19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

14. mál, héraðsskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það var eitt atriði í báðum ræðum hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv., sem þörf er á að

leiðrétta. Hann talaði þannig eins og ríkisvaldið eða ríkisstj, hefði lagt hömlur á skólabyggingar sveitarfélaga, þegar þau hefðu óskað eftir því eða viljað leggja í skólabyggingar, talaði eins og ríkisstj. hefði lagt eitthvert bann við því, að sveitarfélög byggðu skóla fyrir eigið fé. Hér er um algeran misskilning að ræða. Það, sem ég hygg að hv. þm. eigi við, eru brbl. frá síðasta vori, sem nú hafa nýlega verið lögð fyrir hið háa Alþ. til staðfestingar, í framhaldi af lækkun framlaga á fjárl. þessa árs til skólabygginga eins og annarra framkvæmda um 1/5. Ég skal ekki ræða efni þeirra l., þau munu koma ýtarlega til umr. hér síðar, og þá skal ég með mikilli ánægju skýra tilgang þeirra l. og mjög góðan árangur þeirra. En það, sem ég hygg að hv. þm. eigi við, er það, að ákvörðun var um það tekin samkv. heimild brbl. að fresta greiðslu framlags ríkisins til þeirra sveitarfélaga, þar sem augljóst var, að framlag ríkisins að viðbættu beimafé sveitarfélaganna mundi ekki duga til þess að ljúka nothæfum áfanga skólabyggingar. Þess vegna var það ráð tekið að lána öðrum sveitarfélögum það fé, til þess að þau gætu lokið ákveðnum áfanga sinnar skólabyggingar og byggingu þess skóla, sem það sveitarfélag var að vinna að, yrði því hraðað. Kjarni brbl. var m.ö.o. sá að hraða byggingu þeirra skóla, sem lengst voru komnir, og koma þeim fyrr í gagnið en ella og nota til þess það fé, sem fyrirsjáanlegt var að ekki mundi koma að gagni við að ljúka neinum nothæfum áfanga neinnar skólabyggingar. Aftur á móti hefur ríkisstj. aldrei dottið í hug að banna neinu sveitarfélagi að hefja byggingu fyrir eigið fé, enda engin heimild til slíks. (EOI: Þegar skólinn er ekki á fjárlögum.) Sveitarstjórnum er að sjálfsögðu heimilt að nota eigið fé til þess að byggja fyrir án nokkurra afskipta ríkisvaldsins. Það eina, sem i þessu fólst, var, að frestað var greiðslu ákveðinna framlaga á fjárl. til síðara árs.

