þeir verða veðurtepptir, ráða ökustefnunni hér heima.

N. bendir réttilega á aukin umferðarvandamál í heiminum sökum vaxandi bílaumferðar og að ýmist er ráðandi hægri eða vinstri handar akstur. Í því sambandi verður mér á að leiða hugann að þeirri staðreynd, að hundruð millj. á jörðinni stjórna bílum sínum til sömu handar og við Íslendingar, og við getum lítil áhrif haft í þessu efni, þótt breytt væri um akstursstefnu hér. Ég sé ekki heldur, að í þessu máli sé hægt að taka tillit til, þótt hæstv. ríkisstj. eigi von á vænum hægri handar hóp erlendra manna til að hjálpa okkur til að koma hér upp alúminíumvinnslu, og ekki heldur, þótt ekki linni umferðinni um landið af hinni ágætu herverndarþjóð. Þessir ágætu verndarar okkar virðast þegar hafa sætt sig við vinstri handar umferð hér, og ekki er ástæða til, að þeir beygi sig ekki áfram undir þá venju eins og verið hefur. Það virðist því ástæðulaust að óttast íhlutun annarra þjóða í málinu eða að þjóðin eða hæstv. ríkisstj. verði ekki jafnvel metin á alþjóðavettvangi eftir sem áður, þótt við látum kyrrt liggja um vinstri handar umferð.

Þetta mál virðist ekki heldur vera neitt sérstaklega aðkallandi eða alvarlegt, þar sem viðurkennt er af fróðum mönnum, að báðar akstursaðferðirnar séu jafngóðar, þ.e. vinstri og hægri. Einnig er á það að líta, að við höfum ekki við sams konar erfiði að stríða og þær Evrópuþjóðir, sem eiga saman landamæri. Það liggur þar eðlilega beinast við, að menn, sem aka á milli landa, geri það í sínum eigin bílum. Í slíkum tilfellum getur það valdið nokkrum erfiðleikum og áhættu, ef hlutaðeigandi bílstjóri þarf að breyta akstursvenju, sökum þess að hann er allt í einu kominn yfir strikið á veginum, kominn inn í annað ríki. Við Íslendingar höfum ekki við slíkar aðstæður að búa. Það er, eins og allir vita, hafið, sem afmarkar Ísland, en ekki tilbúið strik á einhverjum veginum. Breytta akstursaðferð ber því ekki eins skyndilega að hér eins og í mörgum öðrum löndum. Hér ekur enginn bíl sínum beint að eða frá íslenzkri grund, og slíkt er vitanlega vinningur í þessu efni.

Umferðarnefnd sú, sem undirbúið hefur þetta frv., segir, að þess muni engin dæmi vera, að þjóð hafi breytt umferðarreglum sínum frá hægri til vinstri. Ég tel, að slíkt séu reyndar engin rök fyrir málinu, og flestir munu raunar kjósa að vera í því efni þar sem þeir eru komnir, m.a. af því, að það viðurkenna allir, að aukin slysahætta stafar af breyttri akstursaðferð. Hins vegar hefur þessi nefnd, sem fjallaði um málið upphaflega, eftir einhverjum sérfræðingi í umferðarmálum, að líkur séu fyrir því, að árekstrum og öðrum bílslysum ætti að fækka eitthvað, ef horfið væri til hægri handar aksturs. Ég held, að slíkt álit sé vægast sagt vafasamt, enda hefur þessi umferðarlaganefnd viðurkennt, að reynslan sýni, að ekki sé hægt að gera upp á milli hægri og vinstri handar stefnu í þessu efni a.m.k. Ég held líka, að hin tíðu og vaxandi umferðarslys hér á landi stafi og hafi stafað af öðrum ástæðum og sumum augljósum. Virðist þar koma til greina hið sífellda kapphlaup við tímann og um leið lítil tillitssemi við aðra vegfarendur og sömuleiðis komi það til, að það sé ekki meira að segja hirt um sjálfa sig sem bílstjóra og að áberandi sé slíkt, ekki sízt meðal yngra fólks, að það geri sér ekki grein fyrir því, að það borgar sig betur að flýta sér hægt og aka sínum vagni heilum í hlað. Kemur svo einnig til greina ölvun við akstur og það, að mönnum finnst ekki sízt þá, að þeir séu einir í heiminum eða a.m.k. einir í umferðinni og að aðrir skipti þá litlu máli.

