01.11.1965
Efri deild: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

43. mál, almannatryggingar

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt með sanni en að sjúkratryggingar hér á landi séu komnar í allgott horf, þegar á heildina er litið. Að vísu má sjálfsagt finna marga agnúa á þessari löggjöf, eins og raunar á flestum hlutum, en hinu verður ekki neitað, að sjúkratryggingar almannatrygginga eru nú svo fullkomnar sem bezt verður fundið í heiminum á því sviði. Skv. lögum er sérhverjum landsmanni nú skylt að trygga sér rétt til þeirra bóta, sem sjúkratryggingin veitir á hverjum tíma. Sjúkrasamlögin láta þessa hjálp í té, og í lögum er það ákveðið, hverja hjálp sjúkrasamlögin skuli veita og með hverjum hætti. Þannig er það ákveðið í lögum, að tryggður maður fái ókeypis víst í sjúkrahúsi, að hann fáí notið almennrar læknishjálpar utan sjúkrahúsa að mestu leyti ókeypis, að hann fái notið sérfræðilegra rannsókna og sérfræðilegrar læknishjálpar utan sjúkrahúsa að 3/4 hlutum, að hann fái nauðsynleg lyf, annaðhvort algerlega ókeypis eða greidd niður að verulegu leyti, og loks, að hann skuli fá sjúkradagpeninga í veikindaforföllum eftir vissum reglum.

Þegar litið er yfir þennan lista, þá dylst það ekki fróðum manni, að hér vantar eitt í, svo að hægt sé að segja með sanni það, sem ég raunar fullyrti áðan, að sjúkratryggingar séu nú á borð við það bezta, sem í heiminum finnst á þessu sviði, en það er tannlæknishjálp. Sjúkrasamlögin veita ekki tannlæknishjálp. Þetta er þó ekki af því, að forgöngumenn tryggingamálanna hafi ekki gert sér ljósa þörfina á þessari hjálp. Ákvæði um hana hafa verið sett í lög áður, en þau ákvæði hafa því miður aldrei orðið annað en pappírsgagn, ekki komið til framkvæmda.

Í gildandi l. um almannatryggingar er að vísu svo ákveðið, að sjúkrasamlög hafi heimild til þess að greiða tannlækningar, en það má segja, að þetta hafi ekki heldur komið til framkvæmda. Í grg. fyrir þessu frv. fullyrði ég, að ekkert sjúkrasamlag í landinu hafi fram að þessu greitt tannlæknishjálp og ekki útlit fyrir, að svo verði. Þetta er ekki alveg rétt, og ég vil leiðrétta það hér með. Ég sé það í skýrslu frá Tryggingastofnun ríkisins, að á árunum 1962 og 1963 hafa 2 kaupstaðasjúkrasamlög greitt litla upphæð til tannlækninga þ.e. Sjúkrasamlag Ísafjarðar og Sjúkrasamlag Seyðisfjarðar, sem hvort fyrir sig hafa veitt kringum 25 þús. kr. upphæð til tannlæknishjálpar. Ég hygg, að þar sé um að ræða tannlæknishjálp skólabarna. En þetta er undantekning, því að önnur sjúkrasamlög í landinu hafa haldið að sér höndum í þessu efni og veita ekki neina fyrirgreiðslu um tannlæknishjálp.

Ég hygg, að ég sé ekki einn um þá skoðun, ekki heldur hér í hv. d., að tannlæknishjálpin ætti að vera fastur liður meðal bóta, sem sjúkrasamlögin velta. Ég vil nefna tvennt til, sem styður þessa skoðun. Tannskemmdir eru mjög almennar með þjóðinni, og af tannskemmdum leiðir ýmiss konar böl, heilsufarslegt böl almennt. Þess vegna verða og hljóta tannlækningar að teljast mikilsverður þáttur í heilbrigðisþjónustu landsins almennt. Í öðru lagi er tannlæknishjálp mjög kostnaðarsöm hér á landi. Hún er svo dýr, að efnalitlu og sérstaklega barnmörgu fólki hlýtur að veitast erfitt að standa undir þeim kostnaði. Af þessum ástæðum báðum fer það ekki milli mála, að almenn skyldutrygging á þessu sviði á fullkomlega rétt á sér og verður raunar að teljast alveg nauðsynleg.

