28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þegar umr. um þetta mál var frestað í s.l. viku, hafði hv. 2. þm. Austf. lokið við að tala gegn málinu, og það er alveg sérstaklega eitt atriði í málflutningi hans, sem ég sé ástæðu til að gera athugasemd við, og raunar kom þetta sama fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., sem hér var að ljúka máli sínu. Þeir vitnuðu báðir í grg. með frv. og sögðu sem svo, að það kæmi þar ekki fram, að þeir menn, sem frv. hefðu samið, væru þess sérstaklega fýsandi, að breytt verði um umferðarreglu. Vitnuðu þeir til þess, sem stendur í grg., að hvor reglan um sig geti talizt nokkurn veginn jafngild. Ég vil alveg sérstaklega leiðrétta þennan málflutning, að því er tekur til þeirra manna, sem frv. sömdu.

Höfundar frv. eru þeir menn, sem ég nú skal nefna: Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, Ólafur W. Stefánsson stjórnarráðsfulltrúi, Arinbjörn Kolbeinsson læknir, formaður Félags ísl. bifreiðaeigenda, Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, Eiríkur Ásgeirsson, formaður skipulagsnefndar fólksflutninga, og Theódór B. Líndal prófessor. Allir þessir menn, nema sá síðasttaldi, mættu á fundi allshn., þegar fjallað var um þetta mál, og allir lýstu þeir yfir þeirri eindregnu skoðun sinni, að það væri tímabært og rétt og mætti ekki dragast lengur að taka upp hægri handar umferð hér á landi. Eftir að ég hlustaði á málflutning hv. 2. þm. Austf. í s.l. viku, fann ég ástæðu til þess að kanna þetta hjá þeim eina nm., sem ekki var mættur á fundi allshn., Theódóri B. Líndal, og hann staðfesti í viðtali við mig, að hann væri eindregið sömu skoðunar og hinir nefndarmennirnir. En ástæðan til þess, að það er kannske ekki sérstaklega dregið fram sem skoðun þessara manna í grg. með frv., að það sé tímabært að taka upp hægri handar aksturinn, er einfaldlega sú, að þeim var falið að semja þetta frv. skv. ályktun sjálfs Alþingis. Alþ. samþykkti vorið 1964 að fela ríkisstj. að láta undirbúa frv. um hægri handar umferð hér á landi. Þó að ekki hafi þannig verið í sambandi við þetta mál tilefni fyrir þá menn, sem völdust til þess að semja frv., að láta í ljós skoðun sína á þessu, hafa þeir, að ég hygg, allir eða flestallir látið skoðun sína í ljós áður, eða þegar umferðarl. voru til endurskoðunar frá 1956–1958. Þá sömdu þeir nál., þar sem eindregið var mælt með því, aðhægri handarumferð yrði upp tekin. Þar túlkuðu þeir sína skoðun. Hitt er svo annað mál, að í grg. með þessu frv. draga þeir enga dul á þá kosti, sem kunna að vera því fylgjandi að halda áfram vinstri umferðinni, og þeir vega og meta öll þau atriði, sem borið hefur á góma í þessum umr., og niðurstaða þeirra er sú, að hyggilegast sé fyrir okkur að draga ekki lengur að taka upp hægri handar umferðina.

Eftir að þeir hafa reifað þetta mál mjög ýtarlega frá báðum hliðum, — og það vill segja, að sé hygginna manna háttur, — draga þeir niðurstöðurnar saman í nokkrum atriðum á bls. 8 í grg. með frv., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem rakið hefur verið hér að framan, eru helztu rök fyrir breytingu úr vinstri í hægri handar umferð þessi:

1) Hægri handar umferð er meginreglan í umferð á landi.

2) Mörg lönd með vinstri handar umferð hafa á síðari áratugum skipt í hægri handar umferð.

3) Alþjóðareglur um umferð á sjó og í lofti miðast við hægri handar umferð.