Þegar þessar ástæður og margar fleiri koma saman, t.d. á jafnóhæfum fjölmennisumferðarbrautum og eru viða hér í Reykjavík, er tæpast von á góðu. Í þessu efni þurfa önnur bjargráð að mínum dómi og öflugri að koma til en að beina umferðinni frá vinstri til hægri.

Það virðist viðurkennt, að breytingin frá vinstri handar yfir til hægri handar aksturs hljóti að hafa í för með sér augljósa slysahættu og að sú hætta muni meira eða minna loða við, a.m.k. meðan hinir eldri ökuþórar taka þátt í bílaumferðinni. Það mun einnig vera viðurkennt, að hin nauðsynlega breyting, sem gera verður á ökutækjum, ef hverfa ætti til hægri handar aksturs, mun kosta stórfé. Ýmsir nefna til 50–60 millj., aðrir segja, að það sé langt um of lítið og endanlega muni koma á daginn að eyða þurfi fram undir 100 millj. til þess að gera á þessu skipulagsbreytingu og breytingu á ökutækjum og ýmsu öðru slíku. En hvað um það, hér er um að ræða þann kostnað, sem hægt er að mæla í peningum. Hitt er svo eftir ómælt, ef afleiðing þessarar breytingar verður einnig sú, að fleiri mannslíf en áður fara forgörðum og fleiri límlestast af völdum þessarar breytingar.

Það, sem ég hef sagt hér að framan, er byggt meira á þeirri skoðun, sem ég hef myndað mér eftir athugun á áliti mþn., sem fylgir frv., fremur en nál. meiri hl. hv. allshn. Enda virðist nál. á flestan hátt vera sótt í þetta mþn. álít, og ég geri ekki lítið úr því, en mér virðist, að nokkur tilhneiging sé að draga úr því eða láta kyrrt liggja það, sem mþn. segir og skoða má sem mótvægi gegn hægri handar stefnu.

Ég ætla svo lítils háttar að leyfa mér að athuga nál. meiri hl. hv. allshn.

Hv. meiri hl. telur upp allmörg lönd á meginlandi álfunnar, sem tekið hafi upp hægri handar akstur á liðnum árum. Þessar upplýsingar virðast eiga að vera okkur hvatning og til fyrirmyndar að skerast ekki úr leik og gera slíkt hið sama. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að ég get vel fallizt á, að æskilegt sé, að meginlandaþjóðirnar, þar sem óslitnar bílasamgöngur eru á milli og ekkert skilur ríkin nema girðing eða strik á vegi, slíkar þjóðir kjósi að hafa sömu akstursreglur. En slík viðhorf eða aðstæður eru ekki hér á landi. Hér er það hafið, sem skilur okkur frá öðrum ríkjum, eins og öllum er kunnugt. Hv. nefndarhluti telur svo einnig upp þau ríki í Evrópu, þar sem enn ræður vinstri handar stefna eins og hér. Það eru allt eylönd eins og Ísland og þ. á m. ekki smærri ríki en t.d. Bretland og Írland. Hvað veldur því, að mikið og fjölmennt ríki eins og Bretland, verandi í miklu meiri umferðarhringiðu en við, breytir ekki akstursstefnu eins og nágrannaþjóðirnar á meginlandinu? Getur ekki hugsazt, að hér ráði einhverju um, að þeir eru eyþjóð og eiga því ekki sams konar landamæri að öðrum ríkjum og þjóðirnar á meginlandinu.

Hv. meiri hl. allshn. bendir á, að í vöxt fari, að Íslendingar taki með sér bíla sína til ferðalaga út um lönd og álfur. Þetta er sjálfsagt rétt, rétt í bili a.m.k., meðan síldin gefur okkur fullar hendur fjár og við getum í krafti hennar ferðazt og flutt með okkur bíta okkar til annarra landa til hvers konar lúxusferðalags. En hvernig fer fyrir þessum ágætu löndum okkar, þegar við erum orðnir hægri handar þjóð. Þá er ekki sjáanlegt, að við getum komið við í Bretlandi og munum verða að sigla með bíla okkar beint til meginlandsins, þar sem bilarnir koma okkur að öruggu gagni, verða okkur örugg aðstoð í ferð okkar.

Hv. nefndarhluti vekur athygli á því til framdráttar hægri handar akstri, að alþjóðlegar umferðarreglur í lofti og á sjó miðist við hægri handar umferð. Ég hef satt að segja ekki fyrr heyrt, að reglur um umferð í lofti og á sjó eigi eða þurfi að ráða vinstri eða hægri akstri á bílum. Og það mætti þá spyrja, ef svo væri: Hvernig stendur á því, að ein mesta siglingaþjóð veraldar, Bretarnir, virðist ekki vera á sama máli og hv. nefndarmeirihluti?

