25.11.1965
Neðri deild: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

76. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Um leið og lagt er fram frv. til l. um breyt. á vegal., nr. 71 30. des. 1963, um hækkun á aðflutningsgjöldum á benzíni og til samræmis við það hækkun á þungaskatti af þeim bifreiðum, sem hafa dísilvélar, þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um ýmis atriði, sem snerta vegamálin almennt, um leið og það frv., sem hér hefur verið lagt fram, verður rætt.

Með vegal. 1963 var stigið stórt spor til betri vinnubragða í vegamálum, um leið og framlög til þeirra mála voru aukin um rúmlega 100 millj. kr. árlega með þeim ráðstöfunum, sem vegal. fela í sér. Með vegal. var ákveðið að skipuleggja vegagerðina og gera áætlanir, sem framkvæmdir eru byggðar á. Með því verður það fé, sem til vegamálanna er veitt, drýgra en áður. Áætlun til framkvæmda í vegamálum er gerð til fjögurra ára. Heimilt er að endurskoða áætlunina á tveggja ára fresti. Vegáætlun fyrir árin 1965–1968 er því heimilt að endurskoða haustið 1966. Samkv. vegáætlun eru í fjárl. fyrir árið 1965 veittar 47.1 millj. kr. til viðbótar þeim tekjum, sem vegasjóður fær samkv. vegal. Á árinu 1965 var 20% dregið af þessari upphæð vegna frestunar á verklegum framkvæmdum, sem ríkisstj. ákvað að skyldi snerta fjárfestingarliði fjárl. Í frv. til fjárl. fyrir árið 1966 eru áður nefndar 47.1 millj. kr. ekki teknar með í frv. Hefur hæstv. fjmrh. lýst því í fjárlagaræðu, hver ástæðan er fyrir því, að upphæðin var tekin út. Er því ekki ástæða til að fjölyrða um það atriði nánar að sinni.

Það munu allir vera sammála um, að nauðsyn beri til að afla vegasjóði tekna, sem nemur a.m.k. þessari upphæð, til þess að unnt verði að standa við vegáætlun þá, sem samþ. var á síðasta þingi. Til þess að svo megi verða, hefur ríkisstj. verið sammála um að leggja fram það frv., sem hér er um að ræða, þ. e. að hækka innflutningsgjald af benzíni um 90 aura á lítrann og þungaskatt af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín, um 30–35%. Innflutningsgjald af benzíni verður því, ef frv. þetta verður lögfest, 3.67 kr. pr. lítra, sem rennur allt í ríkissjóð.

Flestir þm. munu hafa reiknað með því, að benzínverð yrði hækkað hér á landi til samræmis við það, sem er í nágrannalöndum. Sjálfsagt er, að þungaskattur verði hækkaður til samræmis við benzínhækkunina. Margir munu hafa talið, að benzínhækkunin biði til haustsins 1966 og væri látin fram fara í sambandi við endurskoðun vegáætlunarinnar. Að athuguðu máli munu menn verða sammála um, að það sé út af fyrir sig ekki mikið atriði, hvort hækkunin fer fram haustið 1965 eða tæplega ári seinna. Það, sem máli skiptir, er vitanlega það, að staðið verði við að framkvæma vegáætlunina, eins og hún er úr garði gerð á hverjum tíma.

Verði þetta frv. að l., mun útsöluverð á benzíni verða um 6.90 kr. pr. lítra. Lætur þá nærri, að það sé hið sama og hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar, en þó lægra en hjá nokkrum þeirra. Er vart við því að búast, að Íslendingar, jafnfáir sem við erum og í stóru og illa veguðu landi, höfum efni á að selja benzínið á lægra verði en þær þjóðir, sem búa í þéttbyggðum löndum. Á Íslandi er 1.9 manns á hvern ferkm lands, en til samanburðar eru um 80 manns á hvern ferkm í Danmörku. Ef við viljum hafa góða vegi, eins og vitanlega ber að stefna að, er augljóst, að hver einstaklingur í strjálbýlu landi verður að leggja meira fram til vegamálanna heldur en þar sem þéttbýlið er. Í Danmörku er útsöluverð á benzíni kr. 6.66 og hefur komið til umræðu þar að hækka benzíntollinn verulega. Í Írlandi er benzínverðið 7.28 kr., í Finnlandi 6.83 kr., í Frakklandi 8.26 kr., í Belgíu 6.49 kr., í Noregi 6.26 kr., í Svíþjóð 6.28, í Bretlandi 7.77 kr. og í Ítalíu 7.59 kr., svo að nokkur lönd séu nefnd. En vitað er, að benzínverð er oft til endurskoðunar í áðurnefndum löndum og þá ávallt í hækkunarátt.

