19.10.1965
Neðri deild: 4. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

14. mál, héraðsskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér finnst óþarfi fyrir hv. framsóknarmenn að kvarta undan því, þótt þeim sé svarað í svipuðum tón og þeir tala sjálfir. Það var engan veginn meining mín að ráðast að einstökum mönnum úti um hinar dreifðu byggðir landsins, hvorki lífs né líðnum. En ég skil ekki, hvernig neinn getur verið hissa á því, þegar haldin er hver ræðan á fætur annarri og sagt í þskj., að börnum og unglingum sé mismunað, þeim sé veittur mismunandi réttur til löghelgaðrar skólagöngu eftir því, hvar þau búa á landinu, og látið að því liggja, þó að það sé ekki sagt beinlínis, að hér beri ríkisvaldið, ríkisstj., sérstaka ábyrgð á, — þá má enginn verða hissa, þó að því sé svarað og bent á sannleikann í málinu. Og hann er ofur einfaldur, eins og ég benti á í þeim orðum, sem ég sagði fyrst. Að svo miklu leyti sem skólaskylda til 15 ára aldurs er ekki komin til framkvæmda á Íslandi enn þrátt fyrir ákvæði gildandi laga frá 1956 um þetta efni, er þar ekki við ríkisstj. að sakast. Það er við aðra aðila að sakast, sem valdið hafa í sinni hendi um að láta skólaskyldu koma til framkvæmda til 15 ára aldurs. Ef hv. framsóknarmenn hefðu ekki hagað málflutningi sinum eins og þeir gera, hefði ég getað látið jafnsjálfsagðan hlut og þennan ósagðan. Þetta eiga þeir að vita engu síður en ég. Þetta eiga allir þm. að vita. En þegar á þessu er klifað í ræðum, í þskj. og í blöðum viku eftir viku, mega þeir ekki fyrtast, mega ekki verða hissa, þó að þeim sé svarað með því að segja sannleikann.

Hv. þm. gat þess alveg réttilega, að enginn héraðsskóli hefði verið byggður í tíð núverandi ríkisstj. Hér er enn eitt dæmi um þann brotasannleika, sem einkennir allan málflutning hv. framsóknarmanna um það efni, sem við erum nú að tala um. Þetta er satt og rétt, en allur sannleikurinn er sá, að það hefur enginn héraðsskóli verið byggður, síðan þau lög, sem giltu um héraðsskólana, þegar ríkið yfirtók þá, tóku gildi. Sannleikurinn er sá, að ekkert sýslufélag, sem skv. lögum frá 1946 átti aðild að héraðsskóla, treysti sér til þess að taka þátt í byggingu nýs héraðsskóla eða fullkomna endurbyggingu nokkurs héraðsskólanna, sem nú starfa í landinu, — ekkert þeirra. Og það var mjög skiljanlegt, að þeir vildu ekki taka þátt í byggingu nýrra héraðsskóla, þegar þeir vildu ekki taka þátt í rekstri skólanna. Ég er ekki hneykslaður á því, að þeir skuli ekki hafa viljað byggja nýja héraðsskóla á móti ríkinu, þegar þeir vildu ekki einu sinni greiða lögskipaðan kostnað við rekstur skólanna. En ef sannleikurinn er þessi, þá má segja. að þá er það sannarlega nokkuð hart, að ríkinu skuli vera legið á hálsi fyrir að hafa ekki byggt nýja héraðsskóla. Ríkið byggði þá skóla samkv. almennu skólalöggjöfinni, barna- og gagnfræðaskóla, til þess að sjá nemendum fyrir lögboðinni fræðslu. Héraðsskólarnir voru upphaflega öðruvísi hugsaðir, allt öðruvísi hugsaðir, nánast sem lýðháskólar. En grundvellinum var kippt undan þeim, hlutverki þeirra var breytt með nýju fræðslulöggjöfinni frá árunum 1946—47. Þetta breytti gervallri aðstöðu héraðsskólanna, auk þess sem þeim var fenginn allt annar fjárhagsgrundvöllur en almennum barna- og gagnfræðaskólum, og þetta átti auðvitað þátt í vandkvæðum héraðsskólanna. Þess vegna er það auðvitað verra en hálfur sannleikur að undirstrika það, að ríkið hafi enga héraðsskóla byggt á valdaárum núverandi ríkisstj., eins og það sé sérstaklega ámælisvert.

Varðandi það grundvallaratriði þess frumvarps, sem hér er til umræðu, að ríkið skuli byggja 8 nýja héraðsskóla eingöngu á sinn kostnað, vil ég aðeins endurtaka að síðustu, að hér er um algert nýmæli að ræða, sem nauðsynlegt er að Alþingi ræði sem grundvallaratriði. Ég hef þegar lýst skoðun minni á málinu, að það væri spor í afturhaldsátt, það væri spor aftur á bak að svipta sveitarfélögin allri aðild að rekstri barna- og gagnfræðaskóla og að byggingu barna og gagnfræðaskóla. Það væri stórt spor í afturhaldsátt, stórt spor aftur á bak. Og mér er mjög til efs, — það hef ég náttúrlega ekki kannað, — mér er mjög til efs, að slík stefna sé mótuð í samráði við helztu forvígismenn sveitarfélaganna í landinu eða t.d. Samband ísl. sveitarfélaga. Mér er það mjög til efs, án þess þó að ég hafi kannað það sérstaklega, en það er auðvitað hægt að gera. Auk þess er þar við að bæta, að Framsfl., sem nú stendur að flutningi þessa frv., stóð að núgildandi lögum um þetta efni. Lögin um sameiginlega aðild ríkis og sveitarfélaga að byggingu og rekstri barna- og gagnfræðaskóla eru frá árinu 1954. Þá voru hér í ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., og þau lög voru flutt sem stjfrv. þessara tveggja flokka. Og eins og ég sagði áðan, ég man ekki betur en allir flokkar á þinginu hafi verið sammála um allt meginefni þessara laga. Þessi lög hafa nú staðið í 11 ár, og nú skyndilega breytir Framsfl. algerlega um þessa grundvallarstefnu í skólabyggingarmálum og vill nú allt í einu láta ríkið byggja vissa tegund af skólum algerlega eitt og útiloka þannig alla aðild sveitarfélaganna þar að.

Það er rétt, sem hv. þm. segir, það er langur tími liðinn, 10 ár eru langur tími í þessum efnum, siðan þessi lög voru sett. Einmitt þess vegna hef ég gert ráðstafanir til þess að þau eru nú í endurskoðun. Ég bið niðurstöðu þeirrar endurskoðunar og mun leggja þær till., sem upp úr þeirri endurskoðun koma, fyrir hið háa Alþingi, eins og ég sagði áðan. Ég vona, að það geti orðið á þessu þingi. Mín persónulega skoðun er, að þessari grundvallarreglu eigi ekki að breyta. En hitt endurtek ég og skal láta það vera síðustu orðin, sem ég segi í þessum umr., að ég tel mjög vel koma til greina að breyta hlutfallinu á milli ríkissjóðs og sveitarsjóða í dreifbýlinu sveitarsjóðunum mjög verulega í vil. En um það mun Alþingi að sjálfsögðu fjalla á sínum tíma og taka endanlega ákvörðun þar um.