28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. minni hl. (Óskar E. Levy):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, sem hér er tekið til frh. 2. umræðu, auk þess sem um getur á þskj. 380.

Samkv. frv. skal lögfesta hægri handar akstur og aðra umferð hér á landi í stað vinstri, sem gilt hefur og gildir. Um þetta mál hafa menn haft skiptar skoðanir, eins og gerist og gengur. Hafa hægri handar menn í allshn. hv. d. birt sín sjónarmið á þskj. 331. Með frv. er birt alllöng greinargerð, og kennir þar ýmissa grasa. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þegar taka skal afstöðu til þess, hvort hafa skuli vinstri eða hægri handar umferð, vaknar fyrst sú spurning, hverjir séu kostir og gallar hvorrar reglunnar um sig. Talið er, að í sjálfu sér hafi hvorug reglan sérstaka kosti umfram hina.“

Hér er mikið sagt af þeim, sem hafa unnið að því, að komið væri á hægri handar umferð hér á landi, en þó hallar réttu máli, vegna þess, að mikill fjöldi fólks telur vinstri handar akstur mun betri og í mörgum tilvikum þann eina framkvæmanlega miðað við visst ástand vegar og tíðarfars, sem við Íslendingar erum svo mjög háðir. Er þar einkum um að ræða, þegar blinda er á, þ.e.a.s. þegar sett hefur niður svo mikinn lognsnjó, að illa sést fyrir vegi eða öðrum vegsummerkjum, einnig þegar svellalög hafa myndazt á hættulegum vegarköflum svo og í mjög dimmum þokum og hríðarveðrum. Undir svona kringumstæðum er eini möguleiki ekils til aksturs sá að hafa opna rúðu eða hurð til að geta á þann hátt fylgzt sem bezt með vegkanti, og það hefur oft gert mönnum kleift að komast leiðar sinnar um langa vegu í áríðandi og lífsnauðsynlegum erindum, já, bókstaflega bjargað mannslífum. Hér hafa vinstri handar stýris bifreiðar hentað vel miðað við vinstri handar akstur. En af þeim er langmest hér á landi, eins og kunnugt er. En er ekki þessi möguleiki eins fyrir hendi, þótt lögleiddur verði hægri handar akstur? munu ef til vill einhverjir spyrja. Jú, en því aðeins að um sé að ræða hægri handar stýris bifreiðar. En nú er okkur sagt af þeim vísu mönnum, sem þetta frv. sömdu, að í framtíðinni verði þær illfáanlegar. Hér er komið að atriði, sem ég held að verði að teljast allveigamikið. Einn stuðningsmanna þessa frv. var ekki lengi að finna lausn á þeim vanda í umferðarmálum, sem mun skapast við þau skilyrði, sem ég hef verið að ræða um, eftir að hægri handar akstur hefur verið lögboðinn. Hann sagði: „Bara að aka á vinstri vegkanti eða vinstri vegarhelmingi.“ Meiri rökþrot er ekki hægt að hugsa sér, að ég ætla, og ég held, að slíkt þurfi ekki svara við.

Hvort betra sé að hafa stýri bifreiðar nær vegmiðju eða vegkanti, er líka umdeilt. Líkur eru til, að mun betra sé að hafa það nær vegkanti, og vil ég í því sambandi minna á, að einn af okkar traustustu og reyndustu lögreglumönnum, Sigurður Ágústsson, sem unnið hefur í lögreglu Reykjavíkur um 20 ára skeið, segir m.a. í Tímanum 8. febr. s.l., með leyfi forseta:

„Að einu leyti er það tvímælalaust betra að hafa stýrið vegjaðars megin. Er maður mætir ökutæki með ljósum fær maður miklu fyrr sjón á veginn fram undan, þegar mótkomandi ljós verkar á augun, það blindar miklu síður en að sitja við hægri stýri.“

Þetta segir hinn reyndi lögreglumaður, og þetta finnst mér auðskilið og mikilsvert atriði. En það er einmitt tíðum svo, að hættuleg bifreiðarslys verða sökum þess, að ökumaður blindast af ljósi, sem kemur á móti. Þetta segir hinn 20 ára reyndi lögreglumaður. Með því að aka vinstra megin blindast maðurinn miklu siður, og þetta hlýtur að teljast ákaflega veigamikið atriði. Hér er verið að mæla eindregið með vinstri handar akstri, þar sem hægri handár stýris bilar verða illfáanlegir að sögn.