4) Bifreiðar eru yfirleitt framleiddar með stýri vinstra megin og veitir sá búnaður ökumönnum betri yfirsýn og meira öryggi í hægri handar umferð. Eigi eru allar gerðir bifreiða framleiddar þannig, að henti vinstri handar umferð. Í sumum tilvikum eru bifreiðar, er henta vinstri handar umferð, nú þegar dýrari. Á það einkum við um almenningsvagna og strætisvagna.

5) Slysahætta er mikil af því að hafa mismunandi umferðarreglur og er stöðug og vaxandi, en hættan af breytingu er hins vegar tímabundin. Ef vel er á haldið, mun kynningarstarfsemi í sambandi við breytinguna hafa varanleg áhrif til að bæta umferðina.

6) Kostnaður við breytingu vex ört, ef dregið verður að framkvæma hana. Sá kostnaðarauki verður einkum vegna væntanlegra umferðarmannvirkja.“

Um þessa niðurstöðu er n. algerlega sammála, og ég hlýt þess vegna að mótmæla því, sem fram hefur verið haldið hér af tveimur hv. þm., að það sé eitthvert hik á n., sem frv. samdi, í þessu máli. Það er alls ekki. Þó að hægt sé að vitna til þess, að einn lögregluþjónn vilji halda sig við vinstri handar umferðina, hygg ég, að hinir séu fleiri, sem með umferðarmálin hafa að gera, sem hallist að því, að það eigi að breyta um reglur. M.a. má ráða þetta af nöfnum þeirra manna, sem frv. þetta sömdu. Ég vil alveg sérstaklega geta þess, að Theódór B. Líndal prófessor lagði sérstaklega áherzlu á það í viðtalinu, að hann teldi, að það væri einkum og sér í lagi vegna gangandi fólks, sem nauðsynlegt væri að breyta um reglur. Benti hann á, að þegar flugvélar fara á milli landa, eru það ekki aðeins áhafnirnar, sem með þeim fara, heldur allur fjöldinn af farþegunum, sem á einnig eftir að ferðast gangandi. Menn, sem fara frá Reykjavík héðan að morgni og koma til Kaupmannahafnar eða annarra staða, þar sem hægri handar umferð er, síðari hluta dags, verða að fylgja tveimur mismunandi reglum sama daginn. Það hefur verið talað um það, að Englendingar héldu fast við vinstri handar regluna. Það er rétt, það er ekki kominn verulegur skriður á þetta mál í Bretlandi, en Bretarnir fylgjast mjög nákvæmlega með því, sem er að gerast hjá öðrum þjóðum og sérstaklega hjá Svíum. Þeir hafa kynnt sér mjög rækilega, hvernig Svíarnir framkvæma þessa breytingu, og það er af kunnugum talinn lítill vafi á því, að eftir að búið er að gera jarðgöng undir Ermarsund, geti Bretar ekki lengur komizt hjá að taka upp hægri handar reglu, eins og gildir alls staðar á meginlandinu, þegar Svíar eru búnir að breyta hjá sér.

Hv. 2. þm. Austf. sagði m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á það finnst mér samt eiga að líta fyrst um sinn a.m.k. og raunar til langframa, hver umferðarvelferð þjóðarinnar er í þessu máli heima í hennar eigin landi, því að þrátt fyrir vaxandi ferðamennsku er öllum vitanlegt, að mestur hluti þjóðarinnar fer sjaldan eða aldrei til annarra landa, og ferðamenn héðan njóta oftar en hitt leiðsögu og aksturshæfni bílstjóra hlutaðeigandi þjóða, þegar um landferðalög er að ræða. Það virðist því meira en hæpið að ætla sér að láta þá íslenzku borgara, sem sífellt eru á ferðaflakki í öðrum löndum í eigin bílum og sjaldan eru jafnvel heima. nema þegar þeir verða veðurtepptir, ráða ökustefnunni hér heima.“