Þær tekjur, sem gera má ráð fyrir, að fáist samkv. þessu frv., eru sem hér segir:

Ef gert er ráð fyrir 65 millj. lítra benzínsölu á næsta ári, verður tekjuaukningin af benzínsölunni 58.5 millj. kr., tekjuaukning af þungaskatti dísilbifreiða 12.2 millj. kr., eða samtals 70.7 millj. kr. á árinu 1966. En frá þessu dragast endurgreiðslur, sem byggðar eru á undanþágum á sama hátt og nú eru í gildi. Tekjuaukning af benzíni kemur ekki til nota á næsta ári nema fyrir 10 mánuði, þar sem innheimtan er alltaf ca. tvo mánuði eftir á. Nettótekjur af hækkuninni á árinu 1966 eru áætlaðar 56.5 millj. kr. Nettótekjur vegasjóðs verða því áætlaðar fyrir næsta ár 282.9 millj. kr. Tekjuöflun til vegamála samkv. vegáætlun mun hins vegar, ef frv. þetta verður að l., verða allmiklu meiri síðari tvö ár þess tímabils, sem vegáætlun nær yfir, þ. e. árin 1967 og 1968, vegna aukinnar benzínsölu og fjölgunar bifreiða, svo og koma 12 mánuðir ársins alveg fram. Þessar umframtekjur ásamt öðrum fjáröflunum til aukningar framkvæmdafjár vegamála verða til ráðstöfunar við endurskoðun vegáætlunar, sem heimilt er að framkvæma fyrir árslok 1966, og athugað verður gaumgæfilega, hvort sú heimild verður notuð. Gerðar hafa verið ráðstafanir til þess, að rækileg athugun fari fram á því, hvernig auka megi fé vegasjóðs verulega og hvernig afla megi fjár til þess að ýta undir framkvæmdir í hraðbrautum og öðrum vegum, sem mest nauðsyn er að hraða, svo og til aukins viðhalds. Ríkisstj. mun skipa nefnd til að vinna að því, á hvern hátt hagkvæmast er að fá tekjur til vegamálanna.

Það hefur verið að því fundið, að áður nefndar 47 millj. kr. hafi verið teknar út úr fjárlagafrv. Hefur því jafnvel verið haldið fram, að með því væri stefnt að því að draga úr vegaframkvæmdum og minnka það fé, sem til vegamála verður aflað. Þetta er vitanlega fjarstæða. Ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir því, að mikil þörf er á auknu fjármagni til vegaframkvæmda í landinu. Það er einnig ljóst, að tekjur vegasjóðs verða ekki auknar á næsta ári með því að hækka gjald af benzíni eða hækkun á þungaskatti. Telja verður, að sú hækkun, sem er fyrirhuguð á þessum liðum, sé það, sem eðlilegt má telja, og því ekki hæfilegt að ganga lengra að svo stöddu í þá átt. Tekna til vegamálanna verður því að afla með öðrum hætti, og því verður skipuð n. til að vinna að því máli. Væntanlega verður sú n. búin að ljúka störfum svo fljótt á næsta ári, að fyrir liggi, hvort um raunhæfa fjáröflun verður að ræða miðað við hennar till.

Það er augljóst, að þótt fyrrnefndar 47 millj. kr. verði ekki á fjárl. næsta árs, hefur enginn skaði orðið þess vegna. Fjár til vegáætlunar verður aflað með öðrum hætti, og framkvæmd vegamálanna mun því ekki bíða neinn hnekki af því, ef þetta frv. verður að lögum.

Ég mun innan fárra daga leggja fram skýrslu um vegaframkvæmdir á því ári, sem nú er að liða, eins og vegalög gera ráð fyrir. Mun ég því ekki að þessu sinni rekja þær framkvæmdir, sem unnið hefur verið að á þessu ári. En í tilefni af því, að oft heyrist talað um, að framkvæmdir gangi hægt og litlu fé sé varið til vegamála, má geta þess, að á þessu ári mun verða unnið að vegamálum fyrir 393 millj. kr. auk þess fjár, sem notað er vegna Búrfellsvirkjunar til endurbyggingar á Skeiðavegi og Hreppavegi. Gert er ráð fyrir, að sú vegaframkvæmd muni kosta um 20 millj. kr., en hversu mikið af þeirri upphæð verður notað á þessu ári, liggur ekki enn fyrir. Það verður því ekki sagt, að litlum fjárhæðum hafi verið varið á yfirstandandi ári til vegamála, þótt flestir geti verið sammála um, að æskilegt væri að hafa meira fjármagn til umráða vegna hinna mörgu verkefna, sem fram undan eru.