Þá eru nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég er honum algerlega sammála um, að aðalatriði málsins, sem um er að ræða, er auðvitað það, að nógir skólar séu reistir. Það er auðvitað kjarni málsins. Einmitt þess vegna er mjög til efs, að sú stefna, sem fram kemur í þessu frv., stuðli að auknum skólabyggingum. Ég segi það enn, að helzta nýmælið í þessu frv. er fólgið í því, að ríkið eitt skuli byggja tiltekna skóla, sem láta eigi í té fræðslu samkv. fræðslul., þó að núgildandi lög að öðru leyti geri ráð fyrir því, að hér skuli vera um sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga að ræða. Ég hika ekki við að fullyrða, að þetta spor sem almenn regla væri spor aftur á bak, og hér er um allt aðra stefnu í skólabyggingamálum að ræða, en ekki framfarastefnu. Ég er sannfærður um það, að einmitt sú regla, sem nú er fylgt, að jafnan sé um sameiginlegt átak sveitarfélaganna og ríkisins að ræða, sé líklegust til þess að hafa í för með sér sem mestar skólabyggingar, sem við auðvitað allir saman hljótum að óska eftir.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um það, hvers vegna héraðsskólarnir voru gerðir að ríkisskólum. Ég geri ráð fyrir, að ástæða geti verið til þess að ræða það mál nokkru nánar síðar. Það er ekki svo að skilja, að ég fagni ekki mjög vaxandi áhuga Framsfl. á skólamálum og þó alveg sérstaklega skólabyggingamálum. En ég kemst ekki hjá því að undirstrika, að þessum áhuga hefur ekki alltaf verið fyrir að fara og það ber greinilega meira á þessum áhuga þessa flokks á skólabyggingamálum hér á hinu háa Alþ., þar sem hann er í stjórnarandstöðu, en í þeim héruðum, þar sem hann er í meiri hl. eða ræður verulega. Ég segi það aftur: það fer mun meira fyrir áhuga Framsfl. á skólabyggingamálum hér á Alþ. heldur en í þeim héruðum í dreifbýlinu, þar sem hann fer með völd í héraðsstjórnarmálefnum. Þetta kom greinilega fram í sambandi við aðdraganda þess, að ríkið tók að sér rekstur héraðsskólanna. Ríkið sýndi í þessu máli öllu, að því er ég tel, mikinn skilning á nauðsyn og gagnsemi héraðsskólanna, svo sem sjálfsagt var. En í hópi þeirra manna, í hópi þeirra forsvarsmanna sýslufélaganna, sem vildu ekki halda áfram að greiða lögboðinn kostnað við héraðsskólana, voru ýmsir máttarstólpar Framsfl., sem nú við hvert tækifærið á fætur öðru telja ástæðu til þess að afflytja áhuga ríkisstj. á því að hafa skólabyggingar sem mestar. Væri e.t.v. ástæða til þess að rekja þá sögu alla við eitthvert gott tækifæri miklu nánar en nokkurn tíma hefur verið gert, þó að það sé ekki ástæða til þess að gera það hér. En í þeim 2—3 ára umr., sem fóru fram um framtíð héraðsskólanna og um örlög þeirra, leyfi ég mér að fullyrða, að þá varð ekki vart þess mikla áhuga, þeirrar fórnarlundar í þágu héraðsskólanna, sem nú er ætlazt til þess að lesið sé úr hjartnæmum ræðum sumra Framsóknarþm. varðandi héraðsskólana, m.a. báðum ræðum hv. 5. þm. Norðurl. e. um þetta efni.

Að því er snertir fræðsluskylduna og það, sem ég sagði áðan um það efni, að enn þá hefði aldrei staðið á ríkisvaldinu að samþykkja lengingu fræðsluskyldu í nokkru skólahéraði, kynni einnig að vera fróðlegt að athuga það nánar,. og vil ég beina því til n., sem um málið fjallar, að framkvæma þá athugun. Ég skal sjá til þess, að hún fái öll nauðsynleg gögn í þeim efnum, í hvaða skólahéruðum það sérstaklega er, sem fræðsluskyldan hefur ekki komið til framkvæmda, og hverjir þar fyrst og fremst fara með völd. Ég bygg, að það verði almenningi mjög fróðlegt að fá sem nákvæmastar fregnir um það efni. Þegar það liggur fyrir, getum við talað aftur saman hér í hv. d. um það, hverjir hafi sérstakan áhuga á því að hafa fræðsluskylduna til 15 ára aldurs, Framsfl. eða þeir flokkar, sem að ríkisstj. standa.

Vegna þess að hv. þm. gerði nokkuð mikið úr því í báðum ræðum sínum, að skortur væri á skólahúsnæði og ekki væri byggt nóg af nýjum skólum, tel ég rétt að skýra hér frá örfáum tölum um þetta efni. Ég skal ekki gera þetta að neinum almennum umr. um skólabyggingamál og því takmarka þetta við fáeinar upplýsingar, en vona, að þær verði þeim mun skýrari fyrir bragðið, og vil biðja bv. þm. að taka sérstaklega eftir því, hverjar tölur hér er um að ræða. En ég ætla að bera saman framlög ríkisins til byggingar barna- og gagnfræðaskóla