Þá hafa meðhaldsmenn þessa frv. haldið því mjög á lofti, hvað framúrakstur yrði miklu auðveldari og að manni skilst slysaminni með hægri handar umferð. Um þetta segir Sigurður Ágústsson lögregluþjónn svo, með leyfi forseta:

„Framúrakstur er fyrirbæri út af fyrir sig, sem krefst sérstakrar aðgæzlu. Gott er að geta séð sem mest af því, sem kemur á móti. En þetta ætti ekki að vera hindrun, því að maður á alls ekki að nálgast ökutæki, sem er á undan, meira en svo, að maður hafi gott útsýni til þess. En munurinn á þessu er ekki nema svo sem einn metri, sem þarf að sveigja nær miðri götunni. Að því leyti tel ég ekki nógu sterk rök með breytingu, sem haldið er fram um þetta,“ segir lögreglumaðurinn. „Aftur er kostur að geta fylgzt nokkuð vel með vinstri kantinum.“ Þetta tel ég allt saman veigamikil rök hjá hinum reynda manni. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég er ekki sérfróður maður í umferðarmálum, en ég tel það litla ábyrgðarsemi af mönnum, sem hafa ekki staðið mikið í slíkum málum, að taka ekki nokkurt tillit til þess, sem slíkir menn segja um þessi mál.

Þá hafa menn gert samskipti þjóða í þessum efnum að mjög miklu trompi og ruglað algerlega saman hinum ólíka aðstöðumun, t.d. okkar sem eyþjóðar annars vegar, sem enga bifreið fáum og enga sendum yfir okkar landamæri, sem ekki eru til, og hins vegar t.d. Svía, sem hafa 5–10 millj. bifreiða umferð um sín landamæri árlega, eftir því sem sagt er. Þetta er svo ólíkt sem hvítt og svart. Aftur á móti eru nokkur dæmi þess, að erlendir menn hafi sótt okkur heim og ekið hér bifreiðum án vandræða, og verður að ætla, að svo hafi einnig verið með þá Íslendinga, sem ekið hafa úti. Um þetta segir Sigurður Ágústsson lögregluþjónn svo, með leyfi forseta:

„Ég sé engan kost við það að hafa hér hægri handar umferð. Ég get ekki séð, að nein knýjandi þörf sé á því. Við erum hér langt frá öðrum löndum. Ég hef prófað sjálfur að aka erlendis. Það eru engir erfiðleikar því samfara. Að vísu þarf ég að beita athyglinni meira. Við höfum reynslu fyrir því,“ segir lögregluþjónninn, „að fjöldi erlendra manna hér á ferð hafa orðið að aka á vinstri brún og engir teljandi erfiðleikar orðið því samfara. Kostnaðarhliðin á breytingu er svo miklu meiri en það, sem mælt getur með breytingu. Sú umferð, sem við höfum, hefur ekki orðið slysavaldur fyrir ókunnuga, en breyting getur hins vegar orðið slysavaldur kunnugum, því að þegar kunnugir hér heima fyrir verða að fara að aka á hinum kantinum, sýna þeir ekki nærri eins mikla aðgætni og ókunnugir gera undir þeim aðstæðum, sem ekki gilda í þeirra heimalandi.“

Þetta eru allt nokkuð miklar upplýsingar, vil ég ætla, sem þessi lögregluþjónn færir okkur, — lögregluþjónn, sem hefur starfað að þessum málum um 20 ára skeið. Og ég held, að ég verði að segja það, að ég hef ekki séð eða heyrt færð fram meiri rök fyrir breytingunni en þessi maður færir okkur gegn breytingunni.

Ég hef nú rætt nokkuð höfuðatriði þessa mikla máls. Ég tel, að hér sé um þrjú höfuðatriði að ræða:

1) Vinstri handar aksturs reglan er betri að mínum dómi og oftar möguleg, en sú hægri ekki möguleg undir vissum skilyrðum, nema þá með hægri handar stýris bifreiðum, sem ekki verða fáanlegar.

2) Kostnaður við breytingu nemur mörgum milljónatugum króna, og virðist það gróflega óhagkvæmt til þess að fá verri akstursreglu. Telja verður hagkvæmara að verja því fjármagni til að bæta ástand veganna, og tvímælalaust mundi það verða vinsælla.

3) Um eitt virðast allir vera sammála, og það er það, að við breytinguna úr vinstri akstri í hægri akstur muni slysahættan aukast. Ég tel, að við höfum ekki efni á því að taka slíka bagga á okkur, og það sé ekki rétt.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þetta frv. verði fellt.