28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Sigfús J. Johnsen:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. með málþófi. Ég get þó ekki látið hjá líða í sambandi við þetta frv. til l. um landshöfn í Þorlákshöfn að leyfa mér að mótmæla því alveg eindregið sem rökum fyrir þörfinni á þessu Þorlákshafnarmáli, sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., að úr hafnarþörfinni við Suðurland verði ekki bætt, eins og hæstv. ráðh. vék að, með því að stóla þar á Vestmannaeyjahöfn, sem í engu muni geta bætt við sig því, sem hún þurfi að hafa til að bera til þess að geta sinnt öðru en Vestmannaeyjaflotanum einum. Ég beinlínis leyfi mér að mótmæla því, að þetta séu rök fyrir þörfinni á landshöfn í Þorlákshöfn á sama tíma og við vitum það, að í dag, sennilega á þessu augnabliki, sem við stöndum hér, munu vera líklega á annað hundrað bátar víðs vegar af landinu að fá sína fullkomnu þjónustu í Vestmannaeyjahöfn. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram og skal svo ekki þreyta þingheim á því að taka frekari þátt í þessum umr. um Þorlákshafnarmálið.