02.05.1966
Neðri deild: 85. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Sigfús J. Johnsen:

Herra forseti. Frsm. tók nú reyndar af mér ómakið, en vegna þess, sem fram kom hét í niðurlagi af framsöguræðu hv. frsm. sjútvn., vildi ég aðeins með örfáum orðum skýra það, sem á bak við þetta liggur, og ég treysti fullkomlega á það, að ráðh. hlutist til um, að þetta ákvæði verði sett inn í reglugerð.

Það mun verða svo kannske innan örfárra ára, að flest sýslufélög og bæjarfélög munu verða komin í þjóðvegasamband við höfuðborgina og stærstu bæi landsins. Það verður alltaf svo, sennilega til eilífðarnóns, að eitt bæjarfélag verður þó alltaf útundan í þessu, og á ég þar við Vestmannaeyjar. Þannig mun það verða í framtíðinni, að ef einhver varanleg bót á að fást á þessum þætti samgöngumála Vestmannaeyja, hlýtur að koma að því, að þar komi upp almennileg og myndarleg bílaferja, sem kæmi þá til með að ganga til þeirrar hafnar, sem næst væri og bezt gæti sinnt þessu hlutverki. Með það fyrir augum, að framtíðin færði okkur það einhvern tíma, að slík ferja kæmist á, óskaði ég eftir því, að í sambandi við 8. gr. um undanþágur frá hafnargjöldum, væri tekin fram þessi heimild, að farþegaskip, sem einvörðungu fer með farþega og farartæki þeirra, væri þarna undanþegið þessu gjaldi. Að því leyti mundi þessi ríkishöfn vera þáttur í þjóðvegakerfi landsins, að þau farartæki, sem þarna eru flutt til meginlandsins frá Vestmannaeyjum, yrðu aðnjótandi þeirra fríðinda, sem við fáum ekki í neinu gegnum þau gjöld, sem við þó greiðum gegnum benzínskatt og vegagjöld af benzíni, sem eru að öllu leyti nákvæmlega þau sömu í Vestmannaeyjum og annars staðar á landinu. Það er því þessi ástæða samhliða hinni, að í dag höfum við þegar nokkrar ferðir til Þorlákshafnar, og mér sýnist svo, að þegar farið verður að ýta eftir því, að Skipaútgerð ríkisins verði rekin með eins hagkvæmum hætti og mögulegt sé, yrðu það vissulega rök fyrir formanni útgerðarinnar eða forstjóra að vitna til þess, þegar óskað er eftir því, að skip eins og t.d. Herjólfur héldi uppi ferðum frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar og Reykjavíkur, yrðu það vissulega rök hjá honum, að hann gæti vitnað til þess, að með því að koma við í þessari höfn yrði að greiða tvívegis hafnargjöld, en flutningar með skipinu mundu aðeins minnka með viðkomu í viðkomandi höfn, þ.e.a.s. í Þorlákshöfn. Ég vænti þess, að mönnum sýnist það vera réttlætismál, að þetta ákvæði sé sett inn í og yrði þá orðað á þá leið, að skip, sem eingöngu eru með farþega og farartæki þeirra, væru undanþegin þessum gjöldum. Ég treysti fyllilega á, að hæstv. sjútvmrh. gangi svo frá þessum málum, að þau séu þar með tryggð í reglugerð.