19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

14. mál, héraðsskólar

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt hér á hv. Alþingi, þó að við heyrum það, framsóknarmenn, á hæstv. ráðh., að það, sem við flytjum hér á þinginu, sé óraunhæft yfirboð eða annað því um líkt. Við því er ekkert að segja, þó að hæstv. ráðh. temji sér þennan málflutning, og þeir mega vera sælir í sinni trú um sitt ágæti mín vegna. En þegar hæstv. ráðh. fara að eins og hæstv. menntmrh. gerði nú, að ráðast á fjarstadda menn fyrir það eitt, að þeir tilheyri Framsfl., og jafnvel framliðna, þá finnst mér of langt gengið.

Hæstv. ráðh. vildi koma því að í báðum ræðum sínum hér í þessum umr., að það, sem raunverulega skorti á í menntamálunum í landinu, væri, að þar sem framsóknarmenn réðu sveitarmálum eða héruðum, þar væri afturhaldssemi af þeirra hendi, en ekki það, að það stæði á ríkisvaldinu að koma í framkvæmd óskum þeirra, sem þangað kæmu. Út af þessu get ég ekki orða bundizt, því að hér er of langt gengið. Það nægir alveg að deila á okkur þingmenn flokksins, og það gerir okkur ekkert til, því að við sjáum, hvernig málin, sem við berum fram hér á hv. Alþingi, eru þá talin óverjandi og óferjandi, koma svo síðar í einhverri annarri mynd og eru þá talin hin beztu mál, af því að hæstv. ríkisstj. ætlar þá að brennimerkja sér þau, svo sem menntaskólamálin og fleiri slík mál.

En í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um, að ekki hefði verið neitað, að unglingar gætu notið framhaldsmenntunar, er því til að svara, að það er húsnæðið, sem stendur á, en ekki á öðru framkvæmdaleysi en því, að húsnæðið vantar, til þess að unglingarnir geti notið framhaldsnáms heima í héruðunum. Og hæstv. ráðh. veit það líka, þó að hvergi sé það bannað í lögum, að sveitarstjórnir megi byggja á eindæmi skólahús, þá er það tekið fram í lögunum um skólakostnað, að ríkið er ekki bundið af greiðslu til þess skólahúss, sem byggt er án samþykkis Alþingis. Þetta er í framkvæmdinni sama og bann. Hæstv. ráðh. veit það líka, að á hverju einasta þingi hafa legið fyrir umsóknir um barnaskólabyggingar, um héraðsskólabyggingar, um gagnfræðaskólabyggingar, sem hefur verið synjað. Á þeim árum, sem ég hef setið hér á hv. Alþingi, hefur þetta verið svo og farið sívaxandi, og ég benti á það á síðasta Alþingi, að 25% af þeim umsóknum, sem lágu fyrir um nýjar skólabyggingar, voru teknar inn á fjárl. Og hver er svo reynslan af þeim skólabyggingum, sem Alþingi samþ. að ættu að hefjast á þessu ári? Hæstv. ríkisstj. gaf út brbl. til þess að banna, að það mætti hefjast handa. Þetta er rausnin og reisnin yfir framkvæmd hæstv. núv. ríkisstj. í þessum málaflokki. Það er því ekki að undra, þó að hæstv. ráðh. komi hér og segi, að það standi á héraðsstjórnum, þar sem framsókuarmenn ráði, til þess að hægt sé að koma þessum málum í framkvæmd, þegar hv. Alþingi neitar 75% af umsóknunum og hæstv. ríkisstj. afganginum. Þannig er nú að þeim málum staðið.

Svo finnst hæstv. ráðh., að það sé skrýtið, að framsóknarmenn skuli sýna sérstakan áhuga á héraðsskólabyggingum. Frá hvaða árum eru héraðsskólarnir á Íslandi? Hverjir sátu í ríkisstjórnum, þegar þær byggingar voru gerðar? Það er frá valdaárum Framsfl. Það hefur ekki verið byggður héraðsskóli í tíð núverandi stjórnarflokka. Þær eru frá valdaárum Framsfl., þessar byggingar. Það er því ekkert undarlegt, þó að framsóknarmenn geti þar frómt úr flokki talað.

Svo kom hæstv. ráðh. með það, að ótugtar framsóknarmennirnir hefðu í héraðsstjórnum og svo hér á Alþingi komið því í gegn, að manni skildist, að ríkið greiddi allan kostnað við rekstur héraðsskólanna og endurbætur á þeim, sem fyrir voru. Það verður þó að segja þessum hæstv. ráðh. til verðugs hróss, að það var þó gerð hér á hv. Alþingi sú breyting, eftir að hann var orðinn menntmrh. Og ég er ekki viss um það, að allir hv. þm. vilji kenna þá breytingu við Framsókn eina. Hitt getur verið rétt. að um þá breytingu mætti deila eins og annað það, sem gert er, hvort það var alveg réttmætt að fara þar í 100% greiðslu, eins og gert var. Hitt getur ekki valdið deilum, að meðan það gildir um þá skóla, sem fyrir eru í landinu, og var gert fyrst og fremst vegna þess, að sýslufélögunum var ekki séð fyrir tekjustofni til þess að mæta þessum útgjöldum, hlýtur frv. að nýjum byggingum einnig að vera miðað við þessar reglur. Það geta ekki gilt tvenns lags lög um héraðsskólana í framtíðinni.

Svo var hæstv. ráðh. að vitna í það að lokum, að það væru hærri fjárveitingar til skólabygginga nú en verið hefðu fyrir stríð og upp úr 1950. En hæstv. ráðh. gleymdi einu. Það var fjárhæð fjárl. fyrir stríð. Hún var frá 12—20 millj., eitthvað svoleiðis, en nú kemur hún til með að vera 4 milljarðar. Þarf því engan að undra, þó að fjártölurnar til skólamálanna hafi hækkað einnig, ekki sízt þegar á það er litið, að fólkinu í landinu fjölgar mjög og kröfur til menntunar eru allt aðrar núna en þær voru fyrir stríð. Hæstv. ríkisstj. má mín vegna vera ánægð með sinn hlut í skólabyggingunum eins og í öðru, ef hana langar til þess. En staðreyndin er samt þessi, að þessi mál eru að verða vandræðamál, og hæstv. ráðh. væri maður að meiri, ef hann tæki á því verkefni, en færi ekki að kasta að fjarlægum sveitarstjórnum, af því að hann heldur, að forsvarsmenn þeirra séu framsóknarmenn.