10.12.1965
Efri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

76. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 71 1963, hefur fengið afgreiðslu í hv. Nd. Þar hefur talsvert verið rætt um málið, og er hv. þdm. þessarar d. málið þess vegna kunnugt.

Frv. þetta er flutt til þess að afla vegasjóði tekna í stað 47 millj. kr., sem eru á fjárl. ársins 1965, en verða ekki teknar upp á fjárl. fyrir næsta ár. Til þess að geta staðið við vegáætlun þá, sem samþ. var 2. apríl s.l., verður því að afla tekna, sem nema a.m.k. þeirri upphæð. En samkv. þessu frv. verður aflað allmiklu meiri tekna. Það er gert ráð fyrir, að innflutningsgjald af benzíni verði nú 3.67 kr. í stað 2.77 kr. í gildandi lögum. Hækkun er þess vegna 90 aurar á lítra. Með því að gert er ráð fyrir, að benzínsala verði 65 millj. lítrar, verða tekjur af benzínsölunni vegna þessarar hækkunar 58 millj. Þá er gert ráð fyrir hækkun á þungaskatti 30–35%, og verða auknar tekjur af þungaskattinum samkv. þessu um 12 millj. Þegar tekið hefur verið tillit til endurgreiðslna samkv. gildandi l., en þær vitanlega hækka, um leið og þungaskatturinn hækkar og benzínið hækkar, er gert ráð fyrir, að nettótekjur af þessum gjaldaauka nemi 64 millj. kr. En þar sem ekki má gera ráð fyrir því, að full innheimta komi til á þessari hækkun á öllu árinu 1966, vegna þess að benzíngjaldið innheimtist ekki til vegagerðarinnar fyrr en 2 mánuðum eftir á, og vegna þess að gera má ráð fyrir, að einhverju verði lagt af dísilbílum, eru nettó-tekjur áætlaðar á árinu 1965 56.5 millj. kr. En þessi upphæð nægir til þess að koma í stað áðurnefndra 47 millj. kr. og til þess að unnt verði að vinna að þeim framkvæmdum, sem frestað var skv. heimild í fjárl. 1965, þ. e. 20% af því framlagi. Það nægir til þess að bæta upp 47 millj. og þær framkvæmdir, sem var frestað á þessu ári. Tekjur vegna þessa frv., ef að lögum verður, verða svo allmiklu meiri á árunum 1967 og 1968, sem kemur vegasjóði þá til góða.

Samkv. vegalögunum er heimilt að endurskoða vegáætlunina að hálfnuðu tímabilinu. Það er þess vegna heimilt að endurskoða gildandi vegáætlun næsta haust, fyrir árslok 1966. Endurskoðun á vegáætlun er vitanlega tilgangslaus, nema það sé eitthvert nýtt fé til ráðstöfunar í sambandi við þá endurskoðun. Sé gert ráð fyrir, að þetta frv. gefi um 70 millj. kr. miðað við heilt ár, er 23 millj. kr. tekjuaukning samkv. því fram yfir það, sem hefði verið, ef 47 millj. hefðu verið kyrrar í fjárl. og engar ráðstafanir gerðar. Ég tel, að 23 millj. kr. séu of lítið nýtt fé til þess að fullnægja þörfinni og til þess að fullnægja því markmiði, sem hlýtur að vera viðhaft, þegar vegáætlun er endurskoðuð. Þess vegna þarf meira fjármagn fyrir árið 1967 til ráðstöfunar í vegasjóði. Verður að gera ráðstafanir til þess af hendi ríkisstj. að afla þess fjár, annaðhvort fá það hjá ríkissjóði, hluta af innflutningsgjöldum af bifreiðum eða varahlutum, eða þá með öðrum hætti. Það hefur verið talað um, að það stæði til að leggja á nýjan skatt. Það má vel vera. En engin vissa er hér fyrir því. Allt fer það vitanlega eftir því, hvernig ríkisbúskapurinn verður. Æskilegast væri, að ríkissjóður væri svo vel stæður í árslok 1966, að hann gæti misst hluta af innflutningsgjöldum bifreiða eða tollum af varahlutum, án þess að lagðir væru á nýir skattar. En ég ætla ekki nú að vera með neina spádóma um það.

Ég vil aðeins segja það, sem ég veit að allir hv. þm. eru sammála um, að það er nauðsynlegt að afla vegasjóði aukinna tekna. En hvort það er gert með því að láta tekjurnar fyrst ganga inn í ríkissjóðinn og hafa svo á útgjaldahlið fjárl. einhverja upphæð, sem samsvarar þessum nýju tekjum, eða með því að láta nýju tekjurnar ganga beint í vegasjóðinn, það skiptir ekki máli fyrir vegaframkvæmdirnar. Það, sem skiptir máli fyrir vegaframkvæmdirnar, er, að fjármagnið verði aukið og að það verði vaxandi, en ekki það, hvort það er greitt fyrst úr ríkissjóði eða hvort það er greitt beint í vegasjóð.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þetta frv. Hv. þdm. þekkja það. Þeir vita, hvers vegna það er flutt. Hv. þm. gera sér ljósa grein fyrir þörfinni á því. Og vitanlega er það matsatriði, hvort þær viðbótartekjur, sem koma samkv. þessu frv., eiga að ganga í ríkissjóð eða vegasjóð. Það er matsatriði. Ef það hefði verið ákveðið strax, að þessar viðbótartekjur væru látnar ganga í ríkissjóð og á útgjaldahlið fjárl. fyrir árið 1966 hefðu ekki verið 47 millj. til veganna, heldur 56.5 eins og nettótekjur þessa frv. ákveða, þá er alveg vist, að ekki hefðu heyrzt svikabrigzl úr munni hv. þm. Ég veit ekki, hvort það má eiga von á því hér í hv. Ed., og geri alls ekki ráð fyrir því fyrir fram. En ég veit, að hv. þm. þessarar d. hafa séð á prenti og jafnvel heyrt, að það hefur verið talað um brigðmæli í sambandi við það, að 47 millj. kr. eru ekki teknar upp á fjárl. 1966. En það er ekki hægt að fullnægja óskum hv. Nd.-manna sumra með því að láta tekjurnar, sem þetta frv. gefur, ganga í ríkissjóð og hækka svo útgjaldahlið fjárl., ekki um 47 millj., heldur 56.5, eins og þetta frv. gefur.

Hv. þm. hafa stundum uppi orðaleiki, þótt oft sé það alvara, sem ræður, og það er öruggt mál. að þótt hv. alþm. deili um þetta mál eins og mörg önnur, þá er í rauninni, held ég, ekkert, sem á milli ber, þegar um vegamálin er að ræða. Það fer ekki eftir því, í hvaða stjórnmálaflokki hv. þm. eru, hvort þeir hafa áhuga á vegagerð og auknu fjármagni til vegagerðar eða ekki. Menn geta vitanlega haft skiptar skoðanir um það, hversu miklu fjármagni sé mögulegt að verja á hverjum tíma. En alltaf hefur það verið svo, síðan hér var farið að gera vegi, að það hefur verið þörf á auknu fjármagni og miklu meira fjármagni en unnt hefur verið að láta af hendi. Og hverjir sem hafa verið í ríkisstj., hvaða stjórnmálaflokkar sem hafa myndað ríkisstj., hefur þetta alltaf verið svona. Það hefur verið minna fé til þessara mála en æskilegt hefði verið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. við þessa umr., en vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.