12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

72. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þarf að gera smáaths. við þetta frv. nú við þessa umr., sem ég tel eðlilegt, að komi fram, áður en 3. umr. er lokið eða málið hlyti endanlega afgreiðslu hér í þessari hv. d.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er í 12. gr. frv. gert ráð fyrir því, að skattur, sem á að bera kostnaðinn af þeim breytingum, sem frv. beri í sér, leggist á bifreiðar eftir tilteknum reglum á 4 árum, á árunum 1966–1969. Nú er það svo, að gjalddagi bifreiðaskattsins er 1. janúar og eindagi fyrir 1. apríl, og ef innheimta á skatt þennan í ár, hefði því þurft að gera breytingar á frv., en tollstjóri hefur jafnframt látið í ljós, að það muni naumast hægt að innheimta skattinn í ár, jafnvel þótt frv. hefði verið afgreitt á Alþ. fyrr en nú eru horfur á. Ástæðurnar fyrir þessu telur hann bæði þær, að búið er að undirbúa innheimtuna í ár, einnig hafa margir bifreiðaeigendur greitt sinn bifreiðaskatt, og þyrfti þá sérstaka innheimtu á þessum skatti hjá þeim, og gæti eindagi þá í ár varla orðið, eins og nú horfir, fyrr en í maímánuði og jafnvel ekki fyrr en um miðjan maí. Það hefur einnig komið fram það álit tollstjóra, að reglur um bifreiðaskattinn eigi að gilda að öllu leyti um þennan sérstaka skatt, þ. á m. um endurgreiðslu og lækkun á skattinum, sem ekki var gert ráð fyrir í frv., og áætlar tollstjóri, að endurgreiðsla á lækkun gæti numið um 8–9%. Það virðast því allar horfur á því, að þó að frv. næði samþykki nú í þingi, yrði ekki hægt að koma við neinni skattheimtu á árinu 1966, og þá kemur tvennt til álíta: að innheimta skattinn á þremur árum í staðinn fyrir fjórum, eða árunum 1967, 1968 og 1969, eða hvort fært þætti að lengja skattheimtuna og innheimta hann engu að síður á 4 árum, frá 1967–1970 að báðum meðtöldum.

Ég hef gert ráðstafanir til þess, að allshn. fái þessar athuganir frá rn. til meðferðar, og vildi mega mælast til þess, að umr. yrði frelsað og n. fengi þannig tækifæri til þess að tjá sig um, hvað hún teldi ráðlegast í þessu sambandi. Ég hef ekki sjálfur gert ákveðnar till. um það, hvort réttara sé að innheimta skattinn á 3 árum eða 4. Það kemur hér til álita, að mestur kostnaðurinn fellur á ríkissjóðinn, ef frv. yrði samþ. á árinu 1968, þegar breytingin fer fram. Fjmrh. hæstv. hafa einnig verið sendar þessar athuganir og eðlilegt, að fjallað sé endanlega um fyrirkomulag skattsins í samráði við fjmrn. Það, sem einkum kæmi til greina í 12. gr., er, að 12. gr. breytist á þann veg, sem rétt þætti að ákveða skattinn, annaðhvort á 3 árum eða 4 árum, og einnig að það yrði gerbreyting á 13. gr., þannig að þessi skattur skuli innheimtur með bifreiðagjöldum og skuli gilda um innheimtu hans sömu reglur sem um bifreiðaskattinn, þ. á m. ákvæðin um frádrátt á gjaldi vegna innilegu skráningarmerkis og lögtaksrétt og lögveð o.s.frv. Um það, sem ég nú hef vikið að, mun allshn., sem hafði málið til meðferðar, fá grg. frá dómsmrn., og teldi ég, eins og atvik standa til, að það væri þá eðlilegt að fresta umr. núna, svo að n. fengi aðstöðu til að tjá sig um málið, áður en þessari umr. lýkur.