Ég verð að segja, að mér finnst, að í þessum tilvitnuðu ummælum hv. 2. þm. Austf. komi fram allþröngt sjónarmið, sem sumir munu hafa tilhneigingu til að kalla hundaþúfusjónarmið, í sambandi við þetta mál. Hv. 2. þm. Austf. vildi líka lítið gera úr því, að samræmdar væru umferðarreglur á landi, í lofti og á sjó. En það er, sem betur fer, þannig, að þótt menn komist nú orðið hátt í loft upp með flugvélum, eiga flestir þeirra oftast nær afturkvæmt til jarðarinnar, en halda ekki áfram að svífa um himingeiminn. Þá verða þeir að athuga sinn gang vel, þegar niður kemur, hvort þeir séu staddir í landi, sem hafi hægri handar eða vinstri handar umferð. Og það sama gildir um þá, sem um sjóinn sigla, þeir stíga flestir aftur á land, og af þessum sökum er orðið mjög nauðsynlegt og þykir alls staðar vera aðkallandi að samræma umferðarreglurnar, hvort sem ferðazt er á sjó, í lofti eða á landi.

Hv. 2. þm. Austf. spurði, að mig minnir, hvort við hefðum upplýsingar um, hvernig umferðarreglunum væri háttað alls staðar í heiminum. Mér finnst það nú til nokkuð mikils ætlazt, að því verði svarað, en það er upplýst, að þegar Svíþjóð er búin að breyta umferðarreglum sínum, verða ekki eftir nema eylöndin í Evrópu, sem verða með vinstri handar reglu.

Hv. þm. taldi, að reynsla þeirra þjóða, sem hefðu breytt um, væri orðin áratuga gömul og breytingin hefði átt sér stað, þegar lítið var um bílaumferð, bílaumferðin hefði stóraukizt og þess vegna mætti búast við allt annarri niðurstöðu af breytingunni, ef hún væri gerð nú á tímum. En þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Það eru a.m.k. tvær þjóðir, sem hafa nýlega skipt um umferðarreglu. Það er ekki lengra síðan en árið 1964, að bæði Eþíópía og Kamerún í Afríku skiptu um hjá sér. Og það mun ekki heldur vera langt síðan stórveldið Kína tók upp hægri handar umferð. Þetta er þannig stöðugt að færast í það horf, að hægri handar reglan verði meginregla, og það er auðvitað þungamiðja þessa máls, að við skerumst ekki úr leik í því efni, eftir að allar þjóðir, sem næst okkur liggja, hafa tekið upp þá reglu. Það er alveg augljóst, að ef við höldum áfram að fylgja vinstri handar reglunni, eftir að hægri handar reglan hefur alls staðar verið upp tekin í þeim löndum, sem við eigum mest samskipti við, leiðir af því mjög svo aukna slysahættu. Höfundar frv. leggja einnig mikið upp úr því, að sú fræðslustarfsemi og það aukna eftirlit, sem verður að fylgja breytingunni, muni hafa varanleg áhrif á umferðina til hins betra hér á landi. Og það er vissulega þannig, að ekki veitir af að reyna að betrumbæta umferðina hjá okkur. Slysatíðni hér á landi í umferðinni mun vera miklu hærri en annars staðar tíðkast, og það er einmitt sú skólun, ef ég mætti orða það þannig, sem gert er ráð fyrir að menn fái í umferðarreglum við það, að breytingin verður framkvæmd, sem höfundar frv. ætlast til og reikna með að skilji eftir varanleg spor, þannig að umferðin taki verulegum framförum. Ég get sagt eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að ég er enginn sérfræðingur í umferðarmálum, en ég treysti á réttsýni þeirra manna, sem undirbúið hafa þetta mál. Þeir hafa vegið og metið rökin með og móti, og ég treysti því, að þeir meti það rétt, að rökin með breytingunni séu miklu þyngri á metunum en þau rök á móti henni, sem bæði hv. 2. þm. Austf. og hv. 4. þm. Norðurl. v. hafa dregið fram í sínum ræðum.