10.12.1965
Efri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

76. mál, vegalög

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af fáeinum atriðum í ræðu hæstv. samgmrh.

Ég hafði líkt þessu máli við frv. af aflátsbréfi til handa hæstv. samgmrh. frá Alþ., en hæstv. ráðh. þóttist nú ekki aldeilis þurfa að sækja um aflát til Alþ. Viðhorf hæstv. ráðh. til þessarar hv. stofnunar kom greinilega í ljós. Það var ekki mikil ástæða til þess að fá neitt aflát eða syndafyrirgefningu þar, hvað sem á undan var gengið.

Það er aðallega eitt atriði, sem ég sé ástæðu til þess að ræða hér um örfá orð, vegna þess að hæstv. samgmrh. endurtók það hér, sem við höfðum raunar heyrt áður, að ef þessar nýju tekjur, sem á að afla með þessu frv., hefðu verið færðar gegnum ríkissjóð, hefði ekki verið um neina brigð að ræða, og kemur þannig í ljós, að hæstv. samgmrh. er ekki alveg fjarri því að viðurkenna, að með þessum hætti, sem hafður er, hafi þó verið um brigð að ræða. Ég vildi leyfa mér að benda aftur á, að það var tvímælalaus skilningur alþm., að þeir tekjustofnar, sem um ræðir í 85., 86. og 87. gr. vegal., skyldu renna til vegamála í heild sinni, þó að þeir yrðu hækkaðir. Alþm. gengu út frá því, sagði hæstv. ráðh. hér áðan, að þessi gjöld mundu verða hækkuð á tímabilinu. Ég er alls ekki fjarri því, að þeir kunni að hafa gengið út frá því, en þeir gengu þá út frá því, að það fé mundi renna til vegamálanna, en ekki til þess að koma í staðinn fyrir fjárveitingar, sem ríkissjóður sveikst um að koma með.

Þetta mál er alveg ljóst. Það er auðvitað hægt að stagla eitthvað um það, að hér sé um form og orðaleiki að ræða. En það breytir ekki því, að hér er um grundvallaratriði að ræða. Þær tekjur, sem fara yfir fjárl., eru annars eðlis. Það eru almennar tekjur, sem falla á þjóðina alla, en hér er um að ræða skatt á umferðina eina í 85., 86. og 87. gr. vegalaganna.

Hæstv. ráðh. rifjaði það upp, að ég hefði haldið því fram, að ríkið hefði tekið stórfé af umferðartekjunum í ríkissjóð til annarra þarfa, og taldi, að ég hefði átt að tala um fleiri ár í því sambandi, vegna þess, eins og hæstv. ráðh. sagði, að svona hefði þetta alltaf verið, að ríkissjóður hefði tekið stórfé af þessum umferðartekjum inn í ríkissjóð til annarra þarfa. Ég held, að það væri þarft fyrir hæstv. samgmrh., sem hefur gegnt því háa embætti nú um 6 ára skeið, að lesa grein, sem fyrrv. vegamálastjóri, Geir heitinn Zoëga, skrifaði í Fjármálatíðindi árið 1956, þar sem hann ræðir m. a. þessi mál og sýnir fram á, að fram til ársins 1954, þegar hæstv. núv. samgmrh. var viðskmrh., ef ég man rétt, hafi framlög á fjárl. til vegamála alltaf numið hærri upphæðum en tekjur af umferðinni námu, og telur hann þá tekjur af umferðinni og reiknar út með svipuðum hætti og gert er í skýrslu Félags ísl. bifreiðaeigenda, sem ég vísaði til áðan. Óraði mig ekki fyrir, að hæstv. samgmrh. mundi ekki vita þetta. Ég gerði satt að segja ráð fyrir því, að það þyrfti ekki að taka fram, enda tók ég það af þessum ástæðum ekki fram áðan. (Gripið fram í.) Það hefur alltaf verið svona, sagði hæstv. samgmrh. Árið 1954 breytist þetta, vegna þess að þá er farið að taka togaragjald á bifreiðar, en það rann ekki í ríkissjóð, það var þar um nokkurs konar gengislækkunarráðstöfun að ræða, rann til sérstaks sjóðs, sem úr voru veittar uppbætur. Það er ekki fyrr en síðar, að sá háttur hefur verið hafður á um þetta efni, sem nú hefur náð hámarki sínu.

Það skiptir mig ekki máli, sagði hæstv. ráðh., annað en það, að vegasjóður fái auknar tekjur, svo að við getum komizt lengra áfram í vegamálunum. Þannig lauk hæstv. ráðh. ræðu sinni, og ég vil vissulega taka undir þetta, að öðru leyti en því, að mig skiptir það nokkru máli, hvernig þetta fé er tekið. Og ég mundi ekki og er ekki reiðubúinn, hvorki nú né fyrr, til þess að fallast á það, að bara ef peningarnir komi í vegasjóðinn, skipti ekki máli, hvort þeir séu fengnir með þeim hætti, sem áður var gert ráð fyrir, eða einhverjum öðrum.