Á þessu vildi ég vekja athygli með flutningi þessa frv., en í því er gert ráð fyrir, að sjúkrasamlögin sjái hinum tryggðu fyrir tannlæknishjálp, ekki að fullu, heldur að 3/4 kostnaðar. Undanskildar eru þó vissar tannlæknisaðgerðir. Það eru aðgerðir, sem geta ekki talizt bein heilsufarsleg nauðsyn, og má þar nefna tannfyllingar með gulli og ýmiss konar fegrunaraðgerðir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að leitað verði samninga við tannlæknastéttina, á svipaðan hátt og leitað hefur verið til læknasamtakanna um samninga. Og mér þykir sanngjarnt, enda er gert ráð fyrir því í frv., að með samningsmál tannlækna verði farið nákvæmlega á sama hátt og með samningsmál lækna, en í l. um almannatryggingar eru ákvæði um þessi efni. Þar segir, að ef samningar takist ekki milli sjúkrasamlaga og lækna, skuli komið á fót gerðardómi, þar sem læknasamtökin eigi einn fulltrúa, sjúkrasamlagið annan og hlutlaus oddaaðili þann þriðja. Verði þessi dómur ekki fullskipaður, þ.e.a.s. ef annar aðili vill ekki sætta sig við gerðardóm, þá fellur hann niður, en sjúkrasamlögin geta þá brugðizt við á annan hátt, t.d. með því að ákveða að fella niður þennan lið gegn því að lækka iðgjöld eða að greiða þann ákveðna hluta, sem þeim þykir hæfa, af tannlæknishjálpinni til hinna tryggðu sjálfra skv. reikningi. Ég hygg, að það sé ekki ósanngjarnt að gera ráð fyrir því, að um samninga við tannlæknastéttina, tannlæknasamtökin fari á nákvæmlega sama hátt og ákveðið er í l. nú að fari um samninga við læknastéttina.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að ákvæðið um tannlæknishjálpina taki ekki gildi fyrr en að rúmu ári liðnu, þ.e.a.s. 1. jan. 1967. Það er gert til þess, að Tryggingastofnunin og sjúkrasamlögin hafi nægan tíma til undirbúningsframkvæmda á þessu sviði og ekki þá sízt til undirbúnings samninga við stéttarsamtök tannlækna um þessi mál.

Nú er ekki óeðlilegt, að hv. þingdeildarmenn spyrji: Hvað kostar þetta mikið? Hvað kostar það sjúkrasamlögin miklar árlegar upphæðir að veita tannlæknishjálpina að 3/4 hlutum? Ég verð að svara því til, að um það get ég ekki sagt. Ég hef ekki aðstöðu til að reikna það út á neinn fullnægjandi hátt. Ég vil aðeins nefna tölur, sem snerta sjúkrasamlögin og læknastéttina. Það eru tölur frá árinu 1963. Þá reyndist almenn læknishjálp utan sjúkrahúsa í Reykjavík og kaupstöðunum 13 samtals kosta rúmar 17 millj. kr. Og í þessum sjúkrasamlögum Reykjavikur og kaupstaðanna voru þá rúml. 75 þús. manns með fullri greiðsluskyldu. Allur lækniskostnaður á árinu 1963, þ.e.a.s. kostnaður vegna almennra lækna, háls-, nef- og eyrnalækna, augnlækna og annarra sérfræðinga, nam á þessu ári fyrir Reykjavik og kaupstaðina 30 millj kr. En allur kostnaðurinn utan sjúkrahúsa fyrir allt landið nam rúmum 40 millj. kr. á þessu ári, árinu 1963. Með tilliti til þessa og tilliti til þess, að í öllu landinu voru árið 1963 um 110 þús. gjaldskyldir sjúkrasamlagsmeðlimir, og með tilliti til þess, að í landinu eru nú á þessu ári um 80 starfandi tannlæknar, mundi ég lauslega vilja áætla kostnaðaraukann í sambandi við þessa löggjöf um 15 millj. kr. á ári. En ég hef allan fyrirvara um það, að þetta er mjög lausleg og ónákvæm áætlun. En segja mætti mér þó, að samkv. verðlagi í dag mundi þessi kostnaður nema einhvers staðar milli 12 og 18 millj. kr.

Ég veit ekki, hvort hv. þdm. finnst þetta mikill kostnaður, en ég verð að segja sem mína skoðun, að þetta er ekki mikil fórn, þegar litið er á, hvað fyrir hana fæst. Miklum árlegum útgjöldum verður létt af efnalitlu fólki og raunar öðrum, og þetta kemur sér mjög vel, eins og ég sagði áðan, fyrir hinar barnmörgu fjölskyldur í landinu. Ég lít svo á, að með þessari aukningu trygginganna hljóti að fylgja hækkun á iðgjöldum hinna tryggðu, og ég sé ekkert athugavert við það heldur, að iðgjöld hækki að sama skapi og þjónustan vex, að sama skapi og þær vaxa, bæturnar, sem hinir tryggðu fá.

Ég held ég þurfi ekki að hafa um þetta lengra mál að sinni. Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr; og félmn.