nokkur ár nú og fyrir stríð og nokkur ár í milli. Árið 1939 voru framlög ríkisins til byggingar barna- og gagnfræðaskóla aðeins 99 þús. kr. Árið 1939 hafði formaður Framsfl. verið fjmrh. í 5 ár. Samt sem áður voru framlög til byggingar barna- og gagnfræðaskóla á því ári ekki nema 99 þús. kr. Ef við tökum árið 1951, þegar formaður Framsfl. hafði verið fjmrh. í 12—13 ár, voru framlögin komin upp í 3.5 millj. kr. Ef við tökum árið 1959, þegar hann er hættur að vera fjmrh., fyrsta árið, sem hann er ekki fjmrh., eru þau komin upp í 16.7 millj. kr. Þá hafði formaður þess flokks verið fjmrh. í yfir 20 ár. En hvað eru þau í ár? Hvað skyldu framlögin til byggingar barna- og gagnfræðaskóla vera í ár? Þau eru 110.3 millj. kr.? Nú er engum ljósara en mér, að hér þarf auðvitað að taka tillit til þess, að byggingarkostnaður hefur verulega breytzt á svo löngum tíma, og þess vegna hef ég reiknað út, hver breyting hefur orðið á framlögum ríkisins til byggingar barna- og gagnfræðaskóla miðað við óbreyttan byggingarkostnað. 1951, þegar formaður Framsfl. hafði verið fjmrh. í 12—13 ár, voru þessi framlög aðeins fimm sinnum hærri en þau höfðu verið fyrir stríð. Eftir öll stórgróðaár stríðsins í millitíðinni eru framlögin ekki nema 5 sinnum hærri en þau höfðu verið 1939. Og 1959 eru framlögin þó ekki orðin nema 13 sinnum hærri en þau höfðu verið 1939. Á þeim 20 árum, sem liðin voru síðan 1939, voru framlögin þó ekki nema um það bil 13 sinnum hærri. Við höfðum þá verið saman í ríkisstj. í 2—3 ár, og þó að mér sé ánægja að minnast þess, að samvinna mín við Eystein Jónsson á þeim stjórnarárum var að mörgu leyti ágæt, hefði ég þó óskað eftir því, að hún hefði getað verið betri að því er snertir skólabyggingamál, og er enn þeirrar skoðunar, og ég harma það, að hún var þá ekki betri en hún var. Og þó jukust framlögin nokkuð á þeim árum. En hvað skyldu framlögin nú á árinu 1965 vera mörgum sinnum meiri en þau voru fyrir stríð, miðað við óbreyttan byggingarkostnað? Þau eru 48 sinnum meiri. Þau eru 48 sinnum meiri en þau voru fyrir stríð, miðað við óbreyttan byggingarkostnað. Geta menn þá borið saman þær stökkbreytingar, sem orðið hafa á allra síðustu árum, við þá allt of hægfara þróun, sem varð á áratugunum þar á undan. Ef við tökum eingöngu síðasta áratuginn eða árin síðan 1956, jukust framlög, miðað við óbreyttan byggingarkostnað, á árunum 1956—1959 um 50%, á árunum 1959—1962 jukust þau um 80%, og 1962—1965 jukust þau enn um 65%. Ég hygg, að þessar einföldu og skýru tölur taki af öll tvímæli um það, að núv. ríkisstj. hefur brennandi áhuga á því að hafa skólabyggingar sem allra mestar og hefur sýnt það í verki, að skólabyggingar hafa aukizt meir á valdatíma hennar en nokkurn tíma áður í sögu Alþingis. Ég segi þetta síður en svo þess vegna, að þetta eigi að verða núv. ríkisstj. til einhvers sérstaks hróss. Ég tel þetta vera sjálfsagðan hlut og tel raunar, að miklu meira þurfi að gera heldur en orðið er. Og það er stefna og það er vilji núv. ríkisstj., að svo verði.