23.04.1966
Neðri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja framgang þessa máls með neinu málþófi. Ég get lýst stuðningi mínum við málið, þá hugmynd, sem þar kemur fram. Það vill svo til, að þetta frv. má

skoða sem eins konar skugga af frv., sem viðframsóknarmenn höfum flutt hér í hv. Nd. á undanförnum árum, og það er gleðilegt til þess að vita, að við höfum þó ekki unnið til einskis. — Ég er hér með mikinn bunka fyrir framan mig, — já, það er sennilegs fjórum sinnum búið að flytja þetta frv. hér, og mér sýnist, að það hafi þó borið þann árangur, að nú hefur hæstv. ríkisstj. talið sjálfsagt að taka undir þetta mál okkar með því að flytja þetta frv. Að sjálfsögðu er það ekkí á alla grein eins og við höfum lagt til, en hugmyndin er sú sama, og mér lízt á margan hátt vel á frv., eins og það liggur nú fyrir. En hér á árunum, meðan við vorum að flytja þetta frv., var því gjarnan vísað frá með rökst. dagskrá í ein tvö, þrjú skipti, minnir mig, en síðan hefur afstaðan breytzt, þannig að hæstv. ríkisstj. telur eðlilegt að taka undir þetta mál og hefur formað það í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Það eru nokkur ár síðan stofnaður var lítill sjóður, sem heitir atvinnubótasjóður, og framan af var talið í stjórnarherbúðunum eðlilegt að vísa þessum frv. okkar frá með þeim rökstuðningi, að atvinnubótasjóður væri starfandi. En eins og ég segi, hefur sá sjóður verið ákaflega févana, en eigi að síður gagnlegur sjóður á margan máta og hefur komið að góðu gagni viða. En hann hefur verið févana. Og ef ég á að bera saman fjárráð atvinnubótasjóðs, eins og þau hafa verið, við skulum segja þessar 10 millj., sem hafa verið aðalféð, sem sjóðurinn hefur haft til umráða, kannske örlítið meira stundum, er augljóst, að hér er um talsvert mikið aukið fjármagn að ræða. En það er rétt, sem ég efast ekki um að sé rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ráðstöfunarfé sjóðsins, þ.e. þessa nýja sjóðs, yrði á þessu ári um 44 millj. og kannske 50 millj. á næsta ári, þá er hér náttúrlega um verulega aukningu að ræða. En hins vegar má svo um það deila lengi, hvort þetta fé er nægilegt til þess að mæta þeim þörfum, sem raunverulega eru fyrir hendi í þjóðfélaginu til þess að skapa jafnvægi í byggð landsins. Og ég hygg nú, að það sé mjög hæpið, að það dugi, því að verkefnin eru ákaflega stór. Og þessi verkefni minnka ekki við það, að nú er ráðizt í þær stóru framkvæmdir hér á Suður- og Suðvesturlandi, sem verða aðalverkefni þjóðarinnar næstu árin, jafnvel má segja næstu áratugina, og það má mikið vera til þess að vega upp á móti því. Að vísu hefur hæstv. ráðh. bent okkur á hér, að þessi sjóður stækki og verði öflugri með árunum, og við skulum vona, að svo verði. En hins vegar dylst ekki, að megintekjur sjóðsins, sem eiga að vera skatttekjur af álbræðslunni, fara ekki að koma inn fyrr en á árinu 1970, eftir 4 ár, og á þeim tíma er mikið búið að gera til röskunar jafnvæginu í byggð landsins. En hitt er rétt, að sjóðurinn fær að vísu þarna allmiklu meira fé til ráðstöfunar en atvinnubótasjóður hefur haft, og það munar þó um það, sem það er. En ég vil vara mjög við því að fara að gylla það fyrir landsfólkinu, að þessi sjóður verði sem eins konar mótvægi móti því stóra plani, sem á að framkvæma hér á Suður- og Suðvesturlandi, sem er upp á marga milljarða króna.

Það er ekkert efamál, að álbræðslan á eftir að verða ný blóðtaka fyrir það, sem við köllum dreifbýlið, eða fyrir landsbyggðina, sem er utan þessa svæðis. Ég hygg, að hún verði ekki minni blóðtaka en við vitum nú af sögulegri reynslu að t.d. hernámið 1940 var og hervinnan á Keflavíkurvelli 1951 og á þeim árum reyndist líka.

Þetta tvennt, bæði hernámið 1940 og síðan vera hersins og þau miklu umsvif, sem urðu í Keflavík, — þetta tvennt varð til þess að raska mjög jafnvægi í byggð landsins, flytja fólkið til, og ég er ósköp hræddur um, að það sama sé að ske nú, og þó að það frv., sem hér er, sé allra góðra gjalda vert, þá verði það þó til lítils í því að vega þar upp á móti. Því miður er nú svo komið, að byggðin er að færast á eitt landshornið, þ.e. Reykjavík og næstu sveitir. Hér í Reykjavík og næstu sveitum býr orðið meira en helmingur landsmanna. Það býr orðið meira en helmingur landsmanna hér, og manni sýnist, að það fari ekki minnkandi. Aftur móti er ástandið þannig úti um landið, að þar virðist fækka fólkinu. Ég segi ekki, að því fækki beinlínis að tölunni til, en því fækkar hlutfallslega miðað við þá fjölgun, sem annars er í landinu. Og það er sú hætta, sem yfir okkur vofir og hefur lengi vofað yfir, en við ættu að vera farnir að þekkja. Og sá sogkraftur, sem héðan kemur að sunnan, hann mun sízt minnka núna, þegar þessar miklu álbræðslufra kvæmdir koma til sögunnar.

Það berast fréttir af því norðan af Akureyri, að nú þegar sé farið að hringja í vinnumálaskrifstofuna þar, ekki bara úr Akureyrarbæ, heldur líka úr nágrannabyggðunum, og spyrjast fyrir um vinnuna hér syðra. Menn fylgjast með því, hvað er að gerast í atvinnumálunum, og þangað leitar fólkið, sem að hefur mesta von um vinnu, og ég efast ekki um, að það verður eitt meiri háttar „rennirí“ af verkafólki norðan úr landi og hingað suður.

En hvað sem því líður, ég tek þess frv. vel og vona, að það, eins og það er að höfuðstefnu, nái fram að ganga. Lengra verður vist ekki komizt í bili í þessu máli. En ég geri mér ekki neinar gyllivonir um, að það verði til þess að valda straumhvörfum í því, sem við höfum lengi átt í höggi við, sem sé að fólkið flytji hin að suður í einn stað og að atvinnan aftur á móti og atvinnuuppbyggingin sé lítil og ótraus úti um landið. Ég óttast því miður, að þetta frv. verði ekki til þess að valda neinum straumhvörfum í því, ekki sízt þegar það ber að höndum samtímis þessum stórkostlegu framkvæmdum, sem nú er um að ræða og við allir þekkjum og munu hafa það í för með sér, að þúsundir manna flytja sig til í landinu á næstu árum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, — en geri ráð fyrir því, að þetta mál gangi til nefndar, og væntanlega verður það rætt þar og þá fluttar brtt. Sjálfur hef ég engar brtt. að flytja á þessu stigi.