19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

72. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég fellst að sjálfsögðu alveg á það, sem fram kemur hjá hv. þm., að það er auðvitað ekki gott við að gera, þegar stærri mál liggja lengi eða meginhluta þingtímans í annarri d. og koma svo í hina d. og hennar tóm er mjög takmarkað til að fjalla um málið. Ég er alveg sammála hv. þm., að þetta er mikill annmarki á fyrirkomulagi þingstarfanna. Þetta höfum við átt lengi við að búa og er ekkert sérstakt í sambandi við þetta mál. Auðvitað mundi ég vilja vinna að því að ráða einhverja bót á þessu, og þann tíma, sem ég hef setið í ríkisstj., hef ég oft verið að reyna að stuðla að því, að mál gætu gengið fyrr á milli deilda, en þó ekki með betri árangri en þessum. Það er sjálfsagt líka mjög til athugunar í nánustu framtíð, eins og hv. þm. vék að, hvort deildaskiptingin að þessu leyti skapi ekki þá örðugleika, að ef til vill ættu menn að hugsa til þess að hverfa frá henni. Sannast að segja var ég einu sinni mjög hlynntur því, að hverfa frá deildaskiptingunni. Nokkuð löng reynsla á þingi hefur nú frekar fært mig á hina skoðunina, að við ættum að hugsa okkur um tvisvar, áður en við sleppum deildaskiptingunni.

Aftur á móti get ég ekki fallizt á hitt, að ýta ekki á eftir því, að málið hljóti afgreiðslu. Ég tel, að það skipti mjög miklu máli einmitt, að það fáist úr því skorið núna, ýmissa hluta vegna, sem ég að litlu leyti gerði grein fyrir í framsöguræðu minni, að hverju er stefnt í þessu efni, og ef málið sem sagt dagar uppi, eins og við köllum það, vita menn ekki um afstöðu þingsins, og þá kemur málið til kasta þingsins í haust, þá kannske lagt fram í Ed., biður þar fram yfir áramót (Gripið fram í.) — þá mundi koma til kasta þingsins í haust, án þess að við vissum, að hverju stefndi og við skulum segja, að það yrði hraðað afgreiðslu málsins, og það væri hægt að haga því þannig, að málið yrði afgreitt fyrir áramót að sjálfsögðu. En er nú til svo mikils ætlazt, að menn taki afstöðu til málsins til eða frá, þó að liðið sé mjög á þinghaldið? Ég spyr vegna þess að hér er um mál að ræða, sem menn að sjálfsögðu, þó að málið hafi ekki verið til meðferðar í d., hafa vafalaust velt töluvert mikið fyrir sér og hugsað um, og ég tel ekkert því til fyrirstöðu, nema ég veit, að d. á mjög annríkt og í mörgum öðrum málum að snúast, en þó á að vera hægt að koma því alveg fullkomlega við, miðað við það, sem eftir er af þingtímanum, að fá aðstöðu til að ræða við þá sérfræðinga, sem unnið hafa að undirbúningi málsins, látið álit sitt í ljós um málið og verið til ráðuneytis við ráðuneyti og svarað fyrirspurnum og veitt upplýsingar allshn. í Nd. Mér finnst, að við séum ekki komnir það langt enn í þingstörfunum, því að við skulum segja, að það séu alltaf 2–3 vikur eftir af þinghaldinu, að þetta væri ekki vinnandi vegur, þó að ég viðurkenni, að það er á þeim tíma, sem d. og n. sjálfsagt á mjög annríkt, og þó eru nú kannske ekki stærstu málin í allshn., eins og nú er komið, — mér er ekki kunnugt um, hvernig á stendur með það, en væri það ekki, væri þeim mun auðveldara, að n. gæti unnið að þessu máli, ef það væri ekkert sérstakt álag á henni.

Þó að ég, eins og ég segi, viðurkenni alveg þau sjónarmið og finnist alveg réttmætar þær aðfinnslur, sem hér hafa fram komið, get ég ekki annað en lagt áherzlu á það, að þessu þingi ljúki ekki öðruvísi en þannig, að menn viti, hvað verða vill í þessu efni. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði, eins og ég sagði, hér í fjölbýlinu í sambandi við ráðagerðir bæjanna hérna, Reykjavíkurborgar og nærliggjandi borga, í sambandi við umferðina. Við vitum, að það eru gífurlega stórar mannvirkjagerðir á döfinni á Reykjanesbrautinni, Kópavogshálsinum og í sambandi við umferðaræðar til og frá bænum, og þetta er veigamikið atriði, að menn viti nú um, hvernig málið muni skipast í þessu sambandi. Ég get fallizt á það, menn geta sagt sem svo: töfin til haustsins sker ekki úr um þetta, en þó vildi ég nú leggja áherzlu á, að menn vildu gera sér far um, þrátt fyrir þessa annmarka, að setja þá ekki fyrir sig og reyna að fá úrlausn málsins hérna, áður en þingi lýkur.