Það er rétt, eins og ég hef áður vikið að, að við, sem erum á móti breytingunni frá vinstri til hægri handar aksturs, óttumst ekki sízt aukna slysahættu, sem breytingunni hljóti að fylgja. Meiri hl. allshn. segist líka óttast slysahættu hér, en fyrst og fremst af umferð erlendra manna, sem vanir eru hægri handar akstri. Að breyta til um akstursreglu hér vegna umferðar þessara manna virðist mér álíka rök og að við segðum t.d., að við ættum að hverfa yfir í enska tungu til þess að auðvelda þessum mönnum ferðalögin í landinu og greiða fyrir þeim. Hvort tveggja væri vitanlega fullmikil tillitssemi eða undirlægjuháttur eða hvað sem menn vilja kalla slíkt.

Allur málflutningur hv. hægri handar manna ber það með sér, að þeir viðurkenna þó nokkuð aukna slysahættu af breytingunni úr vinstri til hægri. Ég efa ekki, að þeir vilja leggja allt kapp á, að slík hætta reynist sem minnst, og þeir virðast leggja mikið upp úr því, að um leið og ákvörðun er tekin um breytta umferð yfir til hægri, sé jafnframt hafin mikil og allsherjar áróðursherferð fyrir málinu og mönnum kenndir nýir siðir í umferðinni. En mér er spurn: Geta menn treyst góðum og fljótvirkum árangri af slíkri umferðarkennslu fremur en af hinu mikla starfi umferðarlögreglunnar nú, sem hefur þó ekki samtímis við að stríða að kenna nýjar umferðarreglur?

Hægri handar menn benda á, að reynsla þeirra þjóða, sem hafa breytt hjá sér umferðarreglum frá vinstri til hægri, hafi ekki orðið teljandi síys eða annar vandi af völdum breytingarinnar. En er hægt í dag að vitna til slíkrar reynslu, sem jafnvel er fengin fyrir nokkrum áratugum? Bílaumferðin hefur þá hjá öllum þjóðum verið hverfandi miðað við það, sem hún er nú, og flestar eða allar þjóðir hafa þá og síðar haft miklu betra og fullkomnara vegakerfi en við höfum við að búa í dag. Það væri nær sanni að miða við þá reynslu, sem fæst nú hjá þeim þjóðum, sem eru að sögn að breyta til, en sú reynsla liggur eðlilega ekki fyrir í dag.

Hægri handar menn benda á, að erfiðara sé fyrir eldri bílstjóra en þá yngri að aðlaga sig breyttum umferðarreglum, og segja enn fremur, að nú sé skipting ökumanna hagstæð til breytinganna. Ég kann ekki að vefengja þá talnafræði. En bílstjórarnir, þótt mikilvægir séu, eru þó ekki nema annar þátttakandinn í að skapa umferðaröryggið. Hinn aðilinn er hinn gangandi vegfarandi, og ég spyr: hvað um aldursflokk þeirra? Er þá ekki hinn aldni umferðarflokkur vaxandi, sem á erfitt með að aðlaga sig breyttum umferðarreglum?

Ég sé, að 3 af þeim nm., sem mynda meiri hl. allshn.. skrifa undir með fyrirvara, og þar með eru raunar ekki nema 3 af 7 manna allshn., sem leggja til skilyrðislaust, að hægri handar akstur sé upp tekinn. Í nál. þessa nefndarhluta er fram tekið, að tveir af fyrirvaramönnum vilji ekki fallast á að taka kostnaðinn, sem leiðir af breytingunni, yfir á bílaeigendur eða eftir þeim leiðum, sem frv. gerir ráð fyrir. (Forseti: Fundartími er liðinn, og ég vil spyrja ræðumann, hvort hann óski eftir því að ljúka ræðu sinni á skömmum tíma.) — Já, ég er að verða búinn. — Ég geri ekki lítið úr því sjónarmiði að telja, að hið opinbera eigi að bera kostnaðinn af slíku fráhvarfi frá reglum, sem hafa gilt í þessum efnum. En hitt tel ég, að skipti að mínum dómi meginmáli, hvort menn hafa trú á gagnsemi þessara breytinga. Ég hef það ekki og mun því greiða atkv. gegn frv.