16.11.1965
Neðri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

67. mál, bátaábyrgðarfélög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var aðeins örstutt aths. í tilefni af því, sem fram kom í ræðu hv. 11. landsk. þm. Það var augljóst mál, að hann var mjög ánægður með þau frv., sem hér liggja fyrir, og má vera, að hann eigi nokkurn hlut að. En um það erum við sem sagt ekki fyllilega sammála, hvort þarna sé réttilega staðið að málum að öllu leyti. Hv. þm. sagði, þegar hann minntist örfáum orðum á það fyrirkomulag, sem nú er í gildi um starfsemi vátrygginga bátaflotans, að nú gilti í þessum efnum í öllum aðalatriðum sama fyrirkomulag og hefði verið á þeim tíma, sem ég hefði verið ráðh. En það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að halda það. Á árunum 1957 og 1958, þegar ég var sjútvmrh., var að vísu samið við fulltrúa bátaútvegsins og fulltrúa hinna ýmsu greina sjávarútvegsins um ýmis atriði. Það var samið árlega við þá um það, hvað hátt fiskverðið skyldi vera, og þá auðvitað um leið um það, hvað ríkið þurfti þar að láta af mörkum, og það var samið um ýmis tiltekin fríðindi þeim til handa, einnig um það að greiða ákveðinn hluta af vátryggingariðgjöldum bátaflotans. En á þeim tíma var, eins og greinilega kemur fram í grg. þessara frv., svo að segja allur bátafloti landsmanna skyldutryggður hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Á þeim tíma voru aðeins örfáir bátar fyrir ofan 100 tonna mörkin, svo að svo til allur bátaflotinn var þá bundinn af lagasetningu og bundinn um tiltekin iðgjöld og tilteknar bótagreiðslur, sem gengu eins yfir alla. En það var fyrst á árinu 1958, sem farið var að efna að einhverju ráði til þess að kaupa stærri báta. Fyrsti stærri stálbáturinn, sem keyptur var til landsins, kom ekki fyrr en á árinu 1958, þá 140 smál. bátur. Nokkrir hv. þm. úr röðum Sjálfstfl. fluttu síðan till. um á eftir, að slíkir bátar, sem væru svona stórir, 140 tonn og þar yfir, væru ekki rekstrarhæfir á Íslandi og ætti að senda þá til veiða suður við Afríkustrendur, af því að þeir væru ekki geranlegir út á Íslandi. Reynslan hefur nú sýnt það æðivel, hversu framsýnir þessir sjávarútvegsþm. úr röðum Sjálfstfl. voru þá. En það sem sagt tók talsvert á að berja það hér í gegn, að það væri grundvöllur fyrir því að reka hér nýtízku fiskiskip á Íslandi, um þetta leyti. Og það var sem sagt ekki fyrr en upp úr þessum tíma, að þessir bátar fóru að koma hér eitthvað við sögu. En svo bættust við mörg skip í fiskiskipaflota landsmanna af þessari stærð, og nú er svo komið, að meiri hluti bátaflotans, þegar miðað er við afkastagetu, er kominn yfir 100 rúml. stærðarmarkið, enda kemur nú í ljós, að meiri hl. fiskiskipaflotans eða fiskibátaflotans að verðmæti til er nú vátryggður hjá einkavátryggingafélögum eða sem sagt utan Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Auk þess kemur svo allur togaraflotinn. En þær reglur, sem nú eru í gildi, eru hins vegar þannig, að nú er lagður útflutningsskattur á allar útfluttar sjávarafurðir, þ.e.a.s. það er einnig verið að leggja hér ákveðinn skatt á trillubátaeigendur í landinu, sem yfirleitt fá báta sína ekki vátryggða, og margir aðrir eigendur smábáta borga miklu meira gegnum þetta útflutningsgjald í þennan sameiginlega sjóð heldur en sem nemur þeirra vátryggingagjöldum. En hins vegar er jafnhliða samþ. að borga vátryggingariðgjöld togaraflotans úr þessum sameiginlega sjóði, og það er enginn vafi á því, að hann borgar ekki nándar nærri sinn hluta í þennan sameiginlega sjóð. Það er því verið að færa hér á milli ýmissa tegunda fiskiskipaflotans og m.a. frá þeim smáu yfir til hinna stóru gegnum þetta fyrirkomulag. Engu slíku var til að dreifa áður. Það var samið alveg sérstaklega við togaraeigendur um ákveðinn styrk þeim til handa, og þeim var ekki á þennan hátt mismunað á neinn hátt. Þeir fengu sinn tiltekna styrk og gátu síðan vitanlega keypt tryggingar, eftir því sem þeir töldu sér bezt. En það er ekki aðeins nóg með það, að ýmsir greiði nú tiltölulega mjög skarðan hlut í þennan sameiginlega sjóð, heldur fá sömu aðilar miklu hærri bætur úr sjóðnum eða bætur út á ýmsa hluti, sem aðrir geta ekki fengið bætta úr þessum sjóði. Þetta fyrirkomulag er nýtt, var fyrst horfið inn á þessa braut 1960, og hefur þetta að fullu verið í gildi árið 1961 og eftirleiðis. Og því hefur auðvitað oft verið lofað hér í umr. á Alþ., að horfið yrði frá þessu kerfi, þessu mjög rangláta og hættulega kerfi. En það hefur ekki verið gert, og þau frv:, sem hér liggja fyrir varðandi vátryggingamálin, snerta ekki við þessu vandamáli.

Á árunum 1957 og 1958, þegar ég var sjútvmrh., lágu engar till. fyrir, hvorki frá hv. 11. landsk. þm., sem nú er, sem þá var einnig útgerðarmaður, né öðrum um það, að það þyrfti að endurskoða l. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Ekki barst mér nein beiðni um það að endurskoða þau lög. Kröfurnar voru ekki komnar upp þá. Það er miklu síðar, sem þetta vandamál hefur komið upp. Því er það, að það er ekki hægt að afsaka aðgerðarleysi í þessum málum eða finna vandræðaástandi, sem nú er í þessum efnum, réttlætingu með því að reyna að halda því fram, að sams konar ranglæti hafi verið í gildi fyrir 7—8—9 árum, ekki einu sinni sú leið dugir. En það, sem vitanlega skiptir hér öllu máli, er, að menn átti sig á því, að það fyrirkomulag, sem gildir í þessum efnum, er óhafandi og það á að breyta því, og það er vitanlega eðlilegt, að þeir menn, sem taka þessi mál til almennrar endurskoðunar um fyrirkomulag vátryggingarmálanna, taki á þessu höfuðvandamáli, sem ég hef hér minnzt á.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál að þessu sinni.