Menn geta deilt um, með hverjum hætti eðlilegast sé að afla fjárins. Ýmsir halda því fram, að til vegamálanna eigi að verja öllu því fé, sem inn kemur af aðflutningsgjöldum af bifreiðum, varahlutum, og öðrum tekjum, sem kallaðar eru tekjur af umferðinni, eins og oft er sagt. Ríkissjóður þarf á sínu að halda nú eins og áður, þar sem allir gera kröfur á hendur honum. Þannig hefur það alltaf verið, þar sem ríkissjóður hefur lengst af tekið í sinn hlut talsverðan hluta af benzínskattinum. Það er skoðun mín, að á þessum vanda finnist lausn. Það er almennur skilningur fyrir því að leggja aukið fjármagn til vegamálanna. Reykjanesbraut hin nýja mun þrýsta á, að hraðbrautir verði gerðar með varanlegu slitlagi, enda er svo komið, að malarvegir, þar sem umferðin er mest, verða ófærir vegna þess, að þeir þola ekki umferðina.

Vera má, að ýmsum finnist, að benzínverðið verði nú í hærra lagi og þungaskatturinn verði tilfinnanlegur af dísilbifreiðum. Eins og áður er að víkið, mun útsöluverð á benzíni ekki verða hærra hér en almennt gerist annars staðar. Þungaskatturinn er af ýmsum talinn vera í lægra lagi miðað við benzínverðið. Það þykir þó ekki fært eða réttmætt að hafa þungaskattinn hærri, þar sem þeir, sem nota bílana litið, verða að greiða jafnmikinn þungaskatt og hinir, sem aka flesta daga og slíta vegunum mest. Norðmenn hafa í nokkur ár haft það fyrirkomulag að setja mæla í bifreiðarnar og reikna þungaskattinn eftir því, hversu mikið er ekið. Miðast greiðslan þá við það, hversu vegunum er mikið slitið af hverju ökutæki. Segja má, að þetta sé réttlátt, að þeir borgi hæstu upphæðina, sem nota vegina mest. Hætt er við, að okkur hér þætti þetta fyrirkomulag þungt í vöfum og erfitt í framkvæmd. Norðmenn segja, að framkvæmdin sé auðveld og þeim komi ekki til hugar að hætta að taka gjaldið samkv. mæli. Vegagerð ríkisins mun kynna sér nánar þetta fyrirkomulag, og verður síðan tekið til athugunar, hvort tiltækilegt þykir að taka það upp hér.

Verkefnin eru mörg fram undan. Allir eru sammála um það. Menn eru einnig sammála um það, að framkvæmdirnar eru miklar, það miklar, að oft skortir vinnuafl til þess að vinna að hinum miklu framkvæmdum. Félag ísl. bifreiðaeigenda hefur stundum látið til sín heyra og gert till. í vegamálunum. Segja þeir, að það sé það minnsta að verja 100 millj. kr. árlega til hraðbrauta. Þeir segja enn fremur, að það sé eðlilegt, að til vegamálanna komi allt það fé, sem nú rennur í ríkissjóð og eru tollar af bifreiðum og varahlutum. Þeir hafa hins vegar ekki, sem kannske er ekki von, komið með till. um, hvað eigi að koma í staðinn í ríkissjóð og hvernig eigi að afla þeirra tekna, sem ríkissjóður mundi missa. E. t. v. mundi einhver segja: Það þarf ekki að afla tekna í ríkissjóð, sem þessu nemur. Það er ekkert annað en að draga úr útgjöldum. En þegar menn hafa verið spurðir um það, hvar þeir vildu spara, hefur flestum orðið svarafátt og ekki verið um stórar upphæðir að ræða, sem nefnt hefur verið. Hvað sem þessu líður, er enginn vafi á því, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa hug á því að auka framlag til vegamálanna, eftir því sem mögulegt er. Og verði vegáætlunin endurskoðuð haustið 1966, eins og stefnt er að, þarf í leiðinni að útvega aukið fé, til þess að endurskoðunin komi að nokkru gagni. Með því nú að skipa n. til þess að gera till. í þessum málum, er stigið fyrsta sporið í þá átt að afla fjár, sem nota má við væntanlega endurskoðun. Það er von mín, að það megi takast með eðlilegum hætti og án þess að íþyngja ríkissjóði eða skattþegnunum um of að afla aukins fjár til vegaframkvæmdanna og það þyki fært að endurskoða vegáætlunina fyrir árslok 1966, þannig að þá verði meira fé til ráðstöfunar á seinni tveimur árum áætlunartímabilsins heldur en tveimur hinum fyrri.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. þetta að svo stöddu, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.