02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til I. um hægri handar umferð,127. mál, á þskj. 516, hefur verið til athugunar í allshn. þessarar hv. þd. Allshn. varð ekki sammála um að mæla með þessu lagafrv. Meiri hl. n. skilar áliti á þskj. 659 og mælir með því, að frv. verði samþ., og mæli ég hér fyrir þann meiri hl.

Eins og fram kemur í nál., fékk allshn. á sinn fund þá aðila, sem mjög hafa komið við sögu þessa máls hin síðari ár, þá Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóra í Reykjavik, Sigurð Jóhannsson, vegamálastjóra, Eirík Ásgeirsson forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur og formann skipulagsnefndar fólksflutninga og Arinbjörn Kolbeinsson lækni, formann Fél. ísl. bifreiðaeigenda. Allir þessir menn mæltu eindregið með, að frv. þetta verði samþykkt á yfirstandandi þingi, og færðu fram sterk rök máli sínu til stuðnings.

Mál þetta, hægri handar umferð, hefur áður verið til meðferðar hér á hv. Alþ. Skv. l. nr. 75 frá 1940 var svo ákveðið, að hægri handar akstur skyldi tekinn upp hér á landi frá 1. jan. 1941 að telja. Til þessa kom þó ekki, þar sem brezkur her kom til landsins og ekki þótti ráðlegt að láta þessa ákvörðun koma í framkvæmd á svo viðsjárverðum tíma. Voru gefin út brbl., þar sem frestað var framkvæmd I. um óákveðinn tíma. Málið var svo tekið upp með skipun n. til endurskoðunar árið 1955, en dagaði þá uppi, og enn var málið tekið upp og skipuð n. í það 1964, og liggur hér fyrir frv. til l. samið af þessari n., en í henni voru Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri, Theódór B. Líndal, Benedikt Sigurjónsson, Arinbjörn Kolbeinsson, Sigurður Jóhannsson, Ólafur W. Stefánsson og Eiríkur Ásgeirsson. Eins og fyrr getur, mælir þessi n. eindregið með, að hægri handar akstri verði komið á hér á landi. Grg. með frv. er mjög ýtarleg, og vísa ég til hennar um einstök rök, sem nm. færa fram hægri handar akstri til stuðnings. Meiri hl. allshn. mælir með, að frv. þetta verði lögfest, og hefur, eins og ég hef áður sagt, lagt fram nál. á þskj. 659.

Við athugun hjá allshn. og rök þau, sem fram hafa komið hjá þeim, sem n. leitaði til, er bersýnilegt, að mál þetta er nauðsynlegt að afgreiða til frambúðar á þessu þingi. Verði frv. þetta fellt, yrði hér eflaust ekki breyting næstu áratugi, en mannvirki, sem nú er fyrirhugað að byggja hér, vegamannvirki, í nágrenni bæjarins og viðar, hraðbrautir og annað, eru við það miðuð, að komið verði á hægri handar akstri, annars verður að breyta hér til aftur og verður þá mun dýrara síðar meir.

Skipulag Reykjavíkur og nágrennis, t.d. Kópavogur og umferð í gegnum Kópavog, hefur verið í undirbúningi undanfarið, og sá undirbúningur hefur verið miðaður við hægri handar akstur, sem eðlilegt er, þar sem þetta var samþykkt þegar árið 1940, þó að það hafi ekki komið til framkvæmda enn þá. Mannvirkjagerð er hins vegar ekki hægt að hefja. Það er fyrirhugað, að byrjað sé nú í sumar á stórfelldri vegagerð í Kópavogi. Það kemur því til að tefja þetta verk og önnur slík, ef hæstv. Alþ. tekur ekki fullnaðarákvörðun um hægri eða vinstri akstur nú á þessu Alþ.

