14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið greint frá, skilaði heilbr.- og félmn. d. sameiginlegu nál. um þetta frv., en ég og tveir aðrir nm. áskildum okkur rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Niðurstaðan af þessu er sú, að ég hef fyrir mitt leyti ákveðið að flytja eina brtt. við þetta frv. Hún er við 3. málsgr. 3. gr. frv. og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, — hún er á þskj. 168:

„Láglaunafólk í verkalýðsfélögum skal hafa forkaupsrétt að íbúðum þeim, sem byggðar eru samkv. 3. málsgr. 3. gr. laga þessara, og eiga meðlimir verkalýðsfélaga rétt á lánum til kaupa á íbúðunum, og skal upphæð þeirra nema 4/5 hlutum af verðmæti íbúða og sé gatnagerðargjald þá talið með verðmæti íbúðanna. Lánin séu ekki vísitölubundin.“

Þetta frv. er byggt á yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstj. gaf í sambandi við samninga við stéttarfélög á s.l. vori. Yfirlýsingin er ekki byggð á samkomulagi, sem varð um þau mál, sem hún fjallar um, heldur um hugmyndir, sem fram voru bornar af sérstakri nefnd frá hálfu verkalýðsfélaganna. Yfirlýsingin fjallar því eingöngu um það, sem hæstv. ríkisstj. féllst á af þessum hugmyndum, og má segja, að yfirlýsingin sé alveg eins og ríkisstj. lofaði að beita sér fyrir, þegar samningarnir voru undirritaðir. En hún er vitanlega ekki í samræmi við þær kröfur, sem samningamenn verkalýðsfélaganna í sambandi við þessar hugmyndir gerðu. Lánin skulu vera allt að 80% af kostnaðarverði íbúða, og er það í samræmi við orðalag í yfirlýsingunni. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir meðlimir verkalýðsfélaga, sem fá kost á að kaupa þær 200 íbúðir á ári, sem að framan greinir, skulu eiga kost á allt að 80% láni út á verðmæti íbúðanna að meðtöldu gatnagerðargjaldi.“ En síðan segir: „Útborgun sé þannig hagað, að 5% greiðist ári áður en inn er flutt, en síðan 5% á ári í 3 ár. Lán húsnæðismálastjórnar út á íbúðir þessar sé afborganalaust meðan á útborgun stendur. Samið verði við atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir, er komi til viðbótar lánum frá húsnæðismálastjórn. Í samningum þessum sé tryggt, að lán út á þessar íbúðir geti orðið a.m.k. til 33 ára, þ.e.a.s. 3 afborgunarlaus ár, en endurgreiðsla á 30 árum. Að öðru leyti séu kjörin þau sömu og á lánum húsnæðismálastjórnar á hverjum tíma.“

Af þessu sjá menn, að þarna er í raun og veru slegið föstu, hvernig þessi 20%, sem byggjendurnir eiga að leggja fram, skuli greiðast: 5% ári áður en inn er flutt, en síðan 5% á ári í 3 ár. Það byggist eiginlega á því, að það sé ekki hámarkstala, 80%, heldur sé 80% lán og 20% framlag frá einstaklingum, þó að það sé að hinu leytinu orðað sem hámark. Í samræmi við þetta er mín brtt. um, að kaupendur íbúðanna skuli eiga rétt á 4/5 hlutum af verðmæti íbúða að meðtöldu gatnagerðargjaldi. En það, sem er nýtt, og það, sem var ein af kröfum samningamanna verkalýðsfélaganna í vor, var, að þessi lán, eins og lán til íbúða í sveitum og eins og lán samkv. l. um verkamannabústaði, sem hafa verið endurskoðuð af hæstv. ríkisstj., eftir að júnísamkomulagið var gert, og vísitölukvöðin þar með lögð á hin almennu húsnæðismálalán, skuli vera óvísitölubundin. Það er kannske meginatriði þessarar brtt. minnar, af því að ég tel það sanngjarnt, vegna þess að hér er um sérstakar aðgerðir til lausnar á húsnæðismálum láglaunafólks í verkalýðsfélögum að ræða, og þá megi þau lán á engan hátt vera óhagstæðari en lán samkv. l. um verkamannabústaði.