04.04.1966
Neðri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

104. mál, sala hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar og eignarnámsheimild á lóðum

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur fengið til meðferðar frv. til I. um heimild handa ríkisstj. til að selja Hveragerðishreppi hluta úr landi ríkisjarðarinnar Vorsabæjar og um eignarnámsheimild á lóðum og erfðafesturéttindum, sem er komið frá Ed. á þskj. 224. Frv. er flutt af landbn. hv. Ed. að beiðni landbrh. eftir ósk hreppsnefndarinnar í Hveragerðishreppi. Við meðferð málsins í Ed. voru gerðar smávægilegar breytingar eða viðaukar á 1. og 3. gr. frv., svo sem sjá má af þskj. nr. 360.

Hveragerði er ört vaxandi þorp með ótakmarkaða möguleika til atvinnurekstrar vegna hinnar miklu jarðhitaorku í nágrenninu, og er því nauðsynlegt að af framsýni sé unnið þar að skipulagsmálum og öðrum málum, sem til almenningsheilla horfa. Á undanförnum áratugum hefur töluvert af lóðum í Hveragerðishreppi verið selt eða leigt á erfðafestu, og er því farið fram á heimild til að taka lóðir þessar og erfðafesturéttindi eignarnámi, ef þurfa þykir vegna skipulagsins.

Það er viðurkennt, m.a. með lagasetningu um aðstoð við bæjarfélög og þorp til að kaupa lönd innan marka sinna, sbr. lög nr. 41 1963, að vegna skipulagsmála og almenningsþarfa sé nauðsynlegt, að bæjar- og sveitarstjórnir hafi fullan umráðarétt yfir þeim lóðum og löndum, sem á hverjum tíma eru ætluð til bygginga og annarrar mannvirkjagerðar og þær geti með nokkurri framsýni unnið að heildarskipulagi byggðanna. Með tilliti til þess og einnig því, að Alþ. hefur áður veitt heimild til að selja bæði Eyrarbakkahreppi og Stokkseyrarhreppi öll lönd ríkissjóðs innan þeirra hreppa, mælir landbn. þessarar hv. d. með því, að frv. á þskj. 360 verði samþ. og að l. gert.