Mörg rök eru færð fyrir því að breyta nú yfir í hægri akstur. Tiltölulega lítið af dýrum mannvirkjum er fyrir í landinu, en miklar framkvæmdir fyrirhugaðar. Fleiri og fleiri lönd hafa farið yfir í hægri akstur og almenningsvagnar og aðrar bifreiðar þá verið miðaðar við það. T.d. hefur Svíþjóð nú hætt framleiðslu á almenningsvögnum nema fyrir hægri akstur. N. kynnti sér þetta nokkuð og komst að raun um, að ef ekki yrði breytt til núna, yrði eingöngu að miða við kaup á almenningsvögnum frá Japan eða Bretlandi. Það var líka rætt um það, hversu lengi vinstri akstur yrði í Bretlandi. Það er víst ákveðið núna, að þeir taki upp metrakerfið, og sumir telja, að þeir taki upp hægri handar akstur ekki síðar en 1985, eins og fram kom hjá n. Það má benda á það, að nú þegar eru bifreiðar með stýrið vinstra megin mun dýrari en aðrar. Það er t.d. talað um, að Chevrolet fólksbifreið kosti um 15 þús. kr. meira fyrir vinstri handar akstur. Ljósabúnaður bifreiða er einnig dýrari fyrir vinstri handar akstur og talið, að á næstunni verði erfitt að fá hann. En meginrök fyrir breytingu í hægri handar akstur eru þau, að við fylgjum hér öðrum löndum, nágrönnum okkar, kostnaður við bifreiðakaup og vegna slysahættu, sérstaklega eftir að allir nágrannar okkar, einnig Svíar, eru búnir að breyta hjá sér yfir í hægri akstur.

Eins og kunnugt er, hefur straumur ferðafólks hingað til landsins aukizt mjög hin síðari ár, og sérstaklega hefur straumur Íslendinga úr landi í orlofsferðir aukizt gífurlega. Mjög margt af þessu fólki tekur með sér bifreiðar eða tekur bifreiðar á leigu í viðkomandi landi, og einnig er það orðið altítt, að útlendingar taki bifreiðar hér á leigu til að ferðast um í sínum orlofsferðum hér á landi. Það er því talið af öryggisástæðum mjög mikils vert, að þetta fólk þurfi ekki að breyta til um akstursreglur. Skýrslur t.d. í Svíþjóð sýna, að slíkt veldur mjög oft alvarlegum slysum.

Benda má einnig á það, að langflestar bifreiðar hér á landi eru nú með vinstra stýri og því gerðar fyrir hægri akstur. Í Bretlandi t.d. eru lagaákvæði fyrir því, að stýri ökutækja skuli vera að miðju vegar. Er þetta vegna þeirrar miklu hættu, sem skapast við framúrakstur, en það er ein algengasta slysahætta hér á landi.

Þá má benda á það, að bæði á sjó og í lofti er vikið til hægri. Er talið, að það hafi oft reynzt erfitt fyrir t.d. stjórnendur flugvéla, er þeir koma úr bifreiðum sínum beint til stjórnar flugvélarinnar, að skipta yfir. Þetta atriði eitt getur orðið orsök stórslyss.

Kostnaður í sambandi við þessar breytingar er að sjálfsögðu nokkur, eða samtals 43 millj. kr. Er gert ráð fyrir, að bifreiðaeigendur beri þennan kostnað með sérstökum skatti, álögðum á eigendur ökutækjanna yfir lengri tímabil. Ekki verður sagt, að þessi kostnaður sé fráhrindandi eða geri eigendum ökutækjanna um of erfitt fyrir. Í hv. Nd. kom það fram, að sumir hv. alþm. þeirrar þd. töldu,að þessi kostnaður ætti að berast uppi af ríkissjóði. Meiri hl. þdm. Nd. gat ekki fallizt á þetta, enda víst ekki til að dreifa, að ríkiskassinn sé með slíkt fjármagn.

Kostnaðurinn eykst og margfaldast, ef mannvirkjagerð, sem nú er fram undan, hraðbrautir, vegamerki og annað, á nú að byggjast miðað við vinstri akstur, og verður að telja, að það sé því mikils um vert einmitt að breyta nú, eins og ég er búinn áður að minnast á. Og að öllu þessu athuguðu mælir meiri hl. n. eindregið með því, að frv. verði